(Fyrsta) skóflustunga

Þegar meiriháttar verklegar framkvæmdir hefjast fer oft fram táknræn athöfn þar sem tekin er fyrsta skóflustunga að framkvæmdinni – skóflu er stungið í jörð og hnausi velt við. Í seinni tíð eru reyndar stundum notaðar stórvirkar vinnuvélar til að taka fyrstu skóflustunguna. Orðalagið að taka fyrstu skóflustunguna um upphaf framkvæmda er a.m.k. hundrað ára gamalt. Elsta dæmið í Tímariti Þjóðræknisfélags Íslendinga 1926: „Var fyrst byrjað á járnbrautarlagningu sumarið 1877 og fyrstu skóflustungunni varpað upp á brautarstæðið 13. júlí.“ Annað dæmi er úr Vísi 1927 þar sem sagt er frá upphafi að byggingu stúdentagarðs á Skólavörðuholti: „En við fyrstu skóflustungu, er byrjað var á verkinu, fann einn stúdentanna gamla og ryðbrunna skeifu.“

Í seinni tíð er fyrstu oft sleppt og aðeins talað um að taka skóflustungu. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Þjóðviljanum 1961: „Á árinu 1961 er sem sagt ekki farið að taka skóflustungu fyrir 410 þessara 800 íbúða, sem áttu að vera tilbúnar 1960.“ Þetta verður svo smátt og smátt algengara, einkum eftir 1980. Nýlegt dæmi eru úr Víkurfréttum 2022: „Samlegðin af þessum þremur verkefnum þótti þó nokkur og var tekin skóflustunga að Hljómahöllinni í janúar 2008.“ Þarna er orðið skóflustunga eiginlega orðið heiti á tiltekinni athöfn en ekki lýsing á henni eins og fyrsta skóflustungan er. Hugsanleg ástæða gæti verið sú að oftast er fyrsta skóflustungan sú eina, en svo haldið áfram með vinnuvélum – og sú fyrsta reyndar stundum líka tekin þannig.

En þrátt fyrir að það sé algengt að nota orðið skóflustunga eitt og sér um þessa athöfn er fyrsta skóflustungan samt margfalt algengari. Frá árinu 2000 eru dæmin um síðarnefnda orðalagið hátt í tíu sinnum fleiri á tímarit.is, og nærri sjö sinnum fleiri í Risamálheildinni. Þrátt fyrir það finnst mér ég næstum alltaf sjá talað um skóflustungu, án fyrstu, og mér finnst ég vera nýfarinn að sjá slík dæmi. En hvort tveggja reynist vera kolrangt – skóflustungan ein og sér er a.m.k. 60 ára gömul í málinu, og margfalt sjaldgæfari en fyrsta skóflustungan. Mér finnst þetta gott dæmi um hversu brigðul tilfinning okkar fyrir málinu í kringum okkur getur verið. Okkur finnst það sem við erum ekki alin upp við vera að útrýma því sem við erum vön þótt staðreyndin sé önnur.