Ömmgur, langmæðgur og langfeðgar
Um daginn spurði kona hvaða orð hún gæti notað um sig og sonardóttur sína – hafði séð orðið ömmgur um konu og dótturdóttur hennar en fannst það eitthvað skrítið. Í umræðum var bent á að orðið langmæðgur væri stundum notað í þessari merkingu. Það orð er reyndar hvergi í orðabókum, aðeins á Nýyrðavef Árnastofnunar þar sem það er skýrt 'amma og dóttur- eða sonardóttir'. Á tímarit.is eru innan við 30 dæmi um orðið, það elsta í Vísi 1945: „Hún lét eftir sig tveggja ára dóttur, sem bar nafn ömmu sinnar, Ástríðar, og var mikið ástríki á milli þeirra langmæðgna.“ Orðið virðist þó oftar notað um ömmu og dótturdóttur en sonardóttur, en einnig eru dæmi um að það nái yfir ömmu, dóttur og dótturdóttur eða jafnvel fleiri ættliði.
Orðið langfeðgar er aftur á móti í gamalt í málinu – elsta dæmi Ritmálssafns Árnastofnunar um það er frá 17. öld. Það orð er bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók skýrt 'forfeður í beinan karllegg'. Sú merking er vissulega algeng og kemur t.d. fram í „Hafa langfeðgar hans búið um langan aldur á Halldórsstöðum í Laxárdal í S.-Þingeyjarsýslu“ í Sindra 1922, og „Faðir minn var að elta þorskinn en þessir langfeðgar mínir voru allir útvegsbændur“ í Þjóðviljanum 1985. Hliðstæð merking er stöku sinnum lögð í orðið langmæðgur líka, eins og í Fréttablaðinu 2020: „Skagfirskar langmæðgur Sveinbjargar Sveinbjörnsdóttur leituðu sterkt á hug hennar og hún ákvað að skrifa um þær sína fyrstu skáldsögu.“
En skýring orðabókanna á langfeðgar er þó ekki fullnægjandi því að orðið er ekki bara notað um forfeður heldur líka oft um afa og sonar- eða dótturson, hliðstætt við venjulega notkun á langmæðgur. Þannig skrifar dóttursonur um afa sinn í Tímanum 1987: „Þrátt fyrir pólitískt bráðlyndi okkar langfeðga, var afi ávallt fyrri til sátta og hafði þar vit fyrir unglingnum.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir um mann og afa hans: „Á vissan hátt var það líkt og skóli fyrir okkur sem yngri vorum að hlýða á þá langfeðga ræða saman.“ Í orðabókunum þarf því að bæta við annarri merkingu í langfeðgar, 'afi og sonar- eða dóttursonur' og einnig bæta orðinu langmæðgur við sem sjálfstæðri flettu með tveimur merkingum hliðstætt við langfeðgar.
Svo að aftur sé komið að upphafi umræðunnar má segja að langmæðgur sé ekki að öllu leyti heppilegt orð yfir konu og dóttur- eða sonardóttur hennar. Það er bæði vegna þess að merking orðsins er ekki alveg ótvíræð – það gæti líka falið í sér milliliðinn, þ.e. dóttur eldri konunnar og móður barnsins – og einnig vegna þess að fyrri liðurinn lang- gæti bent til þess að um langömmu og barnabarnabarn væri að ræða. Orðið mæðgur er myndað með g-viðskeyti (og hljóðvarpi) af móðir og þótt -g- sé ekki virkt viðskeyti í nútímamáli má alveg hugsa sér að mynda orð af amma á sama hátt. Það ætti þó reyndar væntanlega að vera myndað af stofninum amm- án hljóðvarps og vera *ammgur frekar en ömmgur.
Ég segi „ætti“ vegna þess að ef orðið væri myndað á sama hátt og mæðgur ætti þarna ekki að vera neitt hljóðvarp – þessari orðmyndun fylgdi ekki u-hljóðvarpið a > ö. En þótt æ-ið í mæðgur sé ekki komið úr fleirtölunni mæður (enda aðeins um eina móður að ræða) heldur tilkomið með hljóðvarpi sem tengist viðskeytinu er trúlegt að málnotendur skynji mæð- í mæðgur sem fleirtölu, enda óneitanlega um fleiri en eina konu að ræða. Á sama hátt finnst málnotendum eðlilegt að nota fleirtölumyndina ömm- frekar en eintöluna amm- vegna þess að konurnar eru fleiri en ein, þótt vissulega sé aðeins ein þeirra amma. Á endanum eru það auðvitað málnotendur sem ráða hvaða orð komast í umferð en ekki málfræðingar – vilji fólk nota ömmgur gerir það það.