Íslenska sem öryggismál

Ég kom við á Árnagarði nýlega. Á leiðinni út rak ég augun í það að búið er að koma fyrir hjartastuðtæki í anddyrinu. Það er auðvitað mjög gleðilegt en ánægja mín yfir því dofnaði samt verulega þegar ég kom nær og sá að meðfylgjandi leiðbeiningar um hjartahnoð og beitingu tækisins voru eingöngu á ensku. Í Árnagarði af öllum húsum. Ef einhvers staðar í veröldinni á að hafa íslensku í heiðri er það þarna, beint á móti dyrunum inn á Árnastofnun. Mér skilst reyndar að þessi tæki tali við notandann, og tali meira að segja íslensku sem er að sjálfsögðu ánægjulegt.

Það breytir því ekki að slíkum tækjum eiga skilyrðislaust og undantekningarlaust að fylgja prentaðar leiðbeiningar á íslensku en ekki bara ensku. Einhverjum finnst þetta kannski óþarfa tuð enda er sú skoðun útbreidd á Íslandi að „það skilji allir ensku“. En þetta er ekki tuð heldur dauðans alvara. Ekki vegna þess að íslenska er opinbert mál á Íslandi þótt það skipti auðvitað máli, heldur vegna þess að það er fráleitt og óviðunandi að öryggistæki fylgi einungis leiðbeiningar á ensku.

Í því sambandi má minna á að það er ekki hægt að setja lyf á markað á Íslandi nema því fylgi íslenskar leiðbeiningar. Fyrir því eru gildar ástæður og vitanlega á að gilda það sama um öryggistæki eins og þetta. Ég geri ráð fyrir að það sé ekki lagaskylda að láta leiðbeiningar á íslensku fylgja, og stjórnvöld ættu þá að breyta því hið snarasta. En þótt það sé ekki skylda ættu framleiðendur eða innflytjendur hvers kyns öryggistækja að sjá sóma sinn í því að útbúa vandaðar leiðbeiningar á íslensku.

Þótt enskukunnátta sé vissulega útbreidd á Íslandi fer því fjarri að enskan sé öllum töm. Á ögurstund þar sem sekúndur geta skilið milli lífs og dauða skiptir öllu máli að leiðbeiningar séu á því máli sem fólk kann og skilur best. Fyrir flesta Íslendinga er það íslenska. Hins vegar er auðvitað jafnsjálfsagt að enskar leiðbeiningar fylgi líka, enda býr hér fjöldi fólks sem ekki skilur íslensku. Vitanlega er ekki hægt að hafa leiðbeiningar á öllum tungumálum en með tilliti til fjölda Pólverja sem hér býr væri líka æskilegt að hafa leiðbeiningar á pólsku. Ef þið rekist á einhvern öryggisbúnað sem ekki fylgja leiðbeiningar á íslensku skuluð þið endilega kvarta.