Að kveikja á sturtunni og slökkva á bílnum

Sagnirnar  kveikja og slökkva voru áður fyrr einkum notaðar um eld, og þar sem eldurinn lýsir var eðlilegt að nota þær einnig um ljós – talað er um að kveikja / slökkva eld / ljós þar sem sagnirnar taka andlag. Þetta yfirfærðist svo á hvers kyns ljósfæri sem eldur var tendraður á og þá er notuð forsetningin á – talað um að kveikja / slökkva á kerti / kyndli / blysi / eldspýtu / lampa o.s.frv. Í Þjóðólfi 1896 segir „Þá var kveikt á velskreyttu jólatré“ – það lá beint við að nota sögnina kveikja þar eð logandi kerti voru á trénu. Þegar Íslendingar kynntust gasi var líka hægt að nota sögnina kveikja um það, enda logaði eldur í því: „Ég ætla að fara fram og sækja eldspýtur, svo ég geti kveikt á gasinu“ segir t.d. í Heimskringlu 1892.

Áður var líka eldur í eldavélum og ofnum til hitunar og eðlilegt að nota kveikja á og slökkva á um hvort tveggja (þótt reyndar væri ekki síður talað um að kveikja upp í eldavél / ofni): „Síðan settist hann niður, kveykti á eldavélinni“ í Þjóðólfi 1901 og „Ég þori tæpast út á kvöldin af ótta við íkviknun, en þori þó heldur ekki að slökkva á ofninum“ í Melkorku 1953. En merking sagnanna kveikja og slökkva átti eftir að víkka enn frekar, eins og sést á dæmi úr Lögbergi 1888: „sumstaðar var ekki hægt að kveikja á rafurmagnsljósum um kveldið.“ Þarna voru komin fram ljós þar sem ekki logaði eldur, en vegna þess að þau gegndu sama hlutverki var eðlilegt að nota sömu sagnir. Við höldum líka áfram að nota þessar sagnir um rafmagnseldavélar.

Þróunin hefur orðið sú að kveikja á og slökkva á er notað um hvers kyns rafmagnstæki – ekki bara ljós og eldavélar þar sem eldur logaði áður, heldur líka þvottavélar, straujárn, kaffivélar, brauðristar, sjónvörp, plötuspilara o.s.frv. Merkingin er þá ekki lengur 'tendra / kæfa eld / ljós' heldur 'hleypa rafstraumi á / taka rafstraum af' eða 'setja í gang / stöðva'. Þessi notkun sagnanna hefur tíðkast áratugum saman, væntanlega frá því að umrædd tæki komu á markaðinn, og engum finnst neitt athugavert við þetta. En í seinni tíð er farið að nota kveikja á og slökkva á í ýmsu samhengi þar sem aðrar sagnir hafa tíðkast fram að þessu – kveikja / slökkva á bílnum / krananum / sturtunni / vatninu o.s.frv. Iðulega er þó amast við slíku orðalagi.

Ég er vanur því að nota samböndin setja í gang og drepa á um bíla, en ég sé engin góð rök gegn því að nota kveikja á og slökkva á í staðinn eins og iðulega er gert. Dæmi um það eru vissulega flest nýleg og meginhlutinn af samfélagsmiðlum en þó er ekki um nýjung að ræða – „Þér getið kveikt á bílnum“ segir í Nýjum kvöldvökum 1941 og „Ég hallaði mér áfram til þess að slökkva á bílnum“ í Munin 1955. Ef við lítum svo á að merking sambandanna sé 'hleypa rafstraumi á' og 'taka rafstraum af' verður ekki séð annað en þau eigi við, því að þótt bílar séu knúðir jarðefnaeldsneyti þarf að byrja á að hleypa rafstraumi á kerfið. Og rafbílar eru eins og hver önnur rafmagnstæki og því ætti að liggja beint við að nota kveikja á og slökkva á um þá.

Ég er líka vanur því að nota skrúfa frá og skrúfa fyrir um vatn – skrúfa frá / fyrir krana / sturtu o.s.frv. Það orðalag er gamalt og á rætur í því þegar krana var snúið nokkra hringi til að opna eða loka fyrir vatnsstraum – skrúfa er skýrt 'festa eða losa (e-ð) með hringhreyfingu' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Þetta var því mjög gagnsætt og eðlilegt orð, en nú eru skrúfaðir kranar orðnir frekar sjaldséðir og í staðinn hafa komið blöndunartæki sem stjórnað er með stöngum, hnöppum eða á annan hátt – sumum m.a.s. með hreyfiskynjurum. Það er samt eðlilegt að fólk sem alið er upp við að nota skrúfa fyrir / frá haldi því áfram þótt eðli athafnarinnar hafi breyst, rétt eins og við höldum áfram að tala um eldavél og eldhús þótt sjaldnast sé nokkur eldur þar.

En það er ekki síður eðlilegt að ungt fólk sem alið er upp við blöndunartæki án skrúfgangs velji fremur önnur orð – fyrir því hefur sögnin skrúfa enga skírskotun til verknaðarins og það notar þess í stað þau orðasambönd sem venjulega eru notuð um að 'setja í gang' og 'stöðva', þ.e. kveikja á / slökkva á. Það eru engin rök fyrir því að eðlilegt sé að tala um að kveikja á útvarpinu en ómögulegt að kveikja á sturtunni – í báðum tilvikum er verið að víkka merkingu sagnanna sem upphaflega áttu eingöngu við um eld eða ljós eins og áður segir. Slík merkingarbreyting á sér ótal fordæmi í málinu og er fullkomlega eðlileg. Það er engin ástæða til annars en viðurkenna kveikja á sturtunni og slökkva á bílnum sem rétt og eðlilegt mál.