Snjólétta, ólétta og fleiri -léttur

Í gær var spurt hér um nafnorðið snjólétta sem var notað í frétt á mbl.is – meira að segja tvisvar, bæði í texta blaðamanns og viðmælanda. „Að sögn Ágústar Freys Bjartmarssonar, yfirverkstjóra á Vík, er snjólétta á fjöllum helsta ástæða þess að vegirnir voru opnaðir fyrr en vanalega. „[…] Nú var snjólétta þannig að við gátum byrjað fyrr“.“ Trúlegt er að blaðamaður hafi tekið orðið upp eftir Ágústi – það er nefnilega ólíklegt að báðir þátttakendur í samtalinu hafi þekkt orðið því að það er mjög sjaldgæft. Það er ekki að finna í neinum orðabókum, ekkert einasta dæmi er um orðið í Risamálheildinni og aðeins þrjú á tímarit.is. Ritmálssafn Árnastofnunar nefnir eitt dæmi um orðið og vísar í heimild, en tilfærir dæmið ekki.

Eitt dæmanna á tímarit.is er úr Sjómannadagsblaðinu 1983: „Veðurátt á Patreksfirði er fremur þurr, og snjólétta mikil.“ Þegar að er gáð kemur í ljós að vitnað er í texta eftir Jón Sigurðsson í Ystafelli í Kaldakinn, og er þar komið dæmið sem vísað er til í Ritmálssafni Árnastofnunar, tekið úr bókinni Land og lýður. Drög til íslenzkra héraðalýsinga frá 1933. Annað dæmi um orðið er einnig frá Jóni í Ystafelli, úr grein í Tímanum 1953: „Það er t.d. söguleg staðreynd að menn björguðu oft fé í hörðum vorum, með því að reka það úr snjóþunga á snjóléttu“. Þriðja dæmið er úr viðtali við Svarfdæling í Tímanum 1968: „Hér um veturinn í ótíð og fannfergi á Norðurlandi en snjóléttu á Suðurlandi.“ Öll þessi dæmi eru því af austanverðu Norðurlandi.

Nafnorðið snjólétta er augljóslega dregið af lýsingarorðinu snjólétt og slík orðmyndun er ekki einsdæmi – þetta er hliðstætt því að nafnorðið ólétta er dregið af lýsingarorðinu ólétt. Elsta dæmi um það orð er í Tímanum 1930: „Eru vel hugsanleg þau tilfelli, þar sem telja mætti vafa leika á því, hvort heldur um sulli sé að ræða eða óléttu, ekki sízt ef t.d. konan skyldi þræta fyrir hið síðara.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1953 segir: „Og það var þessi „ólétta“, sem fyrst vakti grun um að brögð væru í tafli.“ Gæsalappirnar sýna að orðið er þarna ekki fullkomlega viðurkennt, en það virðist verða algengt upp úr 1960. Þetta er einföld og eðlileg orðmyndun sem mætti nýta meira, nota t.d. nafnorð eins og skaplétta af skaplétt, sporlétta af sporlétt o.s.frv.

Þær fáu heimildir sem finnast um snjólétta benda til Norðurlands en ljóst er að um ákaflega sjaldgæft orð er að ræða. Þess vegna er merkilegt að það skuli dúkka upp á netinu meira en hálfri öld eftir að það sást síðast í blaði eða tímariti. En vegna þess að þessi orðmyndun virðist liggja nokkuð beint við er ekki hægt að útiloka þann möguleika að um sjálfstæða orðmyndun sé að ræða, þ.e. viðmælandi mbl.iseða einhver í málumhverfi hans hafi búið orðið til án þess að vita af eldri dæmum um það. Sé svo er þetta dæmi um frjóa og eðlilega orðmyndun, en að öðrum kosti er þetta dæmi um það hvernig mjög sjaldgæf orð geta varðveist í málinu árum og áratugum saman án þess að komast á blað. Hvort sem heldur er finnst mér snjólétta ágætt orð.