Að synda kúm
Í bókinni Bréf til Haralds er frásögn Sveins Skorra Höskuldssonar af ferð hans um Skagafjörð sumarið 1951. Þar segir m.a. svo frá komu hans til afa míns og ömmu í Eyhildarholti: „Í sama mund og mig bar upp á bæjarhlaðið blasti við mér sýn sem ég gleymi aldrei: Yfir breiða kvísl austari Héraðsvatna kom syndandi allstór kúahópur, milli tíu og tuttugu gripir, auk kálfa, og héldu allir hölum sínum hátt til lofts upp úr lygnu vatninu. Þær voru að koma til mjalta úr allstórri eyju þar sem þær voru á beit á daginn. Ekki sá ég neinn kúasmala reka hópinn, heldur fylgdi hann gamalli, viturri forystukú sem vissi hvað tímanum leið. Ég undraðist hve léttilega þær syntu og sé enn fyrir mér tvo tugi kýrhala líða upprétta yfir skollita gára Héraðsvatna.“
Kýrnar í Eyhildarholti syntu sem sé yfir Héraðsvötnin tvisvar á dag – til beitar á morgnana og til mjalta á kvöldin. Þetta rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar ég var á Suðureyjum og leiðsögumaður sagði okkur frá því að bændur þar hefðu rekið nautgripi sína yfir breitt sund til slátrunar. „They swam the cows“, sagði hann – þeir syntu kúnum yfir sundið. Og þá er loksins komið að ástæðunni fyrir því að ég segi þessa sögu hér. Þótt hægt sé að nota ensku sögnina swim á þennan hátt sem áhrifssögn (sögn sem tekur með sér andlag) í merkingunni 'láta synda' er ekki venja að nota íslensku sögnina synda svona. Þess í stað verðum við að segja Gísli lét kýrnar synda yfir kvíslina. Sögnin synda er nefnilega áhrifslaus (tekur ekki andlag) í íslensku.
En það gerist stundum að áhrifslaus sögn verður áhrifssögn og fer að taka andlag. Eitt slíkt dæmi er sögnin fljúga. Hún var áður yfirleitt áhrifslaus – fuglar flugu, skeyti flugu, og örvar flugu, en það flaug þeim enginn. Það var varla fyrr en með tilkomu manngerðra hluta eins og loftbelgja og flugvéla sem var farið að fljúga einhverju – fljúga flugvél, fljúga loftbelg. Annað dæmi er af sögninni streyma sem var líka áhrifslaus – lækir streymdu, ár streymdu, og blóð streymdi, en það streymdi þessu enginn. En nýlega var farið að nota streyma í nýrri merkingu fyrir áhrif frá stream í ensku, og nú tölum við hiklaust um að streyma fyrirlestri, streyma tónlist o.s.frv. Einnig hafa sést dæmi um að klæja sé notuð á þennan hátt þótt á það sé ekki komin hefð.
Nú eru aðstæður svo sem óvíða svipaðar og í Eyhildarholti og ekki gert mikið af því að hleypa kúm á sund og því tæpast mikil þörf á sérstakri sögn um þá athöfn (þótt kýr geti reyndar verið miklir sundgarpar eins og Sæunn sannaði hér um árið). Þess vegna á ég ekki von á því að synda verði áhrifssögn í almennu máli – og finnst ekki líklegt að farið verði að tala um að *synda börnum þegar þau eru látin synda í skólasundi. Tilgangur þessa pistils er bara að benda á hvernig málið lagar sig oft að breyttum þörfum samfélagsins án þess að nokkur málspjöll hljótist af – þótt vitanlega þurfi tíma til að venjast nýjungum. En við erum fullkomlega sátt við fljúga og streyma sem áhrifssagnir – sama gæti örugglega orðið um klæja og synda ef á þyrfti að halda.