Yfirfærsla enskra orða og orðasambanda
Sigurbjörg Þrastardóttir skrifaði ágætan pistil í Morgunblaðið um helgina þar sem hún benti á hversu algengt er að ýmis orð og orðasambönd séu yfirfærð beint úr ensku, svo sem taka með saltbroti (e. with a grain of salt), blessun í dulargervi (e. blessing in disguise) o.fl. Dæmum um slíka yfirfærslu fer líklega ört fjölgandi – bæði vegna þess hve enskan er yfirþyrmandi í umhverfi okkar, og vegna þess að sennilega hefur dregið úr almennri þekkingu á málhefðinni vegna minnkandi bóklesturs og örra samfélagsbreytinga. En þótt þetta sé áberandi um þessar mundir er það engin ný bóla.
Mikill fjöldi orða og orðasambanda hefur komið inn í íslensku úr öðrum málum á undanförnum öldum – lengi framan af einkum úr dönsku og þýsku en á síðustu áratugum nær eingöngu úr ensku. Mörg þessara orða og orðasambanda falla fullkomlega að málinu þannig að okkur dettur ekki annað í hug en þau séu annaðhvort norrænn arfur eða heimasmíðuð – önnur bera erlendan uppruna með sér á einhvern hátt en eru samt löngu orðin góð og gild íslenska. Málið yrði miklu fátækara ef við ætluðum að útrýma öllum þessum orðum og orðasamböndum enda dettur engum það í hug.
Þegar um er að ræða orð og orðasambönd sem eru smíðuð úr íslensku hráefni, samkvæmt íslenskum reglum um orðmyndun og setningagerð, er engin ástæða til að amast við þeim enda þótt þau eigi sér erlendar fyrirmyndir. Það er að segja – það er engin ástæða til að amast við því að þessi orð eða orðasambönd séu smíðuð, og notuð þegar við á. Það eru í sjálfu sér ekki rök gegn slíkum nýjungum að þær séu iðulega óþarfar vegna þess að fyrir séu í málinu orð eða orðasambönd sem gegni sama hlutverki. Fjölmörg orð í málinu eru óþörf, sé þessi mælikvarði notaður, en það auðgar málið að geta tjáð sömu hugsun á fleiri en einn hátt.
Vandinn er hins vegar sá að þessi nýju orð og orðasambönd eru iðulega búin til af ókunnugleika eða áhugaleysi um málhefð. Fólk veit ekki eða hugsar ekki út í að til eru í íslensku orð eða orðasambönd sem hafa þá merkingu sem leitað er að, og notar því enskuna sem fyrirmynd. Ef við lítum eingöngu á tungumálið sem samskiptatæki er auðvitað ekkert að þessu. Væntanlega gera höfundar nýjunganna ráð fyrir að lesendur eða áheyrendur kannist við ensku fyrirmyndina og skilji því nýjungina fyrirhafnarlaust – margir jafnvel frekar en ef notuð væru orð sem fyrir eru í málinu.
En öðru máli gegnir ef við lítum svo á að hlutverk tungumálsins sé einnig að vera menningarmiðlari milli kynslóða. Þá er óheppilegt að virða málhefð að vettugi, hvort sem það er viljandi gert eða af þekkingarleysi. Það eykur á kynslóðabil í máli og heggur skörð í samhengi málsins. Nýjum orðum og orðasamböndum ber að fagna, en notkun þeirra á ekki að vera sprottin af þekkingarskorti eða hirðuleysi. Ef við notum þau á annað borð á það annaðhvort að vera vegna þess að íslensku skorti aðferð til að tjá viðkomandi merkingu, eða vegna þess að við veljum meðvitað að nota nýjungina þótt við vitum af öðrum kostum.