Orðhlutar og gerð orða
Orðum málsins er hægt að skipta niður í afmarkaða hluta sem hver um sig hefur ákveðna merkingu eða hlutverk. Þessir hlutar nefnast myndön. Flest fallorð og sagnir eru fleiri en eitt myndan, en smáorð eru yfirleitt aðeins eitt (atviksorð geta þó verið fleiri). Í öllum orðum er rót, sem ber grundvallarmerkingu orðsins. Framan við rótina getur komið forskeyti, en aftan á hana viðskeyti. Hlutverk þeirra er að búa til ný orð skyldrar merkingar og rótin, en þau geta aldrei komið fyrir sjálfstæð. Forskeytin eru tiltölulega fá, og hlutverk þeirra yfirleitt að hliðra til eða neita merkingu rótarinnar, s.s. and‑, ó‑, tor‑. Viðskeyti eru aftur á móti mun stærri og fjölbreyttari flokkur. Sum þeirra hafa (oftast) ákveðna merkingu, s.s. ‑ar(i), ‑un, ‑leg‑. Önnur er erfiðara að tengja ákveðinni merkingu, s.s. ‑il‑, ‑al‑, ‑ul‑ o.s.frv.
Rótin, ásamt forskeyti og/eða viðskeyti, ef því er til að dreifa, nefnist stofn. Stofninn er sá hluti sem helst að mestu leyti í öllum beygingarmyndum orðsins, en hann getur þó orðið fyrir ýmsum hljóðbreytingum. Stofnsérhljóð breytist iðulega, t.d. í barn – börn, mús – mýs, kött-ur – kett-i – katt-ar, far-a – fer – för-um – fór – fær-i, stór – stær-ri, o.s.frv. Einnig er algengt að sérhljóð í öðru atkvæði stofns falli brott ef beygingarending hefst á sérhljóði: hamar – hamr-i, akur – akr-i, jökul – jökl-i, höfuð – höfð-i, sumar – sumr-i, gamal-l – gaml-i, vitur – vitr-an, farin-n – farn-ir, o.s.frv. Stundum breytast samhljóð í stofni, ekki síst í sterkum sögnum: stand-a – stóð, gang-a – gekk, bind-a – batt; en einnig víðar, t.d. barin-n – barð-ir, falin-n – fald-ir. Stundum fellur lokasamhljóð stofns saman við upphafshljóð endingar, t.d. í herð-a – her-t-i, senda – sen-d-i.
Við stofninn geta svo bæst beygingarendingar. Hlutverk þeirra er að sýna innbyrðis tengsl orða í setningu og afstöðu til efnisheimsins. Fallendingar sýna t.d. hver er gerandi og hver er þolandi, tíðarendingar sýna hvort setningin lýsir liðnum atburði eða yfirstandandi, töluendingar sýna hvort vísað er til eins eða fleiri, o.s.frv. Með því að bæta forskeyti eða viðskeyti við rót er búið til nýtt orð, en beygingarendingar búa aldrei til nýtt orð – hest-ur, hest-i, hest-s, hest-ar, hest-a, hest-um er sama orðið þótt það geti fengið sex mismunandi beygingarendingar. Það er líka um eitt og sama orðið að ræða í far-a, fer-ð, för-um, far-ið, far-i, far-ir, fór-st, fór-um, fór-uð, fór-u, fær-i, fær-ir, fær-um, fær-uð, fær-u. Þar koma fyrir níu mismunandi endingar sem sumar hverjar hafa mismunandi hlutverk eftir því hvaða afbrigði stofnsins þær tengjast.
Orð sem innihalda tvær rætur eða fleiri eru kölluð samsett, en orð sem eru mynduð af rót + forskeyti eða viðskeyti eru venjulega kölluð afleidd. Orðið Íslendingur er dæmi um þetta allt. Því má skipta í fjögur myndön: Ís+lend+ing-ur. Þarna höfum við tvær rætur, ís og land, sem báðar geta komið fyrir sjálfstæðar. Orðið Ísland er því samsett orð, og við það má bæta viðskeytinu ‑ing‑, sem táknar oft ‘einstaklingur frá einhverjum stað’ (en getur reyndar haft fleiri merkingar, sbr. KR‑ingur). Við það að orðið fær þetta viðskeyti breytist a í land í e, en það er mjög algengt að hljóðbreytingar verði í rótum þegar viðskeytum er bætt við þær. Þegar hér er komið sögu erum við komin með orðið Íslending, sem er þá stofn orðsins, og við það geta bæst beygingarendingar sem sýna hlutverk þess í setningu og afstöðu til annarra orða í setningunni.