Fimm sjónarmið um kynjahalla í tungumálinu
Í framhaldi af umræðu í gær um merkingu og notkun orðsins maður og samsetninga af því fór ég enn einu sinni að velta fyrir mér (meintri) karllægni íslenskunnar. Umræða um þetta fer því miður oft fljótt í einhverjar skotgrafir þannig að svo virðist sem þarna séu tvær andstæðar fylkingar – önnur telji engan kynjahalla í málinu en hin telji nauðsynlegt að gerbylta málkerfinu. En í raun og veru er þetta miklu flóknara og í fljótu bragði sýnist mér mega greina einar fimm mismunandi afstöður (já, mér finnst allt í lagi að hafa það í fleirtölu) til þessa máls.
- Það er enginn kynjahalli í tungumálinu – það gerir ekki upp á milli karla og kvenna á nokkurn hátt. Allt tal um slíkt er misskilningur á eðli tungumálsins, sprottinn af misskildum kvenréttindahugmyndum.
- Það er kynjahalli í málinu í þeim skilningi að karlkyn er hlutlaust (ómarkað) kyn, meginhluti starfsheita er karlkyns, og nafnorðið maður er notað í merkingunni 'karlmaður' auk þess að vera tegundarheiti. En þessi kynjahalli er eingöngu málfræðilegur og á sér sögulegar skýringar, og því eðlilegur.
- Það er kynjahalli í málinu og hann er ekki eingöngu málfræðilegs eðlis. Í huga margra tengjast karlkyns starfsheiti, orðið -maður og samsetningar af því, og karlkynsform óákveðinna fornafna og lýsingarorða frekar karlmönnum. Þetta er óheppilegt en við því er ekkert að gera.
- Það er kynjahalli í málinu og það er hægt og mikilvægt að bregðast við því innan ramma málkerfisins, t.d. með því að segja Verið öll velkomin í stað Allir velkomnir, nota fólk og tiltækar samsetningar af því frekar en menn, segja bandaríska konan Valarie frekar en Bandaríkjamaðurinn Valarie, o.s.frv.
- Það er kynjahalli í málinu og það er nauðsynlegt að bregðast við því, þótt það kosti breytingar á málkerfinu, málfræðilegt ósamræmi, óhefðbundna orðanotkun og smíði nýrra kynhlutlausra orða, t.d. þannig að sagt sé eitt var handtekið, mörg vita þetta, læknarnir eru þreytt, forstöðuman o.s.frv.
Ég er ekki að setja þetta fram til að koma einhverjum deilum af stað, heldur til að glöggva mig – og hugsanlega fleiri – á því um hvað málið snýst. Ég held að það megi færa málefnaleg rök fyrir flestum þessara afstaðna og það er mikilvægt að fólk átti sig á því og reyni að skilja afstöðu þeirra sem eru á öðru máli en það sjálft.