Markmið málfræðilegrar umræðu

Mér þykir vænt um íslenskuna og var svo lánsamur að geta gert kennslu hennar og rannsóknir að ævistarfi. Ég var harður málvöndunarmaður á unglingsárum og nokkuð fram á háskólaár mín – ekki í vafa um hvað væri rétt mál og fordæmdi það sem var talið rangt, og dró ekki í efa óskeikulleik kennslubóka og málsmetandi manna þar um. Ef ég heyrði eða sá einhvern nota það sem ég taldi rangt mál dró umsvifalaust úr áliti mínu á þeim hinum sama. En ég skipti um skoðun þegar ég áttaði mig á því hvernig tungumálið væri notað sem valdatæki til að halda fólki niðri og gera lítið úr því, og hversu ósanngjarnt það væri að flokka fólk eftir því hvaða tilbrigði málsins það hefði tileinkað sér á máltökuskeiði.

Þótt ég sé málfræðingur get ég vitanlega ekki talað í nafni allra íslenskra málfræðinga, og mér finnst rétt að vekja athygli á því að margir þeirra eru mér örugglega ósammála um ýmis atriði. Ég hef verið talinn frjálslyndur í málfarsefnum, jafnvel úr hófi fram, í þeirri merkingu að ég vilji leyfa ýmislegt sem hefðbundið er að flokka sem rangt mál. Stundum er því haldið fram að ég vilji „leyfa allt“ en það er mikil einföldun. Aðalatriðið er að þetta snýst að mínu mati ekki um að leyfa eða banna eitt eða annað, heldur um að fræða í stað þess að fordæma, að hvetja til fjölbreyttrar málnotkunar í stað þess að hafna tilbrigðum, og að hlúa að málkennd fólks í stað þess að ýta undir óöryggi og málótta.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekkert athugavert við ýmis tilbrigði sem venja hefur verið að kalla „málvillur“ og reynt hefur verið að venja fólk af. En vitanlega er eðlilegt og sjálfsagt að vekja athygli á ýmsum nýjungum í málinu – bæði enskum áhrif á setningagerð og orðafar og sjálfsprottnum breytingum sem koma upp án þess að þær verði raktar til utanaðkomandi áhrifa – ræða ástæður þeirra og eðli, og skoða hvort ástæða sé til að reyna að sporna við þeim. Það er líka sjálfsagt og eðlilegt að hvetja til skýrleika í máli og vandaðrar framsetningar en vinna gegn hvers kyns ósamræmi og hroðvirkni. En hvað með „málvillurnar“ – ýmsar málbreytingar sem eru og hafa verið í gangi? Á að láta þær óáreittar?

Já og nei. Mér finnst mikilvægt að fólki sé ekki innrætt að málið sem það hefur alist upp við sé „rangt“ í einhverjum skilningi. Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því litið að fólk er enn flokkað eftir málfari – í skólum að sjálfsögðu, þar sem prófað er í „réttu“ máli, en líka í atvinnuviðtölum, fjölmiðlum og víðar. Þess vegna skiptir máli að fólk viti hvað hefur verið talið rétt og hvað rangt, og geri sér grein fyrir því að í sumum tilvikum geti það komið sér illa að hafa ekki vald á þeim tilbrigðum sem hafa verið talin „rétt“. Fólk hefur þá val um hvort það leggur á sig að tileinka sér tilbrigði sem kunna að vera í ósamræmi við eiginlegt mál þess.

En langtímamarkmiðið er að þessari flokkun eftir málfari verði hætt og fólk geti óhikað notað sitt eigið mál án þess að eiga á hættu að verða dæmt fyrir það.