Gær er nafnorð!
Í gær sá ég umræðu um það í hópnum Skemmtileg íslensk orð hvaða orðflokkur gær væri. Skoðun flestra var að það væri atviksorð en sum töldu það þó frekar nafnorð. Við höfum væntanlega flest lært að þetta sé atviksorð og þannig er það flokkað í flestum orðabókum og kennslubókum, held ég, sem og í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Undantekning er þó Ritmálssafn Árnastofnunar þar sem gær er flokkað sem nafnorð í hvorugkyni. Í Den Danske Ordbog er går sem er auðvitað sama orð og kemur eingöngu fyrir í sambandinu i går flokkað sem nafnorð. Samsvarandi orð í þýsku, gestern, er hins vegar flokkað sem atviksorð enda stendur það sjálfstætt en ekki með forsetningu.
Vissulega er hægt að færa bæði merkingarleg og beygingarleg rök fyrir því að gær sé atviksorð. Það kemur eingöngu fyrir í sambandinu í gær sem hefur atvikslega merkingu – í setningum eins og ég kom í gær getum við sett dæmigerð atviksorð eins og áðan, nýlega o.s.frv. í staðinn fyrir í gær. En þar koma atviksorðin í stað sambandsins í gær, ekki bara í stað orðsins gær. Við getum líka tekið setningu eins og ég kom í morgun og sett áðan eða nýlega í staðinn fyrir í morgun en samt dettur engum í hug að segja að morgun sé atviksorð. Ástæðan er auðvitað sú að morgun kemur fyrir sjálfstætt, utan sambandsins í morgun, en gær kemur eingöngu fyrir í þessu sambandi. Merkingarlegu rökin duga því varla ein og sér.
Sú staðreynd að gær kemur eingöngu fyrir í þessu sambandi er líka notuð sem rök fyrir greiningu orðsins sem atviksorðs. Á bak við það virðist liggja sú hugmynd að öll nafnorð hljóti að geta komið fyrir í mismunandi beygingarmyndum. En því fer fjarri – það er til sægur nafnorða sem koma eingöngu fyrir í einu orðasambandi og þar af leiðandi aðeins í einni beygingarmynd. Engum dettur í hug að flokka takteinum, boðstólum og kyrrþey sem atviksorð þótt þau komi aðeins fyrir í samböndunum á takteinum, á boðstólum og í kyrrþey. Ástæðan er sú að við tengjum orðhlutana -teinn, -stóll og -þeyr við orðin teinn, stóll og þeyr sem auðvitað eru til sjálfstæð, og hikum þess vegna ekki við að greina samsetningarnar sem nafnorð.
Þannig er það ekki með gær – við finnum það hvergi sem seinni lið samsetninga (nema fyrragær). En sama máli gegnir t.d. með tagi (eða tæi) í samböndum eins og af þessu/ýmsu tagi. Það kemur eingöngu fyrir í þessari mynd og er ekki að finna í neinum samsetningum. Samt sem áður er það ævinlega flokkað sem hvorugkynsnafnorð. Líklega er það endingin -i sem er þágufallsending allra sterkra hvorugkynsorða sem ýtir undir þá flokkun. Orðið gær hefur enga endingu, enda stendur það í þolfalli (ef það er fallorð) og sterk hvorugkynsorð eru endingarlaus í þolfalli. Það eru þess vegna engar beygingarlegar eða orðmyndunarlegar vísbendingar um að gær sé nafnorð. En ekki heldur gegn því að það sé nafnorð.
Þá má leita til upprunans. Í Íslenskri orðsifjabók er orðið tengt við gestern í þýsku, gistradagis í gotnesku (sem merkir reyndar 'á morgun' eins og í gær gat gert í skáldamáli) og hĕrī í latínu sem allt eru atviksorð. Í þessum málum stendur orðið ekki á eftir forsetningu eins og í íslensku og dönsku – hún er síðari tíma viðbót. Það er því engin ástæða til að efast um að gær sé upphaflega atviksorð, en það er fjarri því að vera einsdæmi að orð flytjist milli flokka. Nægir að nefna atviksorðið stundum sem er upphaflega þágufall fleirtölu af nafnorðinu stund, og nafnorðið nó í sambandinu á nóinu sem er komið úr ensku neituninni no. Orðin já og nei eru oftast greind sem atviksorð (eða upphrópanir) en geta einnig verið nafnorð. O.s.frv.
Hvorki merkingarleg né beygingarleg né orðsifjafræðileg rök duga því til að sýna fram á að gær sé atviksorð. Aftur á móti bendir setningafræðileg staða orðsins eindregið til þess að það sé nafnorð. Það stendur á eftir dæmigerðri forsetningu, í, í samböndum sem virðast alveg hliðstæð við sambönd í og ótvíræðra nafnorða – í dag, í morgun, í kvöld. Einnig má benda á hliðstæðu við sambandið í fyrradag. Orðið fyrradag er ekki til í nefnifalli – það kemur bara fyrir í þessu sambandi, rétt eins og gær, en engum dettur þó í hug að kalla það atviksorð. Er eitthvert vit í að segja að í dag og í fyrradag séu sambönd forsetningar og nafnorðs, en í gær sé samband tveggja atviksorða (í telst ekki forsetning nema stjórna falli)?
Að öllu samanlögðu tel ég engan vafa leika á því að réttast sé að greina gær sem nafnorð. En þá vaknar spurningin: Í hvaða kyni? Því er ekki auðvelt að svara. Þær vísbendingar sem við notum venjulega til að greina kyn nafnorða eru beygingin, greinirinn, kyn lýsingarorða og fornafna sem með þeim standa, og kyn fornafna sem vísa til þeirra. Engu þessara einkenna er til að dreifa hér og þá er aðeins eftir að líta á gerð orðsins sjálfs. Í sjálfu sér gæti orð af þessu tagi verið í hvaða kyni sem er en einhvern veginn finnst mér eðlilegast að telja þetta hvorugkyn. Í raun er þetta þó eingöngu fræðileg spurning – vegna þess að orðið kemur eingöngu fyrir í einu sambandi, og aldrei er vísað til þess með fornafni, reynir aldrei á kynið.