Kafklæddur
Nýlega rakst ég á orðið kafklæddur á Facebook. Þetta orð hafði ég aldrei séð áður en það var greinilega notað í sömu merkingu og kappklæddur sem er vel þekkt orð þótt það sé ekki ýkja algengt (um 78 þúsund orð eru algengari en það samkvæmt Orðtíðnivef Árnastofnunar). Ég þóttist viss um að þessi mynd stafaði af misskilningi sem rekja mætti til framburðar – það þarf ekki að vera ýkja mikill munur á kappklæddur og kafklæddur í framburði. Tvíritað pp er borið fram með svokölluðum aðblæstri, þ.e. hp, og þegar samhljóð kemur á eftir því hljóðasambandi getur það nálgast f í framburði. Orð eins og kappsfullur og kappsmál eru iðulega borin fram eins og þau væru rituð kafsfullur og kafsmál. Þetta gerist vissulega helst á undan s, en getur einnig gerst á undan öðrum samhljóðum og samhljóðaklösum.
Þetta væri þá hliðstætt því sem gerist þegar afbrýðisamur verður afbrigði(s)samur, reiprennandi verður reiðbrennandi, og fyrst að verður víst að. Eðlilegur framburður upphaflega afbrigðisins í samfelldu tali er þannig að það er hægt að túlka hann á fleiri en einn veg, ekki síst vegna þess að þarna er um að ræða orð sem eru ekki sérlega gagnsæ og eru því viðkvæmari fyrir breytingum en ella. Vel má vera að mismunandi skilningur á þessum orðum sé gamall í málsamfélaginu þótt hann hafi ekki komið í ljós fyrr en á síðustu árum. Vegna þess hve framburðarmunurinn er lítill tökum við ekki eftir því hvort viðmælandi okkar segir t.d. afbrýðisamur eða afbrigðissamur, en þetta kemur auðvitað í ljós þegar farið er að skrifa orðið. Nú sjáum við miklu meira af óyfirlesnum textum frá fólki sem er ekki vant að skrifa.
Ég þóttist sem sé viss um að kafklæddur væri misskilin orðmynd sem stafaði af því að framburður orðsins kappklæddur hefði verið ranglega túlkaður. En málið reyndist ekki alveg svo einfalt. Það kom nefnilega í ljós að myndin kafklæddur er ekki einsdæmi og ekki ný – elsta dæmi sem ég fann um hana er í Fjallkonunni frá 1893, þar sem segir „Á sama hátt eru börnin kafklædd inni“. Það er ljóst að merkingin er þarna sú sama og í kappklæddur. Samtals eru sex dæmi um kafklæddur á tímarit.is, það yngsta frá 1946. Auk þess fann ég dæmi úr tveimur skáldsögum eftir viðurkennda rithöfunda – Leysingu eftir Jón Trausta frá 1907 og Systrunum eftir Guðrúnu Lárusdóttur frá 1938. Elsta dæmi um kappklæddur á tímarit.is er frá 1862, og fram um 1940 eru dæmi um orðið sárafá – litlu fleiri en um kafklæddur. Hvorugt orðið kemur fyrir í orðabók Blöndals 1920-24.
Þessar myndir, kappklæddur og kafklæddur, virðast því koma upp um svipað leyti á seinni hluta 19. aldar – þótt elsta dæmið um þá fyrrnefndu sé 30 árum eldra er hæpið að leggja mikið upp úr því vegna þess hve dæmin eru fá. Ég veit ekkert um uppruna orðanna og verð bara að giska. Hvorug myndin er sérlega gagnsæ, en ef fólk reynir að skilja þær má ímynda sér að hugsunin á bak við kappklæddur sé ‘klæddur af kappi‘, þ.e. ákafa, eða eitthvað slíkt; kafklæddur sé aftur á móti ‘klæddur í kaf‘, þ.e. á kafi í fötum. Væntanlega hefur önnur þessara mynda orðið til fyrst en vegna þess að hún var ekki mjög gagnsæ, og framburðurinn bauð upp á aðra túlkun, skildu einhverjir málnotendur orðið á hinn veginn og því komu upp tvímyndir. Líklegra er að framburður á kappklæddur leiði til ritmyndarinnar kafklæddur en öfugt.
Hvernig sem upprunanum er varið er ljóst að með tímanum varð kappklæddur ofan á og kafklæddur hvarf úr rituðu máli – þangað til núna, þegar orðið dúkkar allt í einu upp á Facebook 75 árum eftir að það sást síðast á prenti svo að ég viti. Hvernig á að túlka það? Hér kemur tvennt til greina. Annar möguleikinn er sá sem ég nefndi í upphafi – að um sé að ræða misskilning þess sem setti orðið á Facebook á framburði orðsins kappklæddur. Hinn möguleikinn er að sá sem notaði orðið á Facebook hafi ekki misskilið neitt, heldur notað orðið eins og hann lærði það – myndin kafklæddur hafi sem sé lifað í málinu frá því á 19. öld þótt hún hafi ekki komist á prent í marga áratugi. Fróðlegt væri að vita hvort lesendur þekkja þessa mynd.