sárugur
Í morgun rakst ég á lýsingarorð sem ég man ekki eftir að hafa séð áður í frétt í Stundinni þar sem stóð: „8 til 10 kör af sárugum fiski voru fyllt á hverjum degi.“ Fleiri dæmi um orðið sárugur eru í fréttinni, m.a. „Enn meiri líkur eru á að slík vetrarsár myndist þegar eldislaxinn er orðinn stór og þrengsli í sjókvíunum eru mikil og meiri líkur eru á því að fiskurinn berjist utan í kvíarnar og verði sárugur“. Það er augljóst að orðið merkir þarna 'allur út í sárum' sem samræmist ágætlega annarri aðalmerkingu viðskeytisins -ugur eins og Gunnlaugur Ingólfsson hefur skilgreint hana: 'þakinn, allur í, ataður', sbr. forugur, hreistrugur, moldugur, skítugur og mörg fleiri (hin aðalmerkingin er 'einkenndur, fullur af, prýddur, gæddur').
Þótt orðið kæmi mér ókunnuglega fyrir sjónir er það ekki alveg nýtt. Elsta dæmi sem ég finn um það er í krossgátu í Fálkanum 1950, þar sem myndin sárug er ráðning á 'sett kaunum'. Orðaforði í krossgátum er auðvitað dálítið sérstakur og stundum búin þar til orð sem ekki eru notuð í venjulegu máli, en fleiri dæmi má samt finna. Í Lesbók Morgunblaðsins 1964 segir: „Nokkrir höfðu verið svo óheppnir að tapa af sér skóm og sokkum í aurbleytu og vatnagangi á leiðinni og voru þeir með bólgna og sáruga fætur.“ Í Vísi 1974 segir: „En á milli óhreinna og sárugra fingra sáust augu hans, stór, brún og hrædd.“ Í Vikunni 1987 segir: „eitthvað þægilegt, já hann fór ekki ofan af því, þægilegt kroppaði í flakandi sárugar hendur hans.“
Fáein nýleg dæmi má svo finna, t.d. „Svo fannst mér Russell Crowe æði í Gladiator og í Proof of Life (eftir að hann varð skítugur og sárugur sko) en hef ekki fílað hann síðan“ á bland.is 2003, „Nagaðir sárugir puttar urðu að fallegum rauðbleikum stiletto með króm á baugfingri“ á Facebook 2018, „Að leggja hann á sárug brjóstin, gefa honum ábót, pumpa og hita brjóstamjólk og svo framvegis“ í Vísi 2021, „Ef að hendurnar eru þurrar og sárugar er meiri hætta á því að óhreinindi komist inn“ á hun.is 2022 og „Ef eldislaxarnir verða sárugir eru þeir ekki hæfir til manneldis og drepast í kvíunum“ í Stundinni 2022. Í öllum tilvikum er merkingin greinilega sú sem áður er nefnd, þ.e. 'allur út í'.
Orðið sárugur er óumdeilanlega rétt myndað, en sáróttur, sem örfá dæmi finnast um, kæmi einnig til greina. Viðskeytið -óttur er skylt -ugur en vísar oftast til aðgreinanlegra ummerkja um það sem felst í rót orðsins – þannig er sagt blóðugur en ekki *blóðóttur, en hins vegar er hægt að segja blóðslettóttur. Orðið sáróttur væri hliðstætt öróttur en væntanlega finnst málnotendum sárugur ná því betur að vera 'allur út í sárum'. Svo höfum við auðvitað lýsingarorðið sár sem merkir m.a. 'með sár á líkamanum' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók þar sem tekið er dæmið hundarnir voru sárir eftir áflogin. Mér finnst það samt ekki ná þeirri merkingu að vera 'allur út í' og mæli þess vegna með orðinu sárugur.