Að meðferða

Í gær heyrði ég sögnina meðferða notaða í sjónvarpsfréttum. Þótt ég hafi aldrei heyrt hana áður skildi ég hana strax, bæði vegna tengsla við nafnorðið meðferð og út frá samhengi – það var talað um að „greina, sjúkdómsgreina og „meðferða““. Ég set meðferða hér innan gæsalappa því að sú sem notaði sögnina gerði tákn fyrir gæsalappir með höndunum sem sýnir að hún áttaði sig á því að þetta væri ekki vel þekkt eða viðurkennd málnotkun. En ég fann slæðing af dæmum um sögnina bæði á netinu og í Risamálheildinni, þau elstu frá 2005. Á Málefnin.com segir „En ég hef meðferðað svo marga“ og á Bland.is voru tvö dæmi, annað var „já ég hringdi upp á Vog áðan og sagði þeim frá ástandinu á heimilinu en þeir sögðust ekki meðferða svona fíkn!!!“

Þótt sögnin meðferða sé ekki algeng er ljóst að hún hefur verið til í málinu í a.m.k. hátt í 20 ár. Meðal dæma sem ég fann um hana á netinu eru „Hún starfaði áður […] við geðgreiningar og að meðferða kvíða og þunglyndi“, „Mögulegt að meðferða fólk með mismunandi raskanir á sama tíma“, og „á krabbameinsdeildinni er hugsað heildrænt þegar verið er að meðferða krabbameinssjúkling.“ Sögnin hefur sjaldan komist í fjölmiðla en fyrir utan dæmið í gær fann ég dæmi úr fréttum Stöðvar tvö 2013, „Í janúarmánuði fengið mikið af spurningum um það hvort að það dugi eitthvað að meðferða einstaklinga sem þessa“, og úr fréttum Ríkisútvarpsins 2015: „Við vitum meira en við vissum fyrir fimm árum um hvernig á að meðferða einstaklinga.“

Í þessum dæmum er ýmist talað um að meðferða sjúkdóm / fíkn eða meðferða fólk (við sjúkdómi / fíkn). Sögnin meðhöndla hefur hliðstæð merkingartilbrigði og í sumum tilvikum væri hægt að nota hana í stað meðferða – talað er um að meðhöndla kvíða og þunglyndi, meðhöndla krabbameinssjúkling o.s.frv. En merking sagnanna er ekki alveg sú sama, ekki frekar en í nafnorðunum meðferð og meðhöndlun. Í meðferða felst oft að verið er að veita ákveðna, vel skilgreinda, skipulagða, sérhæfða og tímabundna meðferð, en meðhöndla vísar fremur til almennrar meðhöndlunar með fjölbreyttum aðferðum, eins og felst í skýringu hennar í Íslenskri nútímamálsorðabók, 'veita heilbrigðisaðstoð og lækningu'. En vissulega skarast þetta oft.

Það eru vitanlega fordæmi fyrir því að sögn sé mynduð af samsettu nafnorði með því að bæta nafnháttarendingunni -a við nafnorðsstofninn – þekkt dæmi er sögnin hesthúsa sem auðvitað er mynduð af nafnorðinu hesthús. Þótt sögnin *ferða í germynd sé ekki til í málinu er miðmyndin ferðast vitanlega alþekkt. Orðfræðilega ætti meðferða því að vera í lagi en spurningin er hvort hennar sé þörf. Ef meðhöndla gengur ekki merkingarlega verða þau sem vilja ekki nota meðferða að nota orðasamband, veita meðferð, sem er dálítið formlegt. Þá má líka minna á að oft er því haldið fram að íslenska sé „sagnamál“ og betra sé að nota eina sögn en samband sagnar og nafnorðs. Ef þörf er fyrir meðferða sé ég ekkert að því að nota hana – hún venst.