Nú er Gunna á nýju skónum

Eins og alkunna er og ég hef stundum skrifað um skarast notkunarsvið forsetninganna á og í mjög oft. Oft er hægt að nota þær báðar með sömu eða hliðstæðum nafnorðum – stundum í sömu merkingu en oftast er þó einhver blæbrigðamunur á. Einn hópur orða þar sem báðar forsetningar eru notaðar en í aðeins mismunandi hlutverkum eru orð um fatnað. Við förum í föt og erum í fötum – þar er ekki hægt að nota á. Hins vegar er oft hægt að nota á um tilteknar flíkur við tilteknar aðstæður. Í kvæðinu „Aðfangadagskvöld“ eftir Ragnar Jóhannesson er Gunna á nýju skónum, Siggi á síðum buxum og Solla á bláum kjól. Hins vegar væri tæpast hægt að segja Gunna er á skóm, Siggi er á buxum og Solla er á kjól – þar yrði að vera í.

Það virðist sem í sé hin sjálfgefna og hlutlausa forsetning um föt – hún er notuð til að tilgreina að fólk sé klætt í tiltekinn fatnað, án þess að honum sé lýst nánar. Þegar fatnaðinum er lýst á einhvern hátt, tegund flíkur tilgreind eða vísað til tiltekinnar flíkur er hins vegar hægt að nota á, eins og í dæmunum hér að framan. Um þetta mætti taka fjölmörg dæmi. Það er tæpast hægt að vera á sokkum, en á sextándu öld var uppi kona sem var kölluð Ragnheiður á rauðum sokkum. Það er ekki heldur hægt að vera á treyju en Valtýr á grænni treyju er þekkt þjóðsagnapersóna. Þótt tæpast sé hægt að vera á skóm er til bók sem heitir Strákur á kúskinnsskóm. Það er líka hægt að vera á blankskóm, á stuttbuxum o.m.fl.

Forsetningin á er sem sé yfirleitt ekki notuð með dæmigerðum orðum um tilteknar flíkur, eins og buxur, skyrta, kjóll, sokkar, skór o.fl., nema þeim sé lýst nánar, annaðhvort með lýsingarorði eða í samsettu orði. Ef hún er notuð með slíkum orðum er yfirleitt um eitthvað óvenjulegt er að ræða. „Þér vil eg kenna að þekkja sprund / sem þar á buxum ganga“ kvað Sigurður Breiðfjörð eftir Grænlandsdvöl sína. Á þessum tíma þekktist það ekki á Íslandi að konur klæddustu buxum og þess vegna er á buxum eðlilegt. Í vísu eftir Símon Dalaskáld um Steingrím bónda á Silfrastöðum segir: „Hann er á tíu buxum“ (eða í annarri útgáfu „stendur á tíu buxum“) – það er vitanlega óvenjulegt að klæðast svo mörgum buxum og þess vegna er notað á.

Það eru ýmis tilbrigði í þessu og væntanlega munur milli málnotenda á því hvenær eðlilegt þykir að nota á, og þótt hægt sé að nota á við tilteknar aðstæður virðist það aldrei vera skylda – alltaf er hægt að nota í, líka þar sem á væri mögulegt. Gott dæmi um það er að finna í laginu „Sandalar“ þar sem Laddi syngur „Í sandölum og ermalausum bol“. Það er alveg eðlilegt, en vegna þess að sandalar er ekki hlutlaust orð um skó heldur ákveðin tegund, og bolnum er lýst – hann er ermalaus – gæti hann eins sungið Á sandölum og ermalausum bol. Það er líka ljóst af dæmum á netinu að iðulega er vitnað í þessa ljóðlínu með á – í Risamálheildinni eru t.d. fjórtán dæmi með í en tíu með á, sem sýnir að mörgum málnotendum finnst eðlilegt að hafa á þarna.

Þetta á við notkun forsetninganna með greinislausum nafnorðum en öðru máli gegnir þegar nafnorðið hefur ákveðinn greini. Yfirleitt er ekki hægt að nota ákveðinn greini nema orðið sem um er að ræða hafi verið nefnt áður. Þess vegna getum við ekki sagt ég er í skyrtunni nema vísað sé til ákveðinnar skyrtu sem búið er að nefna. En notkun með á lýtur ekki þeim reglum – við getum sagt ég er á skyrtunni án þess að nokkur skyrta hafi verið nefnd. Þar er hins vegar ekki vísað til tiltekinnar skyrtu, heldur verið að lýsa því hvernig ég er klæddur. Nafnorðið vísar til þess í hverju er verið yst klæða, og forsendan fyrir því að nota á og ákveðinn greini með heiti flíkur er sú að klæðnaðurinn sé lítill, eða minni en við væri að búast við tilteknar aðstæður.

Þannig getum við sagt ég er á brókinni, ég er á bolnum, ég er á skyrtunni, ég er á náttfötunum, ég er á sokkaleistunum, ég er á inniskónum o.fl. vegna þess að sá klæðnaður er frekar lítill við flestar aðstæður, en ekki *ég er á úlpunni, *ég er á buxunum eða slíkt vegna þess að sá klæðnaður er varla nokkurn tíma minni en við væri að búast. Oft fer það eftir aðstæðum hvort hægt er að nota á og ákveðinn greini – þótt við gætum sagt ég er á peysunni í hörkufrosti um hávetur væri það mjög óeðlilegt í sumarhita. Í óformlegu máli og með óformlegum orðum hefur þessi notkun á og ákveðins greinis víkkað út og nær til þess að vera ekki bara léttklæddur heldur í alls engu – talað er um að vera á túttunum, vera á pjöllunni, vera á sprellanum o.fl.

Kjarnorkuákvæðið

Hið svokallaða kjarnorkuákvæði er mjög til umræðu þessa dagana. Þar er vísað til 71. greinar Laga um þingsköp Alþingis þar sem segir m.a.; „Ef umræður dragast úr hófi fram getur forseti úrskurðað að ræðutími hvers þingmanns skuli ekki fara fram úr ákveðinni tímalengd. Forseti getur stungið upp á að umræðum sé hætt og einnig getur forseti lagt til, hvort heldur í byrjun umræðu eða síðar, að umræðum um mál skuli lokið að liðnum ákveðnum tíma. Eigi má þó, meðan nokkur þingmaður kveður sér hljóðs, takmarka ræðutíma við nokkra umræðu svo að hún standi skemur en þrjár klukkustundir alls. Tillögur forseta skulu umræðulaust bornar undir atkvæði og ræður afl atkvæða úrslitum.“ En hvers vegna er þetta kallað kjarnorkuákvæði?

Þetta er bein þýðing á the nuclear option sem vísar til ákvæðis sem unnt er að nota til að stöðva málþóf í öldungadeild Bandaríkjaþings. Þar kom heitið upp árið 2003 og vísar til þess að beiting ákvæðisins sé örþrifaráð sem geti haft alvarleg og eyðileggjandi áhrif á báða deiluaðila, rétt eins og beiting kjarnorkusprengju. Elsta dæmi sem ég þekki um orðið kjarnorkuákvæði í íslensku er í viðtali í Morgunblaðinu 2012 en þar segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þáverandi formaður Framsóknarflokksins, sem þá var í stjórnarandstöðu: „Mér finnst ólíklegt að ríkisstjórnin muni beita því sem í daglegu tali er kallað kjarnorkuákvæðið og hefur ekki verið beitt, að mér skilst, síðan 1949 þegar það urðu óeirðir á Austurvelli vegna aðildar að Nató.“

Ákvæðið hefur reyndar verið notað eftir það, en það skiptir ekki máli hér. En þótt Sigmundur Davíð hafi vísað til þess árið 2012 að orðið sé notað „í daglegu tali“ er ekkert sem bendir til þess að svo hafi verið og ekki ólíklegt að hann hafi sjálfur komið með orðið úr ensku inn í íslenska umræðu. Þrátt fyrir að umrætt ákvæði hafi lengi verið í þingsköpum og málþóf hafi margoft verið stundað á Alþingi bæði fyrr og síðar, og leiðir til að stöðva það hafi iðulega verið til umræðu, kemur orðið kjarnorkuákvæði aðeins fyrir í þetta eina skipti svo að ég viti fram til 2019. Þá brá því fyrir nokkrum sinnum í umræðu um að stöðva málþóf Miðflokksins um þriðja orkupakkann, en hefur svo lítið sést aftur fyrr en nú þegar það er í öllum fréttum.

Orðið kjarnorkuákvæði er vitanlega mjög gildishlaðið og augljóslega notað sem grýla til að fæla frá notkun ákvæðisins. Það er líka augljóst hvernig tilkoma orðsins hefur breytt umræðunni um ákvæðið – ekkert bendir til þess að beiting þess í fyrri skipti hafi haft alvarlegar afleiðingar og áður var stundum rætt um beitingu þess án þess að nokkuð væri ýjað að alvarlegum afleiðingum. „Það eru leiðir í þingsköpum til þess að stöðva málþóf. Í þingsköpum er að finna 71. greinina. Hún er enginn helgidómur og hefur aldrei verið“ sagði Ólína Þorvarðardóttir þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar í Morgunblaðinu 2013. Þetta er mjög gott dæmi um það hvernig orð eru notuð í pólitískum tilgangi til að stýra umræðu og móta skoðanir fólks.

Kynusli í knattspyrnulýsingum

Lýsingar og viðtöl frá Evrópumóti kvenna í knattspyrnu eru hreint hunang fyrir áhugafólk um mál og kyn. Þar koma nefnilega upp ýmsir árekstrar milli málfræðilegs kyns og kyns þeirra sem um er rætt og það er mjög áhugavert hvernig þeir árekstrar eru leystir. Annars vegar koma þeir fram í máli karlkyns þjálfara þegar þeir tala um lið sitt og frammistöðu þess. Þjálfarinn er auðvitað ekki að spila og ekki beinlínis hluti af liðinu og því lægi beinast við að hann talaði um það í kvenkyni og notaði þriðju persónu fornafnið þær. Samt sem áður er ekki óeðlilegt að hann samsami sig liðinu og telji sig eiga hlut í frammistöðu þess, hvernig sem hún er, og noti þess vegna fornafn fyrstu persónu fleirtölu, við. En hvaða kyn lýsingarorða og fornafna á að nota?

Meginreglan í íslensku er auðvitað sú að nota hvorugkyn fleirtölu í vísun til kynjablandaðs hóps og þess vegna mætti búast við að karlkyns þjálfari kvennaliðs segði við vorum góð, við vorum léleg o.s.frv. En einhvern veginn hljómar það samt undarlega að karlkyn þjálfarans dugi til að breyta kyninu úr kvenkyni í hvorugkyn, í ljósi þess að hann er ekki að spila og lýsingarorðið vísar til frammistöðu kvennanna sem eru inni á vellinum. Ég man fyrst eftir því að hafa tekið eftir því hjá Sigurði Ragnari Eyjólfssyni sem var þjálfari kvennalandsliðsins fyrir rúmum áratug að hann notaði kvenkyn fleirtölu – „mér fannst við óheppnar að tapa þessum leik“ og „Svo vorum við óheppnar á móti Kína“ sagði hann t.d. í viðtali við fótbolta.net árið 2009.

Mér fannst þetta dálítið undarlegt á sínum tíma en um leið áttaði ég mig á því að þetta væri líklega skásta leiðin – þótt karlkyn sé notað í kynhlutlausri merkingu í hefðbundnu máli er það ótækt þarna, og hvorugkynið fannst mér ekki heldur alveg eðlilegt eins og áður segir. En þetta er með ýmsu móti – mér sýnist að eftirmaður Sigurðar Ragnars, Freyr Alexandersson, hafi yfirleitt notað hvorugkyn fleirtölu, t.d. „við spiluðum taktískt mjög vel og vorum góð í leiknum“ og „við erum bara hörmuleg í leiknum gegn Austurríki“ í viðtali í DV 2017. Mér hefur líka heyrst að núverandi landsliðsþjálfari, Þorsteinn Halldórsson, noti oft hvorugkyn fleirtölu –  talar um að við þurfum að „vera bara svolítið við sjálf“, „vera óttalaus“ o.fl.

Það er hins vegar erfitt að skoða þetta vegna þess að ekki er alltaf hægt að treysta því hvernig fjölmiðlar vinna úr viðtölum. Í nýlegri frétt DV byggðri á viðtali við Þorstein Halldórsson um tapleik gegn Sviss er haft eftir honum „við vorum ekki nógu góð í dag til að klára þennan leik“ – sem hann sagði örugglega ekki, samkvæmt upptöku af viðtalinu. Í frétt á vef Ríkisútvarpsins byggðri á sama viðtali er haft eftir Þorsteini „við vorum ekki nógu góðar til að klára þennan leik“ – sem hann gæti hafa sagt en mér heyrist hann jafnvel segja „við vorum ekki nógu góðir“. Í frétt á Vísi 2023 um annan leik er haft eftir Þorsteini „Hefðum mátt vera aðeins rólegri þegar við vorum komnar þangað“ en mér heyrist hann segja „þegar við vorum komin þangað“.

Annað atriði sem kemur upp varðar þjóðaheiti sem öll eru karlkyns í íslensku – Danir, Svíar, Frakkar, Ítalir, Englendingar o.s.frv. Ég hef áður bent á að þótt þessi heiti séu að nafninu til kynhlutlaus, vísi til fólks af öllum kynjum, eru skýrar vísbendingar um að margir málnotendur noti þau síður um konur og vísi oft til þeirra á annan hátt. Þess vegna kom það mér ekkert á óvart þegar ég heyrði „Frakkarnir virðast vera frústreraðar“ í lýsingu í gær – lýsingarorðið var sem sé í kvenkyni fleirtölu þrátt fyrir að eiga við karlkynsorðið Frakkar. Ég hafði ekki tekið eftir þessu áður en það virðist samt ekki vera alveg nýtt – í viðtali við Sigurð Ragnar Eyjólfsson á vef KSÍ 2013 sagði hann: „Svíar eru mjög hreyfanlegar, duglegar að hreyfa sig án bolta.“

Vissulega er löng hefð fyrir merkingarlegri sambeygingu með ákveðnum orðum sem oftast vísa til kynjablandaðs hóps, eins og foreldrar og krakkar sem oft taka með sér lýsingarorð og fornöfn í hvorugkyni þrátt fyrir að vera karlkynsorð – foreldrar mínir eru skilin, krakkarnir voru þæg. Á undanförnum árum hefur slík sambeyging færst í vöxt eins og ég hef skrifað um – nú er oft notað kvenkyn með karlkynsorði sem vitað er að vísar til konu, eins og forsetinn var viðstödd. Samt sem áður myndi flestum líklega þykja setning eins og Svíar eru mjög hreyfanlegar ótæk við venjulegar aðstæður. Í þessu samhengi finnst mér hún þó fullkomlega eðlileg – það hljómar undarlega að nota karlkyn lýsingarorðs þarna þegar ljóst er að eingöngu er vísað til kvenna.

Þarna eru ýmis tilbrigði og því fer fjarri að allir karlkyns þjálfarar kvennaliða noti kvenkyn fleirtölu þegar þeir tala um sig og lið sitt, og því fer líka fjarri að allir lýsendur kvennaleikja noti kvenkyn lýsingarorða með karlkyns þjóðaheitum. En mikilvægt er að átta sig á að þarna er ekki um að ræða meðvitaðar breytingar á málinu í átt til kynhlutleysis. Þótt oft sé – með réttu – lögð áhersla á að ekki megi setja samasemmerki milli málfræðilegs kyn og kyns fólks breytir það því ekki að í huga málnotenda eru oft mjög sterk tengsl þarna á milli, og í þessum dæmum eru almennir málnotendur bara að nota það kyn lýsingarorða og fornafna sem þeim finnst eðlilegast hverju sinni út frá málkennd sinni. Engin ástæða er til að gera athugasemdir við það.

Ódýrt verð

Í „Málvöndunarþættinum“ var vitnað í frétt á síðu Ríkisútvarpsins þar sem sagði „Þar er hægt að fá allt á milli himins og jarðar á mjög ódýru verði“ og spurt hvort þetta væri „orðin góð og gild íslenska“? Um það má vitanlega deila – í Málfarsbankanum segir: „Vörur geta verið dýrar eða ódýrar en verð þeirra ekki. Í því sambandi er frekar talað um hátt eða lágt verð.“ Samt sem áður er ljóst að löng hefð er fyrir því að nota lýsingarorðin dýrt og ódýrt með nafnorðinu verð – og einnig fyrir gagnrýni á þá málnotkun. Í ritdómi Jóns Ólafssonar um ljóðmæli Einars H. Kvaran í Heimskringlu 1893 segir: „Verðið er gífrlega dýrt.“ Í svari Einars í Lögbergi sama ár segir: „Jeg hef aldrei fyrr heyrt talað um „dýrt verð“ heldur „hátt verð“ og „dýra hluti“.“

Jón lét Einar vitanlega ekki eiga neitt hjá sér og benti á að sambandið dýru verði keypt kemur fyrir í Guðbrandsbiblíu frá 1584 þar sem segir í Fyrra Korintubréfi: „Þér eruð dýru verði keyptir“. Þetta samband er vitaskuld mjög algengt í málinu og hefur lengi verið, og tæpast dettur nokkrum í hug að amast við því. En lýsingarorðin dýrt og ódýrt eru líka notuð með verð í öðru samhengi þótt það sé ekki eins algengt. Í Íslendingi 1875 segir: „Nú fær austanmaðurinn útlendu vörurnar hjá kaupmönnum með eins ódýru verði, eins og nærsveitamaðurinn.“ Í Ísafold 1894 segir: „Jeg undirskrifuð tek að mjer að sauma karlmannsfatnað og önnur föt, fyrir ódýrt verð.“ Í Morgni 1927 segir: „Alt, sem mikils er vert, kostar fyrirhöfn og dýrt verð.“

Í Risamálheildinni eru þúsundir dæma um dýrt og ódýrt með verð, meginhlutinn í þágufalli, með sögnunum kaupa, selja, gjalda og borga, og með forsetningunni á á (ó)dýru verði. En talsvert er einnig af dæmum um nefnifall, í samböndum eins og (ó)dýrt verð og verðið er/var (mjög) (ó)dýrt. Þetta er hliðstætt við dýr og ódýr fargjöld sem einnig er oft amast við og ég hef skrifað um. Ýmsum finnst þetta vissulega órökrétt en það skiptir ekki máli – tungumálið er ekki og á ekki að vera fullkomlega rökrétt enda eru ótal dæmi um annað. Bæði (ó)dýr verð og (ó)dýr fargjöld á sér langa hefð í málinu, er mjög útbreitt og hlýtur að teljast rétt mál samkvæmt öllum viðmiðum. Það táknar auðvitað ekki að fólk sem fellir sig ekki við þetta þurfi að taka það upp.

Þetta var ekki þínslegt

Orðið þínslegt datt upp úr mér í morgun – þetta er orð sem ég þekki vel en nota sjaldan. Orðið er ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók en er flettiorð í Íslenskri orðabók í merkingunni 'sem hæfir þér, sæmir þér, sem er líkur þér' og einnig með neitandi forskeyti, óþínslegur – 'sem líkist þér ekki, sem er þér ekki samboðið'. Bæði orðin eru einnig í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924. Orðið er gamalt og kemur fyrir þegar í fornu máli – í Heiðarvíga sögu segir: „Bjóða þeim öllum heim til vistar, það væri þínslegt.“ Einnig eru til samsvarandi atviksorð, þínslega og óþínslega. Það síðarnefnda kemur fyrir í Gunnlaugs sögu Ormstungu – „Þetta er óþínslega mælt“. En þótt þessi orð séu gömul virðast þau ævinlega hafa verið mjög sjaldgæf.

Þannig hefur norræna fornmálsorðabókin, Ordbog over det norrøne prosasprog (ONP), aðeins eitt annað dæmi um þínslegur en það sem nefnt var hér að framan. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er aðeins eitt dæmi um þínslegur, úr Gerplu Halldórs Laxness, en engin dæmi um hinar myndirnar (nema um óþínslegur úr orðabók). Á tímarit.is eru samtals aðeins tíu dæmi um einhverja þessara mynda, þau elstu frá 1923 en það yngsta í þýddri myndasögu í Fréttablaðinu 2017: „Með öðrum orðum, mjög ó-þínslegur.“ Í Risamálheildinni eru aðeins tvö dæmi um þessi orð, bæði af samfélagsmiðlum – annað af Bland.is 2008 en virðist vera úr eldri texta og hitt af Twitter 2014: „eitthvað svo þínslegt að hlægja bara með vitandi ekkert hahah!“

En ég fór að hugsa um hvað þetta er í raun skrítið orð. Fyrri liðurinn er augljóslega eignarfall af annarrar persónu fornafninu þú en það er ekki algengt að fornöfn séu fyrri liður samsetninga. En ekki nóg með það – milli samsetningarliðanna kemur s sem er auðvitað dæmigerð eignarfallsending. Það eru ýmis dæmi um að s sé notað sem tenging milli samsetningarliða þegar fyrri liður er kvenkynsorð sem endar á -i og er eins í öllum föllum eintölu þegar það stendur stakt, í orðum eins og keppnismaður, leikfimishús o.m.fl. Þar er s ekki venjuleg eignarfallsending en segja má að hlutverk þess sé að sýna að um eignarfallssamsetningu sé að ræða. Í þínslegur er því hins vegar í raun ofaukið vegna þess að þín er augljóslega eignarfall.

Reyndar er einnig til dæmi um orðið án s í sautjándu aldar handriti – í Bjarnar sögu Hítdælakappa segir: „Þorkell kvaðst ætla, að hann mundi standa á hleri „og er ekki þínlegt“ segir hann.“ Samsvarandi orð þar sem fyrri hlutinn er eignarfall af fornafni fyrstu persónu kemur einnig fyrir í fornu máli, í lausavísu eftir Úlf Uggason: „sék við miklu meini, / mínligt, flugu at gína“ og er skýrt 'som ligner, sömmer sig for „mig“' eða 'sem líkist eða sæmir mér' í Lexicon Poeticum. Önnur dæmi finnast ekki um það orð, hvorki að fornu né nýju. En þínslegur er gott dæmi um að þrátt fyrir að vera alla tíð mjög sjaldgæf geta orð lifað í málinu í margar aldir, jafnvel þúsund ár – og eru jafnvel enn notuð í óformlegu málsniði eins og dæmin sýna.

Að mappa Mjólkurveginn

Í fréttum Ríkissjónvarpsins á laugardagskvöld var sagt frá nýjum stjörnusjónauka sem m.a. yrði nýttur til þess að „mappa Mjólkurveginn“ eins og sagði í skjáþýðingu. Í fljótu bragði lítur þetta út fyrir að vera hrá yfirfærsla úr enska frumtextanum, „mapping the Milky Way“ – og sjálfsagt er sú raunin. Það sem heitir the Milky Way á ensku hefur lengi heitið Vetrarbrautin á íslensku, a.m.k. síðan snemma á átjándu öld – „via lactea“ í íslensk-latnesku orðabókinni Nucleus Latinitatis eftir Jón Árnason biskup frá 1738 er skýrt 'vetrarbraut'. Latneska orðið via merkir 'vegur' og lacteus '(mjólkur)hvítur' þannig að mjólkurvegur er bein þýðing á því. en Via lactea er ættað frá γαλαξίας κύκλος (galaxías kýklos) í grísku, sem merkir 'mjólkurhringur'.

Orðið mjólkhringur kemur reyndar fyrir í fornu máli, í Alfræði íslenzkri frá fimmtándu öld. Þar segir m.a.: „þær eru eigi áfastar himni og sýnast í mjólkhring til norðurs.“ Í greininni „Heimur og geimur. Þættir úr alþýðlegri stjörnufræði“ eftir Þorvald Thoroddsen í Ársriti Hins íslenska fræðafjelags í Kaupmannahöfn 1917 segir: „Þetta belti köllum vjer vetrarbraut […]; líklega er nafnið dregið af því, að hún sjest bezt í frostheiðu veðri á vetrum. Í öðrum löndum hefur vetrarbrautin tekið nafn af hinu hvítleita skini og er kölluð mjólkurvegur og mjólkurhringur á norrænu til forna.“ Í Norðanfara 1883 segir: „Vetrarbrautin hefir og verið kölluð mjólkhringur á Íslenzku.“ Hins vegar hef ég ekki fundið fornmálsdæmi um mjólkurveg.

Einu dæmin sem ég finn um það orð eru í vísunum til þess að það sé notað í öðrum málum. Elsta dæmið er í Norðra 1853: „Vetrarbrautin eður mjólkurvegurinn, er Danir kalla.“ Á mbl.is 2012 segir: „Stjörnufræðingar telja sig hafa fundið út að „Milky Way“ eins og vetrarbrautin okkar er nefnd á enska tungu, þ.e. mjólkurvegurinn, sé réttnefni.“ Í örsögunni „Maðurinn sem hætti að smakka það“ eftir Elísabetu Jökulsdóttur segir: „hann lýsti því í stórum boga hvernig vetrarbrautin er einsog rennandi mjólk sem hellt er úr könnu þannig að mjólkin streymir um heiminn enda er mjólkurvegur réttara orð.“ En þótt mjólk(ur)hringur og mjólkurvegur séu vissulega íslenska er engin hefð fyrir þeim og rétt að halda sig við Vetrarbrautina.

 

Hvað gerðist í mars 1997?

Það er alkunna að forsetningarnar í og á eru mjög oft notaðar með staðaheitum eða orðum sem tákna einhvers konar staðsetningu – örnefnum, heitum eða númerum húsa, stofnanaheitum o.s.frv. Oft er erfitt að átta sig á hvers vegna önnur forsetningin er notuð fremur en hin og iðulega eru mismunandi forsetningar notaðar með orðum sem virðast hliðstæð – þekkt dæmi eru í Reykjavík en á Húsavík, í Borgarnesi en á Akranesi, í Kópavogi en á Djúpavogi, o.m.fl. Stundum eru báðar forsetningar notaðar með sama orði en í mismunandi merkinguí Siglufirði vísar fremur til fjarðarins en á Siglufirði til kaupstaðarins. Stundum eru báðar forsetningar notaðar án þess að merkingarmunur sé á, en hugsanlega mállýskumunur af einhverju tagi.

Það er þó hægt að finna ýmsar þumalfingursreglur um notkun forsetninganna en flestar eiga þær sér fjölmargar undantekningar. En svo eru líka dæmi um að notkunin hafi breyst. Mjög áhugavert dæmi um það var nefnt í innleggi í „Málspjalli“ í gær. Þar var bent á að áður hefði forsetningin í oft verið notuð með heitum eins og Landspítalinn og Borgarspítalinn, t.d. lést í Landspítalanum. Nú er hins vegar nær alltaf notuð forsetningin á með þessum heitum – og sama virðist gilda um önnur hliðstæð eins og Fjórðungssjúkrahúsið (á Akureyri / á Ísafirði / í Neskaupstað). Höfundur innleggsins sagði að í stuttri og óformlegri könnun á þessu á tímarit.is hefði komið í ljós að í virtist að mestu hafa vikið fyrir á stuttu eftir 1990.

Ég skoðaði þetta nánar og varð steinhissa á niðurstöðunum. Dæmi um í með Land(s)spítalanum, Borgarspítalanum og Fjórðungssjúkrahúsinu voru töluvert fleiri en dæmin um á með sömu orðum fram um 1990, þótt heldur drægi saman með forsetningunum og árið 1996 væru dæmin um í komin niður í rúmlega 40% af heildarfjölda dæma. En árið eftir, 1997, hrapar dæmafjöldinn um í gífurlega – niður í sjö og hálft prósent. Þessi breyting verður ekki smátt og smátt yfir árið – fjöldi dæma um í er svipaður og áður fyrstu tvo mánuðina, en í byrjun mars hverfa dæmin nær alveg og eru sárafá það sem eftir er ársins 1997, og fer svo enn fækkandi næstu ár og eru komin niður í eitt prósent af heildinni upp úr aldamótum.

Ég held að ég hafi aldrei séð svona snögga breytingu á nokkru málfarsatriði – breytingu sem þó virðist hafa gengið yfir þegjandi og hljóðalaust, án þess að nokkur tæki eftir henni, og án þess að nokkur skýring sé sjáanleg. Nú er þetta auðvitað breyting á ritmáli, nánar tiltekið máli blaða og tímarita, og við höfum enga möguleika á að kanna hvort talmál breyttist á sama hátt á svipuðum tíma. Engar líkur eru samt á öðru en bæði í og á hafi verið algengt í talmáli áður fyrr og það er ljóst að á er nú einhaft í máli flestra, en ólíklegt er að breyting á talmálinu hafi orðið jafn snögglega og á ritmálinu. Ég held að einhverjar ytri aðstæður hljóti að liggja að baki svo snöggri breytingu en veit ekki hverjar þær gætu verið – varla tilmæli frá Íslenskri málnefnd.

Í umræðum í „Málspjalli“ var þess getið til að skipt hefði verið um prófarkalesara, en það getur ekki verið skýringin því breytingin varð ekki bara í einu blaði heldur öllum að því er best verður séð – þótt aðeins í Morgunblaðinu og DV séu dæmi svo mörg að eitthvað sé á þeim byggjandi. Einnig var nefnt í umræðum að sumir kennarar um og upp úr miðri öldinni hefðu talið í spítala rétt en á spítala málvillu, og því kann að vera að í spítala hafi lengi verið mun tíðara í ritmáli en talmáli. En jafnframt kom þar fram að Morgunblaðið hefði leiðrétt í í á undir lok síðustu aldar. Ótrúlegt er samt að leiðréttingar eða breytingar á þeim hafi valdið svo snöggri breytingu. Ef einhverjum dettur einhver skýring í hug, eða veit um skýringu, væri gaman að heyra af því.

Mörg mismunandi brögð

Í „Málspjalli“ var í dag spurt um fleirtöluna brögð í samböndum eins og mörg brögð af mat. Nafnorðið bragð hefur fleiri en eina merkingu og er vitanlega oft notað í fleirtölu í merkingunni 'klækjafullt ráð eða aðferð' en hins vegar hefur það oftast aðeins verið haft í eintölu í merkingunni 'skynjun á tungu, bragðskyn' svo að vitnað sé í skýringar Íslenskrar nútímamálsorðabókar. „Því miður hefur ft. skotið hér upp kollinum og menn flestir finna samt óbragð að þeirri notkun“ sagði Jón Aðalsteinn Jónsson í Morgunblaðinu 1995 og ári seinna sagði hann að sér fyndist „ástæðulaust, að ég segi ekki fáránlegt, að nota fleirtöluna brögð í þessu sambandi“ og hún ætti „að sjálfsögðu […] ekki að heyrast í vönduðu máli“.

Það má finna slæðing af dæmum um fleirtöluna brögð í umræddri merkingu á tímarit.is. Elsta dæmi sem ég finn er í auglýsingu frá ísbúð í Morgunblaðinu 1958: „Milk-shake. Þykkur og ljúffengur. Mörg brögð.“ Í Alþýðublaðinu 1959 er sagt frá PEZ-töflum sem var nýfarið að framleiða: „Enn eru komin aðeins 2 brögð á markaðinn, en alls verða þau 8“ og „verður það væntanlega framleitt með 3 mismunandi brögðum“. Í Vísi sama ár er einnig sagt frá PEZ-framleiðslu: „Eru þetta litlar og ljúffengar töflur 14 í pakka en mismunandi brögð.“ Í Alþýðublaðinu 1961 er sagt frá nýju megrunarlyfi sem unnt er að fá „með ýmsum mismunandi brögðum“. Í auglýsingu í Dagblaðinu 1978 segir: „Tannkrem í 3 brögðum.“

Ýmis nýleg dæmi má einnig finna. Í Vísi 2013 segir: „hugmyndin var að fólk myndi upplifa öll mismunandi brögðin sem er að finna í viskíinu.“ Í Bændablaðinu 2012 segir: „það er ótrúlegt að geta búið til svona mikið af mismunandi brögðum með ostum.“ Í Vísi 2016 segir: „Þeir bjóða upp á tvöhundruð vörutegundir í sjöhundruð mismunandi brögðum og stærðum.“ Í Bleikt.is 2014 segir: „Við erum með […] fiskispjót með þrem tegundum af fisk marineruðum í mismunandi brögðum.“ Í Bændablaðinu 2015 segir: „Við […] erum á þann hátt stöðugt að þróa og bæta hin mismunandi brögð sem við fáum út úr mismunandi tegundum.“ Í Morgunblaðinu 2003 segir: „Vísindamenn hafa uppgötvað fimm hundruð ólík brögð í súkkulaði.“

Í öllum tilvikum er um að ræða einhvers konar vörur þar sem fleiri en ein bragðtegund er í boði. Þarna er því um sömu þróun að ræða og hefur orðið í fjöldamörgum orðum sem ég hef skrifað um – auk þess að vísa til ákveðinnar hugmyndar, fyrirbæris eða tilfinningar þar sem fleirtala er óþörf og óeðlileg geta þau nú vísað til tegundar eða eintaks af þessari hugmynd, fyrirbæri eða tilfinningu, og þá verður eðlilegt og nauðsynlegt að hafa þau einnig í fleirtölu. Vitanlega getur sú notkun truflað þau sem ekki hafa alist upp við hana, en fleirtalan brögð er vitanlega góð og gild í annarri merkingu og ég get ekki séð að nokkuð sé unnið með því að tala um mismunandi eða margar bragðtegundir frekar en mismunandi eða mörg brögð.

Athugasemdir hafa áhrif

Um daginn var birt í „Málspjalli“ mynd af skilti frá Sjóvá með áletrun á ensku – Drive carefully – án nokkurs íslensks texta. Ég skrifaði Sjóvá um þetta og sagði m.a.: „Ég treysti því að fleiri skilti af þessu tagi verði ekki sett upp og þeim skiltum sem komin eru upp verði skipt út fyrir skilti sem eru bæði á íslensku og ensku – með íslenskuna á undan.“ Nú var ég að fá póst frá markaðsstjóra Sjóvá sem sagðist hafa fengið „fjölda svipaðra ábendinga um umrætt skilti“ og hélt áfram: „Við hjá Sjóvá leggjum ríka áherslu á að nota íslensku í öllum samskiptum og það á auðvitað við um skilti sem þessi. Við erum þegar farin af stað með að skipta út skiltunum og það ætti að klárast á næstu dögum. Við þurfum sannarlega að standa vörð um íslenskuna.“

Fyrir skömmu var líka skrifað í „Málspjalli“ um markaðsherferð Arion banka sem beint er til ungs fólks og rekin undir enskum einkunnarorðum. Í gær birtist frétt á vefmiðli um að hætt hefði verið við þessa herferð, og nú segist Sjóvá ætla að hafa íslensku á skiltum sínum. Ég veit að mörgum finnst óþörf smámunasemi og sparðatíningur að agnúast út í einstaka stutta texta á ensku eða þar sem ensku er hampað umfram íslensku – upplýsingar, skilti, merkingar, kynningar, auglýsingar o.fl. Fólk telur – líklega með réttu – að slíkir textar hafi lítil sem engin bein áhrif á íslenskuna. En þetta snýst ekki heldur um bein áhrif á tungumálið, heldur áhrif óþarfrar enskunotkunar á hugarfar fólks og ómeðvituð viðhorf þess til tungumálsins.

Það eru nefnilega ekki síst „smáatriði“ eins og þau sem hér eru til umræðu sem grafa undan íslenskunni vegna þess að þau ýta undir þá hugmynd að enska sé nóg og íslenska óþörf þegar ná þarf til allra. Það leiðir til þess viðhorfs að íslenska sé ófullkomin og ófullnægjandi og skapar þannig neikvætt viðhorf til hennar en ýmsar rannsóknir sýna að lífvænleiki smáþjóðatungumála veltur ekki síst á viðhorfi ungu kynslóðarinnar – ef hún hefur neikvætt viðhorf til móðurmálsins á það sér ekki viðreisnar von. Það er ástæða til að hrósa Arion banka og Sjóvá fyrir að bregðast fljótt og vel við ábendingum um óþarfa enskunotkun – og um leið er ástæða til að hvetja ykkur öll til að gera athugasemdir við fyrirtæki og stofnanir sem hampa ensku umfram íslensku.

Hún skaut í slánna

Fyrir fimm árum skrifaði ég pistil (sem birtist svolítið breyttur í bókinni Alls konar íslenska) um framburð orð­mynda eins og ána, brúna, frúna, klóna, kúna, slána, spána, tána, þrána (þolfall eintölu með greini af á / ær, brú, frú, kló, kýr, slá, spá, , þrá), skóna (þolfall fleirtölu með greini af skór) og fleiri orðmynda með n á eftir á, ó eða ú. Þessar orð­mynd­ir eru oft bornar fram með stuttu sér­hljóði í stað langs, eins og n-ið væri tvíritað – sagt fara yfir ánna, hlusta á spánna, missa trúnna, fara í skónna o.s.frv. „Enginn vandi er að venja sig af þessu“ segir Árni Böðvarsson í bókinni Íslenskt málfar, en það virðist samt hafa gengið illa að venja þjóðina af þessum framburði sem Gísli Jónsson amaðist margoft við í þáttum sínum í Morgunblaðinu.

Í fyrri pistli mínum nefndi ég að elstu ritmálsdæmi sem vitnuðu um þennan framburð væru síðan um 1930 en þeim færi smátt og smátt fjölgandi á fimmta og sjötta áratugnum. En ég benti einnig á að þar sem flestir textar á tímarit.is væru prófarkalesnir væri vart við því að búast að þar væru mörg dæmi, en sá fjöldi sem þó fyndist þar benti til þess að umræddur framburður hefði lengi verið alltíður – væntanlega talsvert algengari en dæmafjöldi á prenti bendir til. Síðan þessi pistill var skrifaður hafa textar af samfélagsmiðlum bæst við Risamálheildina og með þeim miklar upplýsingar um notkun þessa framburðar í óformlegu málsniði samtímans sem benda til þess að tíðni hans sé þar mjög mikil þótt hún sé nokkuð misjöfn eftir orðum.

Í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar eru t.d. 890 dæmi um yfir/við/undir brúna en 456 um yfir/við/undir brúnna; 453 dæmi um yfir/við ána en 203 um yfir/við ánna; 2369 um trúna en 1406 um trúnna; 220 um veðurspána en 123 um veðurspánna. Í þessum dæmum eru myndir með tvírituðu nn því hálfdrættingar eða meira á við hinar viðurkenndu myndir með einu n. Eitt orð, slá, sker sig þó alveg úr að þessu leyti – 117 dæmi eru um sambandið í slána en 235 um í slánna. Það er líka eina dæmi sem ég finn um að tíðni „röngu“ myndarinnar slagi hátt upp í tíðni þeirrar „réttu“ í Risamálheildinni allri, ekki bara á samfélagsmiðlum – það eru 1997 dæmi um í slána en 1802 um í slánna. Hins vegar eru 1145 dæmi um í skóna en bara 157 um í skónna.

Það verður að hafa í huga að í hinni viðurkenndu stafsetningu umræddra orðmynda er alltaf bara eitt n. Trúlegt er að nokkur fjöldi þeirra sem bera orðin fram með stuttu sérhljóði og löngu n kunni stafsetningarreglurnar og skrifi orðin því með einu n þrátt fyrir að það rími ekki við framburð þeirra – svona eins og fólk skrifar oftast langur en ekki lángur þrátt fyrir að síðarnefndi rithátturinn samræmist framburði flestra. Það er því nokkuð öruggt að ritmyndir, jafnvel úr textum með óformlegu málsniði, sýna lægri tíðni umrædds framburðar en raunin er. Mér sýnist allt benda til þess að meirihluti notenda samfélagsmiðla – sem eru einkum yngra fólk – hafi þennan framburð og hann verði því fljótlega meirihlutaframburður málsins.

Í fyrri pistli mínum nefndi ég tvær hugsanlegar ástæður fyrir þessum framburði – annars vegar áhrif frá þágufallinu ánni, brúnni, slánni, trúnni o.s.frv. þar sem sérhljóðið er alltaf stutt en n-ið langt. Hins vegar nefndi ég að um gæti verið að ræða útvíkkun á lengingu samhljóða og meðfylgjandi styttingu sérhljóðs á eftir á, ó, ú r og t hafa lengst í orðmyndum eins og há-rri, mjó-rri, trú-rri (og fleirri sem er ekki viðurkennt) og svo há-tt, mjó-tt, trú-tt. Í þessu sambandi má benda á að í færeysku, sem þar sem margar málbreytingar eru hliðstæðar breytingum í íslensku en verða oftast fyrr, er þolfall fleirtölu af öllum umræddum orðum með nnánna, brúnna, spánna, trúnna o.s.frv. Stundum er sagt að færeyska sé íslenska framtíðarinnar.

Mér finnst því mál til komið að taka þennan framburð í sátt – lokaorð mín í fyrri pistli um þetta efni eru enn í fullu gildi: „Mörgum finnst umræddar myndir ljótar – sem er nokkuð sérkennilegt í ljósi þess að allt eru þetta framburðar­mynd­ir sem eru viðurkenndar í málinu, bara sem aðrar beyg­ing­ar­myndir en hér er um að ræða. En flest kunnum við best við málið eins og við lærðum það – eða eins og við lærðum að það ætti að vera – og ömumst þess vegna við breyt­ing­um sem okkur finnst óþarfar. Það er fullkomlega eðlileg til­finn­ing, en í ljósi þess að þessi framburður á sér aldarlanga sögu, er mjög út­breidd­ur, er hliðstæður breyt­ing­um sem áður hafa orðið í málinu og eru fullkomlega viður­kenndar, og veldur eng­um ruglingi, þá tel ég hann engin málspjöll.“