Giftcard used

Í gærkvöldi borðuðum við hjónin á ágætum veitingastað í Skagafirði og ákváðum að nýta okkur ferðagjöf stjórnvalda (þ.e. skattborgaranna) með þartilgerðu appi. Það var ekkert mál, en við urðum dálítið hissa þegar við fengum í símana okkar skilaboðin „Giftcard used“ – sem sagt á ensku. Þó var þetta app skrifað sérstaklega af þessu tilefni og aðeins ætlað til innanlandsnota. Reyndar held ég að ferðagjöfin hafi verið send öllum með íslenska kennitölu og því hugsanlegt að einhverjir notendur skilji ekki íslensku, þannig að það væri ekki endilega óeðlilegt að láta enskan texta fylgja með – en að sleppa íslenskunni er vitanlega ótækt.

Á vefsíðu ferðagjafarinnar er gefið upp netfang þangað sem hægt er að senda fyrirspurnir um appið. Ég skrifaði og sagði: „Ég hafði skilið það svo að ferðagjafarappið væri íslensk smíð og eingöngu ætlað Íslendingum. Hvernig í ósköpunum stendur þá á því að appið sendir manni skilaboð á ensku? Gott væri að fá skýringu á því.“ Svarið sem ég fékk var: „Ferðagjafar appið er byggt á YAY appinu sem er íslensk smíði og er ætlað til notkunar á heimsvísu. Því er kerfið skrifað á ensku en við höfum íslenskað flest allt þó að örfá atriði hafa ekki verið þýdd.“

Ég var ekki alveg sáttur við þetta svar og skrifaði aftur og spurði hvort þeim fyndist ekki að það hefði átt að íslenska appið að öllu leyti. Ég fékk svar um hæl: „Auðvitað hefði það verið best. Við höfum ekki fengið skeyti áður vegna þessa, þökkum því fyrir ábendinguna og munum taka þetta til okkar.“ Það var eiginlega þetta seinna svar sem vakti mig mest til umhugsunar.

Samkvæmt fréttum virðast u.þ.b. 70 þúsund manns þegar hafa nýtt sér ferðagjöfina. Það þýðir væntanlega að 70 þúsund manns hafa fengið skilaboðin „Giftcard used“ á undanförnum vikum – án þess að gera nokkra athugasemd við það. Nú veit ég ekkert hvort fólk hefur yfirleitt tekið eftir þessum skilaboðum, eða tekið eftir því að þau væru á ensku. Auðvitað getur vel verið að fjöldi fólks hafi verið að ergja sig á þessu undanfarnar vikur án þess að gera nokkuð í málinu. En ég efast samt um það.

Auðvitað stafar íslenskunni engin hætta af einstöku enskum slettum, einstöku fyrirtækjaheitum á ensku, eða einstöku skilaboðum á ensku. Henni stafar hins vegar hætta af andvaraleysi okkar sjálfra – við tökum ekki eftir því þegar eitthvað er á ensku sem sjálfgefið ætti að vera að hafa á íslensku, og ef við tökum eftir því kippum við okkur ekki upp við það heldur finnst það bara eðlilegt, og ef við kippum okkur upp við það gerum við samt ekkert í því.

Það liggur beint við að gagnrýna fyrirtækið sem skrifaði appið fyrir að ljúka ekki verkinu, og sjálfsagt að gera það – en ábyrgðin er endanlega hjá okkur sjálfum. Við erum öll almannavarnir – og við berum líka öll ábyrgð á íslenskunni.