Lifandi mál
Í gær birti Hildur Ýr Ísberg framhaldsskólakennari færslu úr lestrardagbók nemanda um Sjálfstætt fólk á Facebook. Færslan var birt með leyfi nemandans og ég fékk leyfi Hildar til að birta hana hér vegna þess að ég held að mörgum okkar í þessum hópi veiti ekki af að átta okkur á eðlilegu máli ungs fólks – og viðurkenna það. Þessi kynslóð á nefnilega alveg jafn mikinn hlut í málinu og við, en það veltur á henni – ekki okkur – hvort íslenskan verður notuð áfram. Þess vegna skiptir öllu að við höfnum ekki máli unga fólksins – þar með erum við að hafna því að íslenskan eigi framtíð. Að sögn kennara hefur nemandinn mjög gott vald á ritmáli og er fullfær um að skrifa formlegan texta en í þessu tilviki var ekki var gerð krafa um slíkt heldur var nemendum sagt að þau mættu nota eðlilegt talmál sitt. Færslan er svona:
„Ojjj hvað Bjartur er ehv hræsinn. “Ég er sjálfstæður maður og þú ert sjálfstæð kona” EINS OG HANN SÉ EKKI BEINLÍNIS AÐ BANNA HENNI AÐ VERA SJÁLFSTÆÐ??? Halló??? Síðan er hann bara ekkert að skilja afhverju hún er fúl eða afhverju henni langar heim bara bro, það er af því þú ert algjör bjáni. Hann líka bara lowkey að slutshamea hana og ásakar hana síðan um framhjáhald í næsta kafla OMG þessi karl. Andjóks væri ekki hissa ef hún væri að halda framhjá þusst hann er ömurlegur. Honum líka bara líkar betur við hana sofandi því hún er fúl vakandi en sæl sofandi AFHVERJU VARSTU ÞÁ AÐ GIFTAST HENNI??? Hann er líka bara mjög hrifin af kindum, vill ekki kýr heldur bara kindur, hversu fjölbreytt áhugamál vá.“
Ég ímynda mér að ýmsum hafi svelgst á við þennan lestur og þau sem eru á þeim buxunum geta vitanlega fundið æði margt til að hneykslast á og leiðrétta þarna – enskuslettur, „þágufallssýki“, „vera ekki að skilja“, óhefðbundnar orðmyndir, talmálslega orðaröð, stafsetningarvillur, notkun upphafsstafa og greinarmerkja, o.fl. En þau sem einblína á þessi frávik frá formlegu ritmáli missa algerlega af því sem raunverulega skiptir máli – hvað þetta er frábær texti sem sýnir mikla ástríðu og djúpa innlifun í efnið. En ekki bara það – hann sýnir líka frjóa, lifandi og eðlilega málnotkun sem er sannarlega íslensk. Þarna er m.a.s. notað orðið hræsinn sem nemandinn hefur sennilega búið til út frá hræsni en er reyndar gamalt í málinu þótt það hafi varla verið notað síðan á 19. öld.
Það er alveg eðlilegt að við sem eldri erum séum kannski ekki fullkomlega sátt við málfarið á þessum texta, en aðalatriðið er að við þurfum að vinna með það mál sem ungt fólk notar – ekki vinna gegn því. Við getum ekki beitt á það hundrað ára gömlum viðmiðum, sniðnum að gerólíku samfélagi. Auðvitað er sjálfsagt og mikilvægt að leiðbeina nemendum um málnotkun, þjálfa þau í beitingu mismunandi málsniða, benda þeim á að nota íslensk orð þar sem kostur er og hvetja þau til vandaðra vinnubragða. En að leiðrétta svona texta eftir úreltum málstaðli formlegs ritmáls, að segja nemendum að íslenskan þeirra sé vond, röng, og jafnvel ekki íslenska, væri sannarlega ekki til þess fallið að efla áhuga þeirra á málinu eða auka líkur á því að þau vilji nota það í framtíðinni. Við erum alls konar - og íslenskan verður að fá að vera það líka.