Fáfræði og léleg málkunnátta ungs fólks
Oft er kvartað undan því að ungt fólk þekki ekki algeng orð eða merkingu þeirra, eða noti orð í rangri merkingu. En hvað merkja orð og orðasambönd? Hvernig skilgreinum við merkingu?
Í fljótu bragði má hugsa sér nokkur svör við þessu. (1): Orð og orðasambönd merkja það sem við höfum lært að þau merki. Við getum hafa lært þetta á mismunandi hátt. Algeng orð og orðasambönd höfum við lært á máltökuskeiði, heyrt þau notuð og áttað okkur á merkingu þeirra út frá notkuninni. Önnur orð og orðasambönd höfum við lært síðar, oft af bókum – þá eru þau stundum útskýrð sérstaklega og stundum höfum við flett þeim upp í orðabókum. Það leiðir okkur að (2): Orð og orðasambönd merkja það sem orðabækur segja að þau merki. Að lokum (3): Merking orða og orðasambanda ræðst af uppruna þeirra.
Vissulega má segja að það sé eðlilegt að uppruni orða og orðasambanda ráði merkingu þeirra, og þannig er það líka oft. En það er hins vegar auðvelt að finna dæmi um hið gagnstæða. Orðið landráð merkir upphaflega 'ráð yfir landi' eins og búast má við út frá samsetningarliðum þess. En í nútímamáli merkir það 'brot gegn öryggi eða sjálfstæði ríkis, föðurlandssvik' – og gat raunar haft þá merkingu þegar í fornu máli. Sögnin elda er leidd af nafnorðinu eldur enda var matur áður soðinn eða steiktur yfir opnum eldi. En nú hefur merking sagnarinnar víkkað og hún merkir 'búa til mat' án þess að eldur þurfi nokkuð að koma þar við sögu. Ótal sambærileg dæmi væri hægt að taka.
Orðabækur eru vissulega ómetanlegar heimildir um merkingu orða og orðasambanda. En orðabækur eiga sér höfunda sem velja orðin og skrifa skilgreiningar þeirra. Þar byggja þeir á eigin þekkingu og mati, og hvorugt er óbrigðult. Höfundarnir leitast við að skilgreina orð út frá notkun þeirra í samtímanum, en aldrei er hægt að fullyrða að þeir þekki öll tilbrigði í notkuninni. Þar að auki eru orðabækur í eðli sínu íhaldssamar – ekki er hægt að gera ráð fyrir að þær taki umsvifalaust upp nýjungar sem eru að skjóta upp kollinum. Í litlu málsamfélagi eins og því íslenska bætist það svo við að orðabækur er ekki unnt að uppfæra nærri eins oft og þörf væri. Þess vegna vantar oft í þær nýleg orð og nýjar merkingar.
Hvorki uppruni né orðabókarskilgreiningar getur sem sé verið einhver stóridómur um það hvaða orð eru til og hvað þau merkja. Og málkunnátta okkar sjálfra getur ekki heldur verið slíkur dómur. Orð geta haft svæðisbundin merkingartilbrigði, merkingin getur hafa breyst frá því að við lærðum þau, og jafnvel er hugsanlegt að við höfum alla tíð misskilið orðin að einhverju leyti, t.d. notað þau í þrengri eða víðari merkingu en almennt er gert. Það er eingöngu málsamfélagið sem getur veitt okkur svar um merkingu orða og orðasambanda – þau hafa þá merkingu sem notkun þeirra í málsamfélaginu gefur þeim. Hún kann að vera í andstöðu við uppruna þeirra, orðabókarskilgreiningar, og okkar eigin skilning á þeim. En það gerir hana ekki ranga.
Ég er kominn hátt á sjötugsaldur og er sífellt að reka mig á að orð og orðasambönd eru notuð í annarri merkingu en ég taldi þau hafa. Nýlega hef ég t.d. verið að skoða nafnorðið grunnfærni og orðasamböndin vera myrkur í máli og stíga á stokk sem nú eru oftast notuð í annarri merkingu en þau höfðu fyrir hálfri öld – eins og oft er amast við. Ég stóð í þeirri merkingu að nýja merkingin væri nýtilkomin en þegar ég skoða málið kemur í ljós að hún hefur verið að breiðast út á síðustu 30-40 árum eða jafnvel lengur. Þegar ný eða breytt merking orðs eða orðasambands er komin upp fyrir 40-50 árum, og yfirgnæfandi meirihluti af dæmum um þetta orð eða orðasamband frá síðustu 20-30 árum er um þessa nýju eða breyttu merkingu, þá er fráleitt að afneita henni.
Við sem ólumst upp við aðra merkingu erum auðvitað frjáls að því að halda okkur við hana, og pirra okkur á þeirri nýju – en við getum ekki látið eins og hún sé röng eða ekki til. Orðin og orðasamböndin hafa einfaldlega fengið nýja merkingu. Það þýðir líka að ungt fólk, tvítugt og yngra (og jafnvel eldra) hefur alist upp við þessa nýju merkingu sem aðalmerkingu. Það er þess vegna ósanngjarnt og út í hött að bregða því fólki um fáfræði og skort á málkunnáttu þótt það þekki ekki eldri merkinguna. Það erum við sem höfum haft þá nýju fyrir því – það hafa alist upp við hana og hefur enga ástæðu til að efast um að hún sé rétt. Um leið er rétt að hafa í huga að þetta er engin ný bóla.
Það væri hægt að tína til ýmis orð og orðasambönd sem við sem nú erum komin yfir miðjan aldur notum í annarri merkingu en foreldrar okkar, afar og ömmur gerðu. Og þau voru örugglega jafn hneyksluð á okkur og við erum nú á unga fólkinu. Ég legg samt áherslu á að málhefðin skiptir vissulega máli og það er æskilegt að orð og orðasambönd haldi merkingu sinni. En þegar um er að ræða merkingu sem er komin upp fyrir nokkrum áratugum og orðin algengasta merking orða og orðasambanda er ástæðulaust og raunar skaðlegt að berjast gegn henni. Orðin og orðasamböndin hafa þá einfaldlega bætt við sig nýrri merkingu eða fengið nýja merkingu, og sú merking er jafngild þeirri sem þau höfðu áður.