Að eiga þakkir skilið – eða skildar – eða skyldar?
Í Málvöndunarþættinum var í dag bent á að í auglýsingu í Morgunblaðinu stæði „eiga miklar þakkir skyldar“ og spurt hvort þetta væri nýtt og komið til að vera. Því er til að svara að þetta er fjarri því að vera nýtt. Á tímarit.is eru 1750 dæmi um þakkir skyldar, það elsta í Nýjum félagsritum 1841: „eiga þeir kammerráð Melsteð og Bjarni amtmaður Thórarensen enar mestu þakkir skyldar af landsmönnum.“ Í Málfarsbankanum segir: „Frekar er mælt með því að segja eiga þakkir skildar en eiga þakkir skilið enda þótt hið síðarnefnda sé einnig tækt.“ Þarna er sem sé mælt með myndinni skildar með i, en myndin skyldar með y ekki nefnd. Látum hana bíða í bili en skoðum aðeins þá tvo kosti sem Málfarsbankinn nefnir.
Um sambandið sem Málfarsbankinn mælir með, eiga þakkir skildar, er hátt á sjötta þúsund dæma á tímarit.is, það elsta í Skírni 1848: „og þessi viðleitni er það, sem Konáll á hvað mestar þakkir skildar fyrir af Írlendingum.“ Þarna er lýsingarorðið (eða lýsingarhátturinn) skilinn látið sambeygjast þakkir og standa í fleirtölu, og þolfalli sem stýrist af sögninni eiga. Orðaröðin er óvenjuleg, lýsingarorðið á eftir nafnorðinu, en það er ekki óalgengt í föstum orðasamböndum – og raunar er einnig hægt að segja eiga skildar þakkir þótt það sé miklu sjaldgæfara, aðeins 86 dæmi á tímarit.is. Þetta má t.d. bera saman við dæmi eins og eiga þrjá kílómetra ófarna þar sem lýsingarorðið ófarinn stendur í þolfalli fleirtölu og sambeygist þrjá kílómetra.
En þótt skilinn sé þarna væntanlega komið af sögninni skilja eru merkingarleg tengsl við hana ekki augljós, og sambandið eiga skilið er yfirleitt skýrt sérstaklega í orðabókum. Þess vegna er eðlilegt að málnotendur skynji skilið ekki sem lýsingarorð sem eigi að sambeygjast þakkir heldur sem fast form, eins konar sagnbót sem ekki sambeygist neinu heldur er alltaf óbreytt. Þetta má bera saman við breytingu sem varð í fornu máli þegar beygðum lýsingarhætti eins og í hann hafði vísu orta var skipt út fyrir sagnbót eins og í hann hafði ort vísu. Á sjöunda þúsund dæmi eru um þakkir skilið á tímarit.is, það elsta í Skírni 1845: „og ættu þeir fyrir það miklar þakkir skilið“. Röðin skilið þakkir er einnig til en mun sjaldgæfari – 332 dæmi á tímarit.is.
Komum þá aftur að dæminu þakkir skyldar. Venjulega er litið svo á að munurinn á þakkir skildar og þakkir skyldar sé eingöngu stafsetningarmunur – í seinna dæminu sé y ranglega ritað fyrir i. En sama villa er nánast aldrei gerð í þakkir skylið – um það eru aðeins átta dæmi á tímarit.is, móti 1750 um þakkir skyldar. Það hlýtur því að vera eitthvað í myndinni skildar sem veldur því að málnotendum finnst eðlilegt að rita skyldar. Trúlegt er að þetta sé tengt við þakkarskuld í huga margra – við vitum að u og y skiptast oft á í skyldum orðum. Lýsingarorðið skyldur getur líka merkt 'skyldugur' þannig að hugsanlegt er að málnotendur skilji sambandið svo að skylt sé að þakka einhverjum. Slík merkingartengsl eru nærtækari en við skilinn.
Afbrigðin eiga þakkir skilið, eiga þakkir skildar og eiga þakkir skyldar virðast vera álíka gömul – koma öll fram laust fyrir miðja nítjándu öld samkvæmt tímarit.is. Eins og áður segir eru aðeins tvö þau fyrrnefndu viðurkennd og það fyrstnefnda þó talið síðra, en það síðastnefnda hins vegar talið rangt ritað, þrátt fyrir að það sé algengt og eigi sér álíka langa hefð og hin. Þar að auki má vel halda því fram að það liggi beinna við merkingarlega séð að tengja sambandið eiga þakkir skildar/skyldar við skyldur en skilinn. Þótt sú tenging sé væntanlega ekki í samræmi við upprunann þýðir það ekki endilega að ástæða sé til að hafna henni. Mér finnst engin ástæða til annars en viðurkenna eiga þakkir skyldar til jafns við hin afbrigðin.