Enskt tal í útvarpsfrétt
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var sagt frá alvarlegu umhverfisslysi í Bandaríkjunum. Í fréttinni var rúmlega 20 sekúndna innslag á ensku þar sem ónafngreindur fulltrúi umhverfisstofnunar Bandaríkjanna lýsti þeim kröfum sem stofnunin gerði á hendur fyrirtækinu sem ber ábyrgð á slysinu. Þetta var hvorki þýtt né endursagt á íslensku og í þessu innslagi kom ýmislegt fram sem ekki var nefnt í íslenskum texta fréttarinnar – hlustendum var því greinlega ætlað að skilja enskuna.
Þetta er ekki einsdæmi – mér finnst það færast í vöxt að enskt tal heyrist í fréttum og fréttaskýringum í útvarpi. Það getur átt rétt á sér að vissu marki, t.d. til að leyfa hlustendum að heyra raddir þekkts fólks eða hlusta á einhverjar meiriháttar yfirlýsingar. Hvorugu var til að dreifa í þessu tilviki, en þótt svo hefði verið hefði samt átt að þýða innslagið. E.t.v. hefur það verið ætlað fyrir sjónvarpsfréttir þar sem hægt er að láta texta fylgja, en í útvarpi hefði átt að sleppa innslaginu og endursegja efni þess.
Mér finnst þetta óboðlegt, einkum og sér í lagi í Ríkisútvarpinu. Það á ekki og má ekki gera ráð fyrir því að allir útvarpshlustendur skilji ensku. Vissulega má segja að í þessu tilviki hafi ekki verið um að ræða frétt sem eigi brýnt erindi til almennings og þess vegna komi ekki að sök þótt hluti hennar hafi eingöngu verið á ensku. En það skiptir bara engu máli – þetta er grundvallaratriði sem ekki á að víkja frá. Ég vonast til þess að Ríkisútvarpið – og aðrar útvarpsstöðvar – geri þetta ekki að vana.