Í „Málspjalli“ var í dag vakin athygli á fyrirsögninni „Snör viðbrögð komu í veg fyrir að ekki fór verr“ á mbl.is – spurt „Ætli hafi þá farið illa?“ og bætt við: „Þessar tvöföldu neitanir geta ruglað mann í ríminu.“ Það er vissulega rétt að koma í veg fyrir felur í sér eins konar neitun, og ekki er vitanlega neitandi atviksorð. Ef sagt er snör viðbrögð komu í veg fyrir að húsið brynni er ljóst að húsið brann ekki, en ef neituninni ekki er skotið inn og sagt snör viðbrögð komu í veg fyrir að ekki brynni hlýtur það að snúa merkingunni við, og setningin þá að merkja 'snör viðbrögð komu í veg fyrir að húsinu væri forðað frá bruna' – eða hvað? Hlýtur ekki tungumálið að vera rökrétt? Hljóta ekki neitanirnar að vega hvor aðra upp?
Ekki endilega. Það má benda á ýmis dæmi um að merking setninga með tveimur (eða fleiri) neitunum sé „órökrétt“, þ.e. ekki sú sem búast mætti við ef neitanirnar eru taldar saman. Sambandið ekki ósjaldan er t.d. nær alltaf notað í merkingunni 'ósjaldan' en ekki í merkingunni 'alloft' eins og þó mætti búast við þar sem ósjaldan er neitað. Sambandið ekki óvitlaust er líka yfirleitt notað í merkingunni 'óvitlaust'. Sambandið óhjákvæmilegt annað en er nær alltaf notað í merkingunni 'óhjákvæmilegt' enda þótt annað en með lýsingarorði hafi yfirleitt það hlutverk að fá fram andstæða merkingu við orðið sem það fylgir. Sögnin afþíða er alltaf notuð í merkingunni 'affrysta, láta þiðna' þótt af- snúi venjulega við merkingu eftirfarandi sagnar.
Í Baldri 1903 er talað um „hvernig hægt sje að koma í veg fyrir að ekki þurfi að eyða jafn mörgum dagsverkum, og gjört hefir verið, til endurbóta á sömu vegaköflum ár eftir ár“. Í Alþýðumanninum 1953 segir: „Ver ríkisstjórnin á þessu ári allt að 9 millj. kr. til að greiða niður smjör og koma í veg fyrir að ekki safnist frekari birgðir.“ Í Morgunblaðinu 1975 segir: „Gyða Úlfarsdóttir í íslenzka markinu átti aftur stórleik, og það var fyrst og fremst hún sem kom í veg fyrir að ekki fór verr.“ Í Alþýðublaðinu 1987 segir: „Við verðum að einhenda okkur í það að koma í veg fyrir að ekki verði tvær þjóðir í landinu.“ Í Morgunblaðinu 2013 segir: „Hann telur ljóst að hlífðarbúnaður þeirra og þjálfun hafi komið í veg fyrir að ekki fór verr.“
Í þessum dæmum, og í öðrum dæmum á tímarit.is sem eru um áttatíu alveg frá byrjun tuttugustu aldar til samtímans, er merkingin í koma í veg fyrir að ekki (gerist eitthvað) greinilega 'koma í veg fyrir að eitthvað gerist' – neitunin ekki núllast sem sé út. Vissulega finnst sumum það ótækt að nota áðurnefnd orð og sambönd á „órökréttan“ hátt, en í öllum tilvikum er um skýra málvenju að ræða sem fráleitt væri að hafna – þessi notkun hlýtur að teljast rétt. Áðurnefndri fyrirsögn hefur reyndar verið breytt og er nú „Snör viðbrögð komu í veg fyrir að verr fór“. Þar hefur þó tekist óhönduglega til því að samkvæmt málhefð ætti þarna að vera viðtengingarháttur, færi. Það bendir til þess að notkun sambandsins án ekki sé málnotendum framandi.