Kynhlutlaust mál er pólitík, ekki málfræði
Undanfarið hefur verið hér talsverð umræða um kynhlutlaust mál og ekki í fyrsta skipti. En þrátt fyrir að þetta mál hafi verið rætt fram og aftur og ýmis sjónarmið komið fram finnst mér umræðan hjakka dálítið í sama farinu. Í raun og veru held ég að það sé ekki mikill ágreiningur um staðreyndir málsins, svona frá málfræðilegu sjónarmiði a.m.k. Það er ljóst að af sögulegum ástæðum er málfræðilegt karlkyn og hefur verið notað sem „hlutlaust“ (ómarkað) kyn, þ.e. notað í vísun til óskilgreindra einstaklinga og hópa. Það er jafnframt ljóst að þau sem hafa alist upp í íslensku málsamfélagi hafa vanist þessari notkun á máltökuskeiði og hún er inngróin í málfar þeirra því að íslenska er gegnsýrð af málfræðilegu kyni.
Vegna þess að við erum alin upp við að karlkynið sé hlutlaust kyn finnst okkur setningar þar sem brugðið er út af því vera undarlegar og jafnvel ótækar – setningar eins og ekkert veit neitt og öll eru að gera sitt besta. En öðru máli gegnir ef við breytum dæminu örlítið – segjum ekkert þeirra veit neitt og öll börnin eru að gera sitt besta. Þarna er búið að afmarka hópinn – ekki er lengur um vísun til óskilgreinds hóps að ræða. Þetta sýnir að hvorugkynsmyndirnar geta vel vísað til fólks – það er bara ekki hefð fyrir því að þær standi einar sér og þess vegna finnst okkur fyrra dæmið undarlegt eins og flest tilbrigði í máli sem við erum ekki vön. En vitanlega getum við vanist slíkum dæmum. Hefðir málsins geta breyst – og gera það oft.
Það er ekkert í eðli íslenskunnar sem segir að karlkyn hljóti að vera hlutlaust kyn, þótt fyrir því sé vissulega löng og rík hefð. En ef við hefðum alist upp við að hvorugkyn væri hlutlaust, alist upp við dæmi eins og ekkert veit neitt og öll eru að gera sitt besta, þá fyndist okkur þau fullkomlega eðlileg. Auðvitað hafa engin sem komin eru af máltökuskeiði alist upp við þetta – enn sem komið er – og finnst það þess vegna framandi. En ef við færum að heyra og sjá margar slíkar setningar er engin ástæða til að ætla annað en við myndum venjast þeim smátt og smátt eins og öðrum nýjungum í máli sem breiðast út. Auðvitað tæki það tíma og slík grundvallarbreyting væri örugglega nokkra áratugi að ná til alls málsamfélagsins.
Það hefur líka verið bent á margs konar ósamræmi sem breyting af þessu tagi gæti valdið, a.m.k. meðan hún væri að ganga yfir. Þær ábendingar eiga alveg rétt á sér – það er ljóst að sumar breytingar eru harðari undir tönn en aðrar. Ég er t.d. orðinn svo vanur öll velkomin að ég er hættur að kippa mér upp við það, og öll eru að gera sitt besta truflar mig lítið, en ég á dálítið erfitt með ekkert veit neitt. En þótt þarna skapist eitthvert ósamræmi eru það í sjálfu sér ekki rök gegn breytingunni. Það er ekki eins og tungumálið sé fullkomlega rökrétt kerfi fyrir. Það er auðvelt að benda á ótal dæmi um hvers kyns ósamræmi á ýmsum sviðum málsins – ósamræmi sem við tökum oftast ekkert eftir og truflar okkur alls ekki neitt.
Það er oft sagt að breyting á hlutlausu kyni sé ástæðulaus og óþörf vegna þess að hún sé byggð á þeim misskilningi að málfræðilegt karlkyn vísi einungis til karla. En þarna er ekki um neinn misskilning að ræða. Fólk sem aðhyllist þessa breytingu gerir sér örugglega ágætlega ljóst að karlkynið er og hefur verið notað í almennri vísun og ekki bundið við karla. En það þýðir ekki að breytingin sé ástæðulaus og óþörf. Þau sem aðhyllast breytingu telja nefnilega að þessi notkun karlkynsins sé óheppileg vegna þess að við tengjum málfræðilegt karlkyn við karlmenn, meðvitað og ómeðvitað, og notkun þess í kynhlutlausri merkingu sé því til þess fallin að viðhalda valdastöðu karla í samfélaginu.
Nú getur fólk vitanlega verið sammála eða ósammála þessari afstöðu, en aðalatriðið er að forsendan fyrir því að vilja breyta hlutlausu kyni er pólitísk en ekki málfræðileg. Þess vegna hefur lítið upp á sig að beita málfræðilegum rökum gegn þessari breytingu. Og breyting af þessu tagi sem gerð er á pólitískum forsendum þarf að vekja athygli og ögra, til dæmis með því að nota tilbrigði í máli sem sumum eða flestum finnst ótæk og kalla fram sterk viðbrögð. Það er í þágu hinna pólitísku markmiða. Jafnframt skapast heitar umræður um tungumálið og það er gott því að það sýnir að okkur er ekki sama um íslenskuna. Ég get ekki séð að það skaði tungumálið.