Pólitísk misnotkun tungumálsins
Í stjórnmálum er alltof algengt að tungumálið sé misnotað á einhvern hátt – merkingu orða hnikað til eða umsnúið á meðvitaðan hátt til að kasta ryki í augu almennings. Eitt slíkt dæmi rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar ég sá frásögn af framboðslista X-flokks og óháðra í ónefndu sveitarfélagi. Þetta er engin ný bóla – hægt væri að tína til ótal hliðstæð dæmi frá undanförnum áratugum og flestir stjórnmálaflokkar hafa tekið þátt í slíku samkrulli.
En hugsið nú aðeins: Hvað merkir eiginlega „óháðir“ í þessu samhengi? Hvernig getur sá hópur sem skilgreinir sig þannig verið óháður flokknum sem hann er í samstarfi við um lista? Auðvitað er ekki glóra í því. Þarna er verið beita blekkingum. Kannski ekki að yfirlögðu ráði – kannski erum við orðin svo vön þessari samvinnu „óháðra“ og annarra að við tökum ekki eftir því hvers lags rugl þetta er. En þarna er verið að misþyrma tungumálinu.
Nú þegar kosningar standa fyrir dyrum er mikilvægt að við veitum stjórnmálafólki aðhald. Látum það ekki komast upp með það að fela sig bak við misbeitingu tungumálsins.