Ég hef stundum skrifað um orðasambönd þar sem ýmist er notuð forsetningin að eða af, svo sem leita að/af, að/af gefnu tilefni o.fl. Í þessum samböndum, sem eru fjölmörg, er önnur forsetningin jafnan talin „rétt“ en hin „röng“, þrátt fyrir að sú „ranga“ sé stundum mjög algeng og eigi sér langa sögu í sambandinu. Eitt þessara sambanda er gera mikið/lítið að/af einhverju. Í Málfarsbankanum kemur fram að þar eigi að nota forsetninguna að og sama máli gegnir um Íslenska orðabók og Íslensk-danska orðabók frá 1920-1924. En þetta hefur þó lengi vafist fyrir málnotendum, jafnvel þeim sem skrifa um íslenskt mál. Það kom glöggt fram í pistli Guðna Kolbeinsson um að og af í „Íslenskuþætti Alþýðublaðsins“ árið 1976, fyrir hálfri öld:
„Einn af lesendum þessa blaðs hringdi til mín nýlega og kvaðst hafa séð málvillu í einum íslenskuþættinum hér i blaðinu. Hefði þar verið talað um að gera mikið af einhverju í stað mikið að einhverju. Kvað hann rugling í þessu orðasambandi mjög algengan. Ég varð að kannast við að það væri mér eðlilegt mál að tala um að gera mikið eða lítið af einhverju og sannfærðist raunar ekki um að ég færi hér villur vega fyrr en ég hafði flett upp í tiltækum orðabókum. Varð ég þá að játa afglöp mín. Hér er á ferðinni enn eitt dæmið um rugling á að og af. Að vísu vel skiljanlegan rugling þar sem oft er talað um mikið af einhverju [...], en samt fer þessi málanotkun: að gera mikið af einhverju, í bága við málhefð og er skylt að forðast hana.“
Þarna má spyrja hvað það merki að fara „í bága við málhefð“. Það er ljóst að þótt gera mikið að sé vissulega eldra var gera mikið af engin nýjung á þessum tíma – elstu dæmi um það eru frá nítjándu öld. Í Þjóðólfi 1886 segir: „aldrei er gert of mikið af því sem gott er.“ Í Heimskringlu 1891 segir: „enda gerði hann ekki mikið af því.“ Í Skírni 1896 segir: „En enskir menn hafa gert mikið af að nema sér lönd á svæði þessu.“ Upp úr aldamótum fara að sjást fleiri og fleiri dæmi um af í þessu sambandi á tímarit.is og upp úr miðri öldinni verður það algengara en að þannig að óhætt er að fullyrða að hefð hafi verið komin á sambandið gera mikið af fyrir hálfri öld, þegar Guðni Kolbeinsson sagði að það færi „í bága við málhefð“.
Sambandið af öllu má of mikið gera eða of mikið má af öllu gera hefur þó sérstöðu – það er fast orðasamband eins og hin óvenjulega orðaröð með sögnina gera aftast bendir til og merkir 'allt er best í hófi' eins og fram kemur hjá Jóni G. Friðjónssyni í Merg málsins. Elsta dæmi um það er í Lanztíðindum 1850: „of mikið má af öllu gjöra.“ Í Norðra 1855 segir: „þá má þó of mikið af öllu gjöra.“ Í Austra 1885 segir: „Af öllu má of mikið gera.“ Í þessu sambandi var forsetningin af sem sé notuð frá upphafi, og er ekki ólíklegt að það hafi stuðlað að notkun hennar í öðrum samböndum þar sem gera og mikið koma saman. En ekki kemur á óvart að áhrifa í hina áttina gæti einnig: „Frá fyrri hluta 20. aldar eru kunn afbrigði með að“ segir Jón G. Friðjónsson.
Þótt af næði yfirhöndinni í gera mikið af var lengi haldið áfram að gera athugasemdir við það. Í Þjóðviljanum 1962 er þessi vísa um „málblóm Alþýðublaðsmanna“: „Aungvum líkjast AB menn, / ógn er málið skrítið: / þeir gera mikið AF ÞVÍ enn / en AÐ ÞVÍ heldur Iítið.“ Í bréfi sem Gísli Jónsson birti í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1985 segir: „þessi villa er rótgróin.“ Jón Aðalsteinn Jónsson sagði í þættinum „Orðabókin“ í Morgunblaðinu 1990: „Þá hefur verið ruglazt á samb. að gera mikið að e-u og sett af í staðinn.“ Helgi Skúli Kjartansson nefndi þetta líka í Íslensku máli 2004 í umræðu um það „vandamál að velja á milli forsetninganna að og af í vissum orðasamböndum þar sem mjótt er á munum merkingarlega.“
Það er nefnilega erfitt að finna einhver merkingarleg rök fyrir vali milli að og af í þessu sambandi. Oft er vísað til þess að grunnmerking forsetninganna sé ólík eins og fram komi í Íslenskri orðsifjabók – að merki ‚í áttina til‘ en af merki ‚frá, burt‘. En hvoruga merkinguna er auðvelt að tengja við gera mikið að/af – Jón G. Friðjónsson segist í pistli í Málfarsbankanum hafa talið að merkingar- og notkunarmunur að og af „væri mikill og augljós, aðeins í nokkrum tilvikum gætti óvissu, t.d. gera mikið/lítið að/(af) einhverju“. Eins og Gísli Jónsson benti á í Morgunblaðinu 1985 má þó vissulega styðjast við það „að nafnorð sem samsvara að gera mikið að einhverju eru auðvitað aðgerðir og aðgerðaleysi, ekki afgerðir eða afgerðaleysi“.
En baráttan fyrir að í þessu sambandi er augljóslega löngu töpuð – og var töpuð þegar fyrir hálfri öld þótt Guðni Kolbeinsson segði gera mikið að þá fara „í bága við málhefð“. Í Risamálheildinni er af meira en tíu sinnum algengara en að og í Íslenskri nútímamálsorðabók er eingöngu gefið sambandið gera mikið af, enda er það væntanlega í samræmi við málkennd meginhluta málnotenda undanfarna áratugi og gera mikið að er líklega flestum framandi. Það er athyglisvert að enda þótt gera mikið að sé enn að finna í lista um sambönd sem eiga að taka að í Málfarsbankanum virðist sérstök grein um það (sem fram kemur ef gera er flett upp á Málið.is) vera horfin. Hugsanlega má túlka það svo að gera mikið af sé nú viðurkennt mál.

+354-861-6417
eirikurr