Í hámæli
Orðið hámæli er skýrt 'e-ð sem er umtalað, á allra vörum án þess að vera eiginlega opinbert' í Íslenskri nútímamálsorðabók, en hámark er aftur á móti 'hæsta stig sem e-ð getur eða hefur náð'. Oftast sker samhengið ótvírætt úr um það hvort orðið eigi við en þó eru þess dæmi að hvort tveggja kæmi til greina. Í Helgarpóstinum 1987 segir t.d.: „Maður skyldi ætla að versiunareigendum væri ami að sífelldum straumi fólks að kaupa sér miða, til dæmis á laugardagseftirmiðdögum þegar lottóvíman er í hámæli.“ Þarna er vissulega hugsanlegt að átt sé við að mikið sé rætt um lottóvímuna á laugardagseftirmiðdögum, en samt virðist miklu líklegra að merkingin sé sú að lottóvíman sé í hámarki. Ýmis fleiri hliðstæð dæmi mætti nefna.
Stundum er þó ótvírætt að merkingin í hámæli er 'hámark'. Í Morgunblaðinu 2005 segir: „Það þarf ekki að vera svo flókið að útbúa hollan og góðan mat úr grænmeti; ekki síst á þessum árstíma þegar uppskera grænmetis er í hámæli.“ Í Morgunblaðinu 2010 segir: „birgðir útvegsins aukast alla jafna á þessum tíma árs þegar vetrarvertíð er í hámæli.“ Í Fréttablaðinu 2010 segir „að mikill munur sé á veitingum í brúðkaupsveislum og árshátíðum sem eru í hámæli um þessar mundir“. Í Fréttablaðinu 2012 segir: „Nú þegar sumarið er í hámæli.“ Í Fréttablaðinu 2012 segir: „svona mitt á milli Laugavegar og Kringlu, þar sem jólaverslun landans er í hámæli, stendur hópur fólks og bíður eftir matarpoka.“ Í Fréttablaðinu 2021 segir: „kannski varla við öðru að búast þegar kosningabaráttan er í hámæli.“
Í gær var hér bent á dæmi um að orðið hámæli væri notað í merkingunni 'hámark'. Ég hafði rekist á þetta áður en hélt að það væri nýtt, en þegar ég fór að skoða þetta kom í ljós eins að það eru allnokkur ár síðan þessi notkun fór að stinga sér niður. Í umræðunni var bent á að orðasambönd eins og í miklum mæli gætu stuðlað að því að hámæli væri notað í merkingunni 'hámark'. Í sambandinu í miklum mæli er mæli vissulega beygingarmynd af karlkynsorðinu mælir en ekki hvorugkynsorðinu mæli eins og í hámæli, en vegna þess að hámæli kemur aðeins fyrir í þolfalli eða þágufalli og *mikill mælir aldrei í nefnifalli falla orðmyndirnar alltaf saman og því er ekki óeðlilegt að málnotendur skynji þetta sem sama orðið – líti svo á að í hámæli merki 'í háum (= miklum) mæli' eða eitthvað slíkt.
En þótt þessi breyting sé þannig skiljanleg þýðir það ekki að hún sé æskileg. Orðið hámark þjónar sínum tilgangi ágætlega og engin þörf á að leysa það af hólmi. Ef farið er að nota orðið hámæli í sömu merkingu er hætta á misskilningi vegna þess að samhengið sker ekki alltaf úr um merkinguna eins og hér hefur komið fram. Það má halda því fram að málið verði fátækara ef merking þessara orða rennur saman. Þótt þessi tilhneiging til breytingar á merkingunni í hámæli sé ekki alveg ný af nálinni virðist hún ekki vera orðin mjög útbreidd enn og því ætti að vera möguleiki að snúa henni við. Leyfum hámæli að halda hefðbundinni merkingu.