Svörtudagur er frábært orð!

Það er skammt síðan bandaríska verslunarhátíðin Black Friday festi sig rækilega í sessi á Íslandi. Í jólablaði Morgunblaðsins 2010 er sagt frá bandarískum hátíðisdögum, fyrst þakkargjörðarhátíðinni en síðan segir: „Daginn eftir hefst formleg jólaverslun, þá eru búðir opnaðar klukkan fimm um morguninn ef þeim hefur yfir höfuð verið lokað. „Black Friday“ eða föstudagurinn svarti er nafnið sem þessi dagur gengur undir. Það er ekki lögbundinn frídagur en flestir atvinnurekendur gefa frí þennan fyrsta dag eftir þakkargjörðina.“ Þarna er þessi dagur greinilega óþekktur á Íslandi en það breyttist fljótt – árið eftir er auglýst „BLACK FRIDAY í fyrsta sinn á Íslandi“ og síðan hefur vægi dagsins í versluninni farið sívaxandi.

Það hefur verið mörgum þyrnir í augum að heiti dagsins skuli tekið hrátt upp úr ensku þótt vitanlega væri auðvelt að þýða það. Vissulega er stundum auglýstur svartur föstudagur og aðrar tillögur hafa komið fram, svo sem myrkir markaðsdagar, svartur fössari og blökkudagur. Á Nýyrðavef Árnastofnunar er einnig að finna orðið svörtudagur sem þar er rakið til auglýsingar frá 66°Norður árið 2017, en elsta dæmi sem ég finn um orðið er í bréfi frá Bjartmari nokkrum í Velvakanda Morgunblaðsins árið 2015 þar sem lagt er til „að atburður þessi verði kallaður „föstudagsútsalan“ eða jafnvel „Svörtudagur“, ef sá gállinn er á verslunarfólki“. Nú hefur vefverslunin Boozt.com tekið þetta orð upp á sína arma.

Sumum finnst orðið svörtudagur hljóma óeðlilega og ekki vera rétt myndað og það er skiljanlegt. Reyndar er orðið stundum haft í fleirtölu og talað um svörtudaga, enda hefur þessi hátíð verslunarinnar þanist út eins og slíkum viðburðum er gjarnt og jafnvel talað um „Black Friday viku“. Orðið svörtudagar gæti sem best verið samsett úr lýsingarorði og nafnorði, (hinir) svörtu dagar, og hliðstæð orð eru til í málinu, svo sem Svörtuloft og Ljósufjöll. En ef orðið er haft í eintölu, eins og vissulega er algengast, vandast málið. Miðað við sama skilning á orðmynduninni ætti það að vera svartidagur, þ.e. (hinn) svarti dagur, en ekki svörtudagur eins og það er þó haft í auglýsingum. Þýðir það að svörtudagur sé rangt myndað orð?

Ekki endilega. Það eru ýmis dæmi um það í málinu að nefnifall orða, einkum örnefna og annarra sérnafna, hafi orðið fyrir áhrifum frá aukaföllunum og sé þannig ekki „rökrétt“ miðað við venjulegar orðmyndunarreglur. Þekktasta dæmið um það er líklega heitið Fjörður(nar) sem haft er í kvenkyni þótt orðið fjörður sé karlkynsorð. Þar er búin til ný grunnmynd út frá þágufalli fleirtölu fjörðum vegna þess að þágufall fleirtölu er eins í öllum kynjum. Önnur dæmi eru orð eins og Breiðafjörður og Rauðasandur þar sem Breiðifjörður og Rauðisandur væri rökrétt (og vissulega einnig notað). Það væri hægt að hugsa sér hliðstætt ferli í svörtudagur – þar væri „órökrétt“ eintala búin til út frá eðlilegu fleirtölunni svörtudagar.

En þótt þessi skýring sé vel hugsanleg er önnur sem liggur mun beinna við. Hún er sú að segja að á bak við liggi myndin svartidagur sem áður er nefnd, en -i í lok seinni hlutans breytist í -u fyrir áhrif frá heitum vikudaganna sem öll nema eitt hafa fyrri hluta sem endar á -u. Í sunnudagur, miðvikudagur og föstudagur er fyrri hlutinn kvenkynsorðin sunna, (mið)vika og fasta sem enda á -u í eignarfalli þannig að þetta eru eðlilegar eignarfallssamsetningar. En í mánudagur er fyrri hlutinn karlkynsorðið máni enda er eldri mynd mánadagur, og einnig mætti búast við myndunum þriðjidagur og fimmtidagur. Þannig voru orðin líka í fornmáli, en -u hefur komið í stað -i fyrir áhrif frá öðrum dagaheitum.

Þegar -u kemur í stað -i mætti búast við að útkoman yrði *svartudagur. En slík mynd stenst ekki – það er ófrávíkjanleg regla að ö komi í stað a ef u stendur í næsta atkvæði á eftir við aðstæður af þessu tagi. Útkoman verður þá svörtudagur sem er samkvæmt þessu fullkomlega eðlileg mynd, alveg í samræmi við reglur málsins og einmitt sú sem við mætti búast – og við bætist hljóðlíking við föstudagur. Auðvitað tekur samt tíma að venjast orðinu svörtudagur eins og öðrum nýjum orðum, en mér finnst þetta frábært orð og hvet alla auglýsendur til að nota það í stað Black Friday. Í lokin er svo um að gera að rifja upp hið stórkostlega ljóð Svartfasta eftir Jónasarverðlaunahafa ársins, Braga Valdimar Skúlason.