Sjálfsprottnar og „tilbúnar“ nýjungar í máli

Íslenskan hefur alla tíð verið að breytast en mismikið og mishratt. Það þarf að hafa í huga að í meira en þúsund ár var íslenskt þjóðfélag mjög stöðugt. Þetta var bændasamfélag þar sem fátt var um nýjungar í atvinnuháttum og hugmyndum og ef um eitthvað slíkt var að ræða náði það til allra aldurshópa. Það þýddi vitanlega að sáralítill munur var á tungutaki og orðaforða milli kynslóða – það komu engin ný umræðuefni til. Nú hefur þetta gerbreyst eins og alkunna er og ekki þarf að útlista – hraði þjóðfélagsins er margfalt meiri, sífellt eru að koma fram ný viðhorf og sjónarmið, sem og nýjungar í lífsháttum og tækni, og það kallar á margvíslegar nýjungar í máli. Það er því eðlilegt og óhjákvæmilegt að málið breytist hraðar en áður.

Þeim nýjungum sem þessar breytingar hafa í för með sér er misvel tekið og þær eiga mismiklar lífslíkur. Sumt fólk setur sig upp á móti öllum nýjungum í máli, hvort sem það er breyttur framburður, ný orð og orðasambönd, nýjar setningagerðir, ný merking orða eða yfirleitt hvers konar nýbreytni í málnotkun. Fyrir þeim er ekkert til sem heitir „eðlileg þróun“ málsins. Öðrum þykir eðlilegt að gera mun á „eðlilegri þróun“ – málbreytingum sem eru sjálfsprottnar meðal almennra málnotenda – og „handstýrðum málbreytingum“ eða „tilbúnum nýjungum“ sem einhver einstaklingur eða hópur kemur með og/eða beitir sér fyrir. Þeim finnst sjálfsprottnu breytingarnar eðlilegar eða a.m.k. óhjákvæmilegar en amast við þeim „tilbúnu.“

En mikilvægt er að athuga að mjög margar nýjungar sem eru fullkomlega viðurkenndar sem rétt og eðlilegt og gott og vandað mál eru í raun „tilbúnar“. Það gildir ekki síst um ótal nýyrði – mörg þau nýyrði sem eru þekktust og þykja best heppnuð eru búin til af málfræðingum eða öðrum áhrifavöldum en ekki sjálfsprottin meðal almennra málnotenda, orð eins og tölva, þota, þyrla og fjölmörg fleiri. Það gildir líka oft um nýja merkingu orða, t.d. þegar orðunum sími, skjár og ýmsum fleiri var gefin ný merking. Einu sinni var líka lagt til að sögninni glöggva yrði gefin merkingin 'leita á netinu' til að losna við tökusögnina gúgla, en sú tillaga hlaut reyndar ekki hljómgrunn með þjóðinni. Einnig eru dæmi um „tilbúnar“ nýjungar í setningagerð.

En það felst líka „handstýring“ eða „tilbúnar breytingar“ í því að amast við því málfari sem fólk hefur tileinkað sér á máltökuskeiði. Þetta á við í framburði, eins og í baráttunni gegn svonefndu „flámæli“ á sínum tíma; í beygingum, eins og í baráttunni gegn ég vill í stað ég vil; í setningagerð, eins og í baráttunni gegn svonefndri „þágufallssýki“; í merkingu orða, eins og í baráttunni gegn því að nota sögnina dingla í merkingunni 'hringja bjöllu'; í orðaforða, eins og í baráttunni gegn tökuorðinu ókei; o.s.frv. Í öllum þessum tilvikum – og fjölmörgum öðrum – hefur verið reynt að fá fólk til að breyta því málfari sem því er eiginlegt. Breytingarnar eru upphaflega sjálfsprottnar, en reynt er að útrýma þeim úr máli fólks með handstýringu.

Það er sjaldnast nokkur eðlismunur á sjálfsprottnum og „tilbúnum“ málbreytingum og öllum hlýtur að vera frjálst að leika sér með málið og breyta sinni eigin málnotkun eins og þeim sýnist. Ég sé enga ástæðu til að amast við slíkum „tilbúnum“ málbreytingum vegna þess að þær hljóta alltaf að takmarkast af hlutverki málsins sem samskiptatæki – það er lítið vit í að breyta málnotkun sinni ef merking þess sem verið er að segja kemst ekki til skila. Það er aftur á móti ástæða til að gjalda varhug við því ef einhvers konar boðvaldi er beitt til að fá fólk til að breyta máli sínu og taka upp tilteknar breytingar. Við getum breytt okkar eigin máli ef okkur sýnist, en leyfum öðrum að halda áfram að tala það mál sem þeim er eiginlegt.