Enskættað orðalag er vísbending
Um helgina sá ég sambandið brjóta met notað í frétt á vefmiðli. Ég ætlaði að fara að skrifa höfundi fréttarinnar og benda á að hefðbundið íslenskt orðalag væri að slá met, en þegar ég skoðaði fréttina aftur var búið að breyta þessu þannig að ég slapp við bréfaskriftir. Þetta var í erlendri frétt og nokkuð augljóst að þarna hefur enskt orðalag haft áhrif á höfundinn – í ensku er talað um break a record. Íslenska orðalagið er reyndar komið úr dönsku, slå (en) rekord, og í elstu dæmum um það frá fjórða áratug síðustu aldar er það stundum haft innan gæsalappa sem bendir til þess að það hafi ekki þótt alveg fullgild íslenska í byrjun, en nú hefur það fyrir löngu unnið sér hefð. En þetta gaf mér tilefni til að skoða fleiri svipuð dæmi.
Annað dæmi um sögnina brjóta er þegar talað er um brotið hjarta – broken heart á ensku. Elstu dæmi um þetta eru rúmlega 100 ára gömul, öll úr vesturíslenskum blöðum sem bendir eindregið til ensks uppruna. Í íslenskum blöðum fer þetta ekki að sjást að ráði fyrr en á stríðsárunum og þó sérstaklega eftir 1980, og eykst verulega eftir aldamótin. Aftur á móti er mun eldri hefð fyrir því að tala um brostið hjarta. Svipað má segja um að brjóta loforð sem á ensku er break a promise. Þetta er líka gamalt, elstu dæmi yfir 100 ára, og flest elstu dæmin einnig úr vesturíslenskum blöðum. En orðalagið hefur tíðkast síðan snemma á 20. öld þótt dæmin hafi alltaf verið margfalt færri en um svíkja loforð sem er hið venjulega orðalag.
Svipuð dæmi eru fjölmörg. Við tökum oft ekki eftir þeim vegna þess að orðin sem eru notuð eru íslensk – það sem er enskrar ættar er samhengið sem orðin eru sett í. Við þessu má einkum búast hjá fólki sem er mikið í ensku málumhverfi og í þýðingum úr ensku, ekki síst þeim sem eru unnar í flýti eins og þýðingar á fréttum eru oft. Meðal dæma af þessu tagi sem ég hef skrifað um er að læra frá þar sem enska hefur learn from, í stað læra af eins og venja er; segja að einhver sé í tárum í stað tárfellandi eða tárvotur þar sem enska hefur in tears; að nota tímaákvarðanir án ákvæðisorða og segja í daga og í vikur þar sem enska hefur for days/weeks en íslenska hefur haft í nokkra daga, vikum saman eða eitthvað slíkt.
Í rannsóknarverkefni okkar Sigríðar Sigurjónsdóttur fyrir nokkrum árum báðum við þátttakendur að meta nokkur dæmi af þessu tagi. Eitt þeirra var Hann baðst afsökunar fyrir léleg myndgæði þar sem á ensku er apologize for. Hátt í 90% þátttakenda undir 16 ára fannst þessi setning frekar eða mjög eðlileg. Önnur var Hún hefur aldrei haft vandamál með þetta áður þar sem á ensku er have a problem. Rúmlega helmingi undir 16 ára fannst þessi setning frekar eða mjög eðlileg. Þriðja dæmið var Í þennan veg er hægt að bæta ástandið þar sem á ensku er in this way. Þar töldu 20-30% undir 16 ára setninguna frekar eða mjög eðlilega. Í öllum tilvikum lækkaði hlutfallið mikið, en þó mismikið, með hækkandi aldri.
Eins og ég hef oft áður sagt er erlendur uppruni ekki næg ástæða til að amast við einhverju orði eða orðalagi, og það er erfitt að færa rök að því að brjóta met, læra frá og biðjast afsökunar fyrir sé eitthvað minni eða verri íslenska en slá met, læra af og biðjast afsökunar vegna. Ef þessi sambönd vinna sér hefð finnum við væntanlega ekkert athugavert við þau í framtíðinni. En notkun þessara sambanda bendir hins vegar til þess að fólkið sem notar þau þekki ekki málhefðina og það er umhugsunarvert. Málhefðin er vissulega ekkert heilög og hún getur breyst – og oft er eðlilegt eða nauðsynlegt að hún breytist. En skortur á þekkingu á málhefðinni getur samt gefið vísbendingu um að það þurfi að huga að kynningu hennar.
Þess vegna er sjálfsagt að benda á það þegar brugðið er út af málhefð. Ef ég væri enn að kenna, eða væri að lesa prófarkir, myndi ég benda á það í öllum þeim dæmum sem nefnd eru hér að framan. Ég skrifa líka stundum fjölmiðlum þegar ég sé dæmi af þessu tagi, þótt ég slyppi við það með brjóta met eins og nefnt er í upphafi. En það skiptir öllu máli að slíkar ábendingar séu settar fram sem leiðbeiningar en ekki leiðréttingar. Þetta snýst ekki um það að eitt sé rangt en annað rétt, heldur um samræmi við málhefðina. Fólk getur haft sínar ástæður fyrir því að kjósa að fylgja henni ekki, og þá er það í góðu lagi. En það skiptir máli að slíkt sé meðvitað val en stafi ekki af því að fólk þekki ekki hefðina.