Posted on

„Rökleysa“ og „ósamræmi“ – vegna vetrarhörku

Í „Málspjalli“ var í gær vísað í fyrirsögnina „Lýsa yfir neyðarástandi vegna vetraharkna“ á mbl.is og spurt hvort þetta væri ekki „óvenjuleg notkun á vetrahörku“. Þarna vantar reyndar r inn í orðið því að venjulega er fyrri liðurinn hafður í eignarfalli eintölu, vetrarharka, en ég held að það hafi ekki verið ástæða spurningarinnar, heldur seinni hlutinn, -harkna. Það er alveg rétt að myndin vetrarharkna er harla óvenjuleg – um hana eru aðeins fjögur dæmi á tímarit.is og ekkert í Risamálheildinni. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er eignarfall fleirtölu gefið upp bæði með og án n, vetrarharka og vetrarharkna. Sama gildir um merkingarskylt orð með frost- sem fyrri lið – bæði frostharka og frostharkna er gefið upp sem eignarfall fleirtölu.

Það er samt ekki svo að n-lausar myndir af eignarfalli fleirtölu þessara orða séu eitthvað meira notaðar. Þvert á móti – ég finn engin dæmi um að sagt sé t.d. *vegna vetrarharka eða *sökum frostharka. Á tímarit.is eru aftur á móti um hundrað dæmi um eignarfall eintölu þessara orða í samböndunum vegna/sökum vetrarhörku/frosthörku, og í Risamálheildinni eru dæmin tæp fimmtíu. Það sem er athyglisvert í þessu er að þessi orð eru annars næstum aldrei notuð í eintölu – í Íslenskri nútímamálsorðabók er fleirtalan vetrarhörkur uppflettimynd, og sama gildir um frosthörkur. Í Íslenskri orðabók er frostharka uppflettimynd en sagt „oft í ft.“. Í Íslensk-danskri orðabók 1920-1924 er frostharka skýrt 'stærk Frost' en frosthörkur 'vedholdende stærk Frost'.

Þarna eru sem sé orð sem næstum alltaf eru höfð í fleirtölu, vetrarhörkur og frosthörkur, en þegar kemur að eignarfallinu bregður öðruvísi við – þá er næstum alltaf notuð eintalan vetrarhörku/frosthörku í stað fleirtölunnar vetrarhark(n)a/frosthark(n)a. Þetta kann í fljótu bragði að virðast mjög sérkennilegt en á sér þó ýmsar hliðstæður. Ég hef oft skrifað um það að málnotendur virðast forðast að nota eignarfall fleirtölu veikra kvenkynsorða í fyrri lið samsettra orða enda þótt það væri „rökrétt“ og nota eignarfall eintölu í staðinn – stjörnuskoðun, perutré, gráfíkjukaka, í stað *stjarnaskoðun, *per(n)atré, *gráfíknakaka. Væntanlega er það vegna þess að eignarfall fleirtölu fellur saman við nefnifall eintölu, eða myndir með n hljóma torkennilega.

En vegna þess að þarna er um að ræða fyrri lið í samsetningum hljótast engin víxl í beygingu af þessu – eintölumyndin er notuð í öllum föllum samsettu orðanna. Í orðunum vetrarhörkur og frosthörkur eru aftur á móti víxl innan beygingardæmanna – fleirtala notuð í nefnifalli, þolfalli og þágufalli en eintala í eignarfalli. Það sem er áhugavert er að við tökum ekkert eftir þessu – við notum eintöluna umhugsunarlaust í eignarfallinu og hugsum ekkert út í það að þarna er í raun ósamræmi og vitanlega ekkert „rökrétt“. En þannig er tungumálið – það er fullt af hvers kyns ósamræmi og „rökleysu“ sem truflar okkur ekki neitt og veldur engum skaða. Þvert á móti – tungumál sem er fullkomlega „rökrétt“ er nefnilega bara dautt og leiðinlegt.