Áskorun

Orðið áskorun er mikið notað í seinni tíð í merkingunni 'krefjandi verkefni', og látið samsvara enska orðinu challenge. Þetta er ekki nýtt – í þætti Gísla Jónssonar um íslenskt mál í Morgunblaðinu 1999 birtist bréf frá lesanda sem sagði: „Mikið leiðist mér að heyra sí og æ að hitt og þetta sé mikil áskorun.“ Þessi notkun orðsins virðist koma upp í kringum 1980. Í Vísi það ár segir t.d.: „Fjáröflun flokksins er byggð á frjálsum framlögum og happdrættum og þetta er mikil áskorun á flokksmenn um land allt að herða nú mjög róðurinn til fjársöfnunar.“ Þessi notkun fer svo að breiðast út um miðjan tíunda áratuginn og einkum eftir aldamót.

Í áðurnefndum þætti Gísla Jónssonar sagði hann sér leiðast þegar challenge væri þýtt með áskorun og benti á að í Ensk-íslenskri orðabók væri það þýtt sem „spennandi, storkandi eða ögrandi viðfangsefni“ sem væru góðir kostir (reyndar segir þar líka „viðfangsefni sem kallar á framtak eða aðgerðir“), en síðar sagði Gísli reyndar: „Mjög oft á við að segja að eitthvað sé skemmtilegt viðfangsefni, þar sem menn hafa þrástagast á orðinu ögrun.“ Oft er þó sagt að ögrun sé betra orð en áskorun í þessu samhengi, en um það er deilt og ýmislegt hnígur í þá átt að ekki sé heppilegt að nota ögrun í staðinn fyrir áskorun.

Í Vikunni 1964 segir: „Stundum var áskorun í þessum augum, stundum ögrun, en stundum sakleysi ungrar og ákafrar konu.“ Í Frjálsri verslun 1986 segir: „Maður á aldrei að líta á nýjungar sem ögrun heldur áskorun.“ Í Víðförla 1999 segir: „Birgitte Tufte lektor flutti fyrirlestur er bar heitið „Rafrænir miðlar – ögrun eða áskorun?““ Í Morgunblaðinu 2002 segir: „Henni virtist ekkert ofvaxið og tók hverri áskorun sem ögrun um að gera það sem hún best gat hverju sinni.“ Þessi dæmi sýna að a.m.k. sumir málnotendur nota orðin ögrun og áskorun í mismunandi merkingu.

Fyrir öðrum virðist merking orðanna vera svipuð en kannski ekki alveg sú sama. Í Norðurljósinu 1956 segir: „Háfjallablærinn andar frá þeim ögrun og áskorun til hvers þess manns, sem vill „koma á kaldan stað, á karlmennsku sinni „að halda próf.“ Í Vísi 1970 segir: „EFTA er okkur sams konar áskorun og ögrun og viðskiptafrelsið var fyrir einum áratug. Þá bárum við sigur úr býtum.“ Í Vísi 1972 segir: „Þetta stórkostlega verk er áskorun og ögrun til þroskaðra og langreyndra listamanna.“ Í Dagblaðinu 1978 segir: „Útsvarslækkunin á Seltjarnarnesi er ögrun og áskorun í garð annarra sveitarstjórna.“

Í þætti árið 2001 birti Gísli Jónsson bréf frá Þórði Erni Sigurðssyni sem sagði m.a.: „Orðið […] ögrun […] er í tísku hjá fjölda fólks sem hugsar á ensku og brúkar það sem þýðingu (ranga þó!) á orðinu challenge. Challenging task heitir ögrandi viðfangsefni nú þegar duga mundi að kalla það verðugt, heillandi eða bara forvitnilegt verkefni. Í mínum huga þýðir sögnin að ögra að storka, mana, egna; jafnvel að stríða, þ.e.a.s. að misbjóða að þessu leyti. Aldrei eitthvað jákvætt svo sem að brýna eða hvetja til dáða. […] Enska sögnin to challenge þýðir ekki að ögra, storka, mana né egna eins og fjöldinn virðist þó halda […].“

Orðið áskorun er í Íslenskri orðabók skýrt 'það að skora á e-n, eggjunarorð, hvatning' og í þriðju útgáfu frá 2002 var bætt við skýringunni 'erfitt verkefni sem freistandi er að ráðast í'. Sögnin ögra er aftur á móti skýrð 'espa, stríða, egna, eggja, hvetja; storka, mana'. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er áskorun skýrð 'hvatning, áeggjan' en ögrun aftur á móti 'það að ögra, reita til reiði'. Vissulega getur eggjun eða hvatning falist í ögrun en mín tilfinning er samt sú að neikvæða merkingin sé yfirgnæfandi í nútímamáli. Sjálfum finnst mér áskorun yfirleitt jákvætt orð en ögrun fremur neikvætt.

Vissulega má segja að orðið áskorun sé notað hér í nýrri merkingu en hún er þó ekki svo fjarri hinni eldri – í báðum merkingum felst hvatning og eitthvað sem reynir á. Það er komin 40 ára hefð á að nota áskorun í umræddri merkingu og sú notkun er mjög útbreidd og komin inn í orðabók, og orðið hentar betur en ögrun og önnur orð sem hafa verið lögð til. En vissulega má halda því fram að orðið sé ofnotað í nútímamáli og oft væri hægt að nota annað orðalag, t.d. viðfangsefni, krefjandi verkefni o.fl., en það nær þó ekki alltaf þeirri merkingu sem lögð er í 'áskorun'. Ég sé enga ástæðu til annars en halda áfram að nota það – í hófi, eins og annað.