Höldum kúlinu!
Lýsingarorðið kúl er flettiorð í Íslenskri nútímamálsorðabók og sagt merkja 'svalur, flottur' en tekið fram að það sé „óformlegt, ekki fullviðurkennt mál“. Þarna er vitanlega um að ræða enska lýsingarorðið cool sem hefur verið notað sem tökuorð í íslensku áratugum saman. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Vísi 1978: „Myndin hefst á því að hinn sæti og „kúl“ Thorndyke, sem þjáist af lofthræðslu (ekta Hitchcock) tekur við rekstri „Geðveikrahælis fyrir mjög, mjög truflaða“.“ Þarna er orðið innan gæsalappa eins og til afsökunar. Annað dæmi er í Foringjanum 1979: „Þarna sjáið þið hvað ég er kúl hetja.“ En vegna þess að óformlegt mál komst sjaldan á prent á þessum tíma er ekki ótrúlegt að orðið sé talsvert eldra í málinu. Dæmum fjölgar svo smátt og smátt eftir 1980.
Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er gert ráð fyrir að orðið taki engum formbreytingum, hafi myndina kúl í öllum kynjum og föllum eintölu og fleirtölu, og stigbreytist ekki. Það eru þó ýmis dæmi um að orðið fái þær beygingarendingar sem við væri að búast af íslensku orði. Nefnifallið kúll í karlkyni eintölu er þó varla til nema í fáeinum vafasömum dæmum á samfélagsmiðlum en hvorugkyninu kúlt bregður fyrir: „Ætli þetta eigi ekki bara að vera kúlt?“ í DV 2004. Dæmi eru um fleirtölu í karlkyni og kvenkyni: „Berklasjúklingar væru einatt listfengir og dularfullir, berklar væru kúlir“ í sögu eftir Stefán Snævarr 2017, og „Jesss við erum mjöööög flottar og kúlar“ á Bland.is 2007. Veik beyging er einnig til: „Nú er það Jón Múli, sá kúli gæi“ í Helgarpóstinum 1981.
Þessi dæmi eru þó frekar fá og ekki víst að þau séu alltaf meint í fullri alvöru. Hins vegar er nokkuð um að orðið stigbreytist. Í Morgunblaðinu 1999 segir: „það er greinilega talið miklu „kúlara“ að sveiflast á milli akreina eins og svigskíðakappi á Ólympíuleikum.“ Í Veru 2001 segir: „Hörkuskvísan Jennifer Lopez kom sá og sigraði í Anacondu (1997) og var síðan enn kúlli ef eitthvað var í Out of Sight (1998).“ Í Fréttablaðinu 2011 segir: „Er kannski kúlara að æfa með KR?“ Í DV 2000 segir: „Þetta er kúlasti klúbbur Akureyrar.“ Í Veru 2000 segi: „í stuttu máli fékk ég þær upplýsingar að þessi sænska Nina Björk væri ,,kúlasti nútímafeministinn“ í Skandinavíu.“ Þó stigbreytist kúl iðulega með meira og mest eins og Katrín Axelsdóttir hefur bent á.
En ekki þykir öllum kúl fara vel í íslensku. Í grein í Fréttablaðinu 2006 skrifaði Njörður P. Njarðvík: „„Sá sem glatar kúlinu er einskis virði“, segir í fyrirsögn í Fréttablaðinu 27. okt. Í greininni er þetta orðskrípi haft eftir viðmælanda, en blaðamaðurinn lyftir því upp í fyrirsögn til að auka vægi þessi – öðrum til eftirbreytni eða hvað? Í ensku merkir lo. cool m.a. svalur, kuldalegur, óuppnæmur, ófyrirleitinn. Hér er skýrt dæmi um málfarslega ábyrgð blaðamanna – eða öllu heldur skort. Svona gera menn ekki […].“ Í dæminu sem þarna er vísað til er kúl hins vegar ekki lýsingarorð heldur nafnorð í hvorugkyni eins og sjá má bæði á setningarstöðu þess og greininum. Þannig er orðið iðulega notað, ekki síst í samböndum eins og missa kúlið, halda kúlinu o.fl.
Elstu dæmi sem ég finn um kúl sem nafnorð er í djassskrifum Vernharðs Linnet í Helgarpóstinum 1981: „Það var ekkert skrýtið þótt Ornette ætti erfitt uppdráttar í eyjadjasssamfélaginu þar sem kúlið og boppið voru nýmæli“ og „Skilin milli boppsins og kúlsins eru ekki alltaf mikil“. En nafnorðið kúl í merkingunni 'töffheit' fer að sjást að ráði upp úr 1990: „En svo í reglunum er gefið upp „kúlið“, sem er hversu töff þú ert; ef þú ert með hátt kúl þá ertu eins og Schwarzenegger“ segir í Pressunni 1993, og árið 1994 kom út safnplata með titlinum „Algjört kúl“. Í Morgunblaðinu 1997 segir: „Nei, ég veit bara að amma hefur aldrei misst kúlið“ og í Fjölni sama ár segir: „Hörður hélt kúlinu og bað formanninn að bíða augnablik.“ Í DV 2004 segir: „Leiðin frá hallæri til kúls var ekki í boði ríkisins.“
Nafnorðið kúl fellur ágætlega að málinu – rímar t.d. við púl. Það hefur hins vegar ekki komist í orðabækur þrátt fyrir að vera töluvert algengt. Á annað þúsund dæmi eru um það í Risamálheildinni, meirihlutinn úr óformlegu málsniði samfélagsmiðla en samt nokkur hundruð úr hefðbundnum fjölmiðlum. Aftur á móti eru dæmin um lýsingarorðið kúl hátt í 34 þúsund, þar af rúm 92% af samfélagsmiðlum. Nafnorðið virðist því eiga greiðari leið inn í formlegt málsnið en lýsingarorðið enda beygist það alltaf eftir almennum reglum málsins ólíkt lýsingarorðinu og fellur því í raun betur að málinu. Þrátt fyrir enskan uppruna orðsins sé ég enga ástæðu til að amast við því í íslensku, sérstaklega ekki nafnorðinu, en óneitanlega væri skemmtilegra ef lýsingarorðið beygðist meira.