Kósí
Í gær minnti forseti Alþingis varaþingkonu Pírata á að þingmálið væri íslenska, í tilefni þess að þingkonan notaði orðið kósí í ræðustól þingsins. Þingkonan var ekki sátt við þessa athugasemd og kom aftur í ræðustól til að benda á að orðið er í Íslenskri nútímamálsorðabók Stofnunar Árna Magnússonar, og skýrt 'notalegur, hlýlegur'. Orðið er líka að finna í Íslenskri orðabók og er þar skýrt 'notalegur, huggulegur'. Þar er það merkt ?? til að sýna að það sé vafasamt mál, en í Íslenskri nútímamálsorðabók er það alveg athugasemdalaust. Ég var spurður að því í morgunútvarpi Rásar 2 áðan hvort þetta væri íslenska, og hvenær og hvernig erlend orð yrðu íslenska. Fyrri spurningunni er auðvelt að svara játandi, en hvað með hina?
Orðið kósí (eða kósý) er vitanlega tökuorð, komið af enska orðinu cozy. Elsta dæmi um það er í Skólablaðinu 1949: „Höfum vér eitt yfirmáta kósí kammersi meður prívat vaskhúsi til meðhöndlunar og brúkunar.“ Þetta er reyndar úr gamantexta sem er uppfullur af slettum og tökuorðum og því ekki alveg dæmigert. En frá sjötta áratugnum eru nokkur dæmi um orðið þótt þeim fari fyrst að fjölga um miðjan tíunda áratuginn og sérstaklega eftir aldamót. Frá síðustu 20 árum eru um 4000 dæmi um orðið á tímarit.is. Fyrst óformlegt tökuorð af þessu tagi er svo algengt á prenti er ljóst að það er mjög algengt í töluðu máli og engin leið að segja að það sé ekki íslenska. En hvenær verður orð úr erlendu máli að íslensku?
Fyrir 20 árum var gefin út endurskoðuð útgáfa af Íslenskri orðabók í ritstjórn Marðar Árnasonar. Það vakti athygli að í henni var að finna ýmsar erlendar slettur sem þóttu ekki virðulegt mál og fram að því höfðu ekki komist í orðabækur – orð eins og bögg, dissa, digg – og sjitt. Þessi orð voru vissulega merkt sérstaklega til að notendur gætu varað sig á þeim – tvö þau fyrstnefndu sem „slangur“, það þriðja sem „óforml.“, og það síðastnefnda með tveimur spurningarmerkjum sem tákna vafasamt mál. Samt sem áður voru ýmsir málvöndunarmenn ósáttir við að orðin skyldu sýnd og töldu að það yrði „að fara ákaflega gætilega í það að taka upp slanguryrði sem nánast er vitað að flestir kæra sig ekki um eða jafnvel hneykslast á“.
En verður orð íslenska við það að vera tekið upp í orðabækur? Eða þarf orð að vera í orðabókum til að geta kallast íslenska? Auðvitað ekki. Það eru ekki til nein föst viðmið um það hvaða orð skulu tekin í orðabækur. Það verður alltaf á endanum huglægt mat orðabókaritstjóra, þótt þeir geti vissulega stuðst við ýmis atriði eins og aldur orðanna í málinu, tíðni þeirra, útbreiðslu o.fl. Ýmis góð og gild íslensk orð er ekki að finna í almennum orðabókum af ýmsum ástæðum – þau geta verið of sérhæfð til að eiga erindi þangað, of sjaldgæf til að orðabókaritstjórar hafi fregnir af þeim, of ný til að vera komin inn, eða svo augljósrar merkingar að ástæðulaust þyki að skýra þau sérstaklega.
Vitanlega er erlendur uppruni ekki næg ástæða til að hafna orðum sem íslenskum – þá fyki talsverður hluti orðaforðans, t.d. jafnalgeng og hversdagsleg orð sem sápa og bíll. Það sem helst gæti komið í veg fyrir viðurkenningu á kósí sem íslensku orði er hljóðafarið og beygingin. Íslensk erfðaorð hafa ekki í í öðru atkvæði þótt vissulega séu til viðurkennd tökuorð af því tagi, eins og t.d. mánaðaheitin júní og júlí. Meira máli skiptir að orðið beygist ekki, en sama gildir um ýmis önnur lýsingarorð sem hafa komið inn í málið úr ensku á undanförnum áratugum – næs, kúl, töff o.fl. En einnig er til fjöldi óbeygðra rammíslenskra lýsingarorða – orð sem enda á -a eins og andvaka, fullburða, samferða o.fl., og -i, eins og hugsi.
Þrátt fyrir erlendan uppruna, hljóðafar og beygingarleysi hlýtur að verða að telja kósí hluta af íslenskum orðaforða vegna aldurs þess, tíðni og útbreiðslu eins og áður segir. Orðið hefur meira að segja verið notað nokkrum sinnum áður í þingræðum, fyrst árið 2015, án þess að séð verði að athugasemdir hafi verið gerðar við það. Það var því ástæðulaust af forseta Alþingis að gera athugasemd við notkun þess í gær.