Íslenskan og Evrópusambandið
Frá stofnun árið 1957 hefur Evrópusambandið (áður Evrópubandalagið) lagt áherslu á að virða þjóðtungur sambandsríkjanna. Í upphafi var ákveðið að opinber tungumál sambandsins skyldu vera þau sex sem voru opinber mál stofnríkjanna, og þau áttu að hafa jafnan rétt. Þegar ný ríki hafa verið tekin inn í sambandið hafa opinber mál þeirra jafnframt orðið opinber mál sambandsins. Opinber tungumál ESB eru nú 24, fjórum sinnum fleiri en í upphafi. Þar að auki njóta nokkur tungumál sem töluð eru í ríkjum sambandsins sérstöðu sem hálfopinber mál, s.s. katalónska á Spáni og velska í Bretlandi.
Þótt stundum hafi komið fram hugmyndir um að fækka opinberum málum sambandsins hafa þær ekki fengið hljómgrunn og ekkert bendir til að slík grundvallarbreyting á málstefnu sambandsins verði í framtíðinni. Þvert á móti, eins og Gauti Kristmannsson prófessor hefur bent á: „Málstefna Evrópusambandsins hefur einnig þróast umtalsvert undanfarin ár og helgast það af öflugum pólitískum stuðningi við fjöltyngi í álfunni. Framkvæmdastjórn og Evrópuþingið hafa ítrekað ályktað um mikilvægi tungumála, tungumálakennslu og fjöltyngi þegnanna.“
Árið 2017 lét Evrópusambandið gera ítarlega skýrslu um tungumálajafnrétti á stafrænni öld (language equality in the digital age), og haustið eftir samþykkti Evrópuþingið mjög mikilvæga ályktun um sama efni. Þar er lögð áhersla á nauðsyn þess að tryggja að málnotendur allra evrópskra tungumála geti notað tungumál sín á jafnréttisgrundvelli í samskiptum innan álfunnar og bent á ýmsar aðgerðir sem þurfi að grípa til svo að því markmiði verði náð. Í framhaldi af því var á dögunum tilkynnt um háan styrk úr sjóðum Evrópusambandsins til verkefnisins „European Language Equality“ sem nær til flestra Evrópuþjóða og Íslendingar eiga aðild að.
Í krafti aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu taka Íslendingar þátt í mennta- og vísindaáætlunum Evrópusambandsins og hefur íslensk menning og íslensk tunga notið þess á ýmsan hátt. Þar má t.d. nefna þátttöku í verkefninu META-NET á árunum 2011-2013. Markmið þessa verkefnis var einkum að koma upp rafrænum mállegum gagnasöfnum (textasöfnum, orðasöfnum, talsöfnum o.fl.) til að nýta í máltækni, t.d. vélrænum þýðingum, og auðvelda þannig samskipti fólks með mismunandi móðurmál. Með tilstyrk verkefnisins voru byggð upp margvísleg íslensk gagnasöfn sem munu nýtast í máltækni og málrannsóknum á næstu árum.
Ef íslenska væri opinbert mál innan Evrópusambandsins myndi það tákna að fulltrúar landsins gætu talað íslensku á vettvangi þess og fundir yrðu túlkaðir milli íslensku og annarra mála. Í raun hefur aðildin að EES þegar styrkt tunguna með starfsemi þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins þar sem stór hluti af lögum og reglum ESB er þýddur á íslensku. „Fullyrða má að þar fer fram einhver mesta endurnýjun og uppbygging íslenskrar tungu í dag. Án þess starfs væri íslenskan miklu fátækari en ella. Fátækari vegna þess að við þessar þýðingar verður ekki aðeins til réttarfarslegur grundvöllur og reglur til að vinna eftir heldur einnig ný orð, ný hugtök, ný svið tungunnar.“
Hvaða skoðun sem fólk hefur á inngöngu Íslands í Evrópusambandið er ljóst að aðild að sambandinu yrði síst til þess að veikja stöðu íslenskunnar – þvert á móti má færa að því góð rök að staða tungunnar myndi styrkjast verulega við aðild. Slíkt hefur t.d. gerst með írsku, sem fékk stöðu opinbers tungumáls innan ESB árið 2007 „og er það sennilega kraftmesta vítamínsprauta sem írsk tunga hefur fengið í áratugi ef ekki aldaraðir,“ segir Gauti Kristmannsson. Ólíklegt er samt að málefni íslenskunnar muni hafa úrslitaáhrif á það hvort Ísland gengur í Evrópusambandið einhvern tíma í framtíðinni.