Enskuslettur og „málvillur“

Í gær var í Málvöndunarþættinum á Facebook vakin athygli á fyrirsögn á vef RÚV: „Varð „emotional“ í þjóðsöngnum“. Þetta er tilvitnun í viðtal við Dagnýju Brynjarsdóttur landsliðskonu. Sá sem setti þetta inn sagði að sér fyndist í lagi að sletta af og til en það væri óþarfi að taka slíkt upp í fyrirsögn. Ég er sammála, og þetta er gott dæmi um það sem ég hef áður nefnt hér – að málsnið í fjölmiðlum hefur gerbreyst á undanförnum áratugum og er nú iðulega mun talmálslegra en áður. Það er ekki endilega alltaf til bóta.

Það er engin ástæða til að kippa sér upp við að fólk sletti og víki frá málstaðli á ýmsan hátt í viðtali, en þegar frétt er skrifuð upp úr viðtalinu er eðlilegt að breyta málsniðinu, endursegja orð viðmælanda og færa í búning sem hæfir rituðu máli, eins og Kristín M. Jóhannsdóttir benti á í athugasemdum. Á mbl.is var reyndar haft eftir Dagnýju „tilfinningarnar gerðu vart við sig“ – innan gæsalappa, hvort sem hún hefur notað annað orðalag þar eða blaðamaður breytt þessu.

En þessi fyrirsögn segir kannski heilmikið um viðhorf okkar til mismunandi frávika frá málstaðlinum. Það þykir sem sagt í lagi að hafa enskuslettu eftir viðmælanda – vissulega innan gæsalappa – og nota í fréttafyrirsögn. En ef Dagný hefði sagt – sem hún gerði ekki – „Mér langaði mikið til að skora“ eða „Ég vill þakka áhorfendum fyrir góða hvatningu“, að ekki sé talað um „Það var tekið mig út af í seinni hálfleik“, þá hefði það tæpast verið haft orðrétt eftir í fréttinni og alveg örugglega ekki sett í fyrirsögn.

Er þetta ekki umhugsunarefni? Það má hafa ensku í fyrirsögn fréttar, en menn forðast alíslensk tilbrigði í máli eins og heitan eldinn – þrátt fyrir að íslenskunni stafi alveg örugglega margfalt meiri hætta af ensku en af hefðbundnum tilbrigðum – sem oft eru nefnd „málvillur“ – eins og þeim sem ég vísaði til hér að framan. Mér finnst þetta bera vott um að við metum stöðuna ekki rétt – eyðum tíma og orku í að berjast við vindmyllur.