Verum knúsfús!
Í Íslenskri orðsifjabók kemur fram að sögnin knúsa sjáist fyrst á 17. öld í merkingunni 'knosa, mylja, þjarma að' og sé tökuorð úr dönsku sögninni knuse sem hefur þessa merkingu. Sama merking er gefin upp í fyrri útgáfum Íslenskrar orðabókar en í þriðju útgáfu er búið að bæta við merkingunni 'faðma e-n' sem sögð er „óformlegt mál“ og sama gildir um nafnorðið knús sem sagt er merkja 'innilegt faðmlag'. Danska sögnin knuse getur reyndar haft þessa merkingu líka og þetta er eina merkingin í nafnorðinu knus. Merkingin 'faðma (e-n)' er sú eina sem er gefin upp fyrir knúsa í Íslenskri nútímamálsorðabók og nafnorðið knús er þar í merkingunni 'faðmlag' – hvorugt orðið fær nokkra sérmerkingu.
Það er því ljóst er að þarna hefur orðið breyting á merkingu og málsniði. Í eldri dæmum hefur sögnin þá merkingu sem gefin er í Íslenskri orðsifjabók. Í Freyju 1903 segir t.d.: „Svo gröm var hún yfir þessu að hún gat ekkí látið vera að gjöra fólkinu upp orðin því viðvíkjandi, og það þó slík aðferð knúsaði allar tilfinningar hennar.“ Í Freyju 1905 segir: „Fyrir einu ári síðan leið þessari fjölskyldu einnig vel, allt þar til eiginmaðurinn og faðir litlu barnanna þarna var fluttur heim, einn góðan veðurdag, sundur knúsaður undan trjám sem óaðgætinn samverkamaður felldi á hann.“ Einnig var algengt að tala um knúsað mjöl, og stundum knúsað mál eða knúsað orðalag þar sem nú væri frekar notað knosað.
Elsta dæmi sem ég hef fundið um merkinguna 'faðma' er í Fálkanum 1950: „Síðan mundu þau knúsa hvort annað í ástarvímu, sem mundi blossa upp úr glóðum hinna nýju frétta.“ Í Alþýðublaðinu sama ár segir: „Hana geturðu kysst … henni geturðu þrýst að barmi þínum . . . hana getur þú kramið og knúsað.“ Í Fálkanum 1951 segir: „Hár og grannur, ókunnur maður með harðar varir, sem höfðu knúsað varir hennar, og með grá, djúphugul augu.“ Dæmum um þessa merkingu fer svo smátt og smátt fjölgandi en eldri merkingin er þó yfirgnæfandi lengi vel, líklega fram undir 1980. Upp úr því fer notkun orðanna knús og knúsa ört vaxandi og margfaldast svo upp úr aldamótum.
Nú er sögnin sennilega alltaf í nýrri merkingunni – sú upphaflega virðist vera því sem næst horfin þótt hún lifi enn góðu lífi í dönsku. En það er ekki eini munurinn á þróun íslensku sagnarinnar og þeirrar dönsku. Þannig er miðmyndin knúsast algeng og merking eldri dæma um hana er í samræmi við merkingu germyndarinnar – „Hefði Ulla ekki verið farin út, hefði hún knúsast undir hinu þunga þaki“ segir í Barnablaðinu 1955. En í Vísi 1971 er nýrri merkingin komin til sögu – „Kærustupar vitum við að knúsast“. Þótt merkingin sé venjulega 'faðmast' í samræmi við germyndina er stundum eitthvað meira gefið í skyn, eins og í Fréttablaðinu 2015: „Ástin mín, mig langar aðeins að knúsast en ég er mjög þreytt/-ur.“
Elsta dæmi um orðið knús er í Castria 1939: „„Eruð þið búnar að sjá hann Tyrone Power á Nýja Bíó?“ „Já, gu-uð, er hann ekki yndislegur?“ „Alveg knús.““ Annað dæmi er úr Morgunblaðinu 1948: „Kalli var þarna auðvitað, og hann er nú alveg knús.“ Þarna er knús notað sem lýsingarorð en ekki virðist hafa orðið mikið framhald á þeirri notkun þótt orðflokkur sé reyndar óviss í Mánudagsblaðinu 1949: „Ó, ég veit að þú hefur aldrei á æfi þinni séð annað eins knús.“ En elsta örugga dæmi um knús sem nafnorð er í Þjóðviljanum 1961: „Ég hefði haldið að kvenmaður þyrfti ekki annað til að vera í sjöunda himni en nýjan pels á hverju ári og sæmilegt knús öðru hverju.“
Sögnin knúsa liggur líka á bak við nafnorðið hjartaknúsari sem skýrt er 'kynþokkafullur karlmaður sem nýtur hylli kvenna' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Orðið kemur fyrst fyrir í Speglinum 1950: „Hjartaknúsari og hetja síns ættlands.“ En myndin hjartaknosari er eldri, kemur m.a. fyrir í Fegurð himinsins eftir Halldór Laxness frá 1940: „það varð heyrinkunnugt snemma dags að meðal farþega væri hjartaknosari nokkur að austan.“ Orðið hjerteknuser er til í dönsku í sömu merkingu og trúlegt er að íslenska orðið sé ættað þaðan, frekar en vera íslensk nýmyndun. En knuse hjerte á dönsku merkir 'gera óhamingjusaman', sbr. break heart á ensku, og spurning hvort hjartaknúsari/-knosari hafi haft þá merkingu upphaflega.
Fleiri samsetningar mætti nefna, svo sem knúskyssa sem kemur fyrst fyrir í Samtíðinni 1946: „Þegar stúlkan sá piltinn, hljóp hún rakleitt í faðm hans, knúskyssti hann og hrópaði fagnandi.“ Samsvarandi sögn er ekki til í dönsku þannig að þetta virðist vera íslensk nýmyndun sem ekki hefur komist inn í orðabækur þótt hún sé í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Síðast en ekki síst er svo hið stórskemmtilega lýsingarorð knúsfús eftir Jónasarverðlaunahafann Braga Valdimar Skúlason sem hvetur fólk einmitt til að nýta betur ýmis vannýtt orð. Í nýrri útgáfu Risamáheildarinnar sem hefur að geyma 2,4 milljarða orða eru aðeins 11 dæmi um þetta ágæta orð. Við skulum endilega nota það meira – ekki veitir af.