Orðlausir unglingar?
Undanfarna daga hefur talsvert verið fjallað um viðtal við Þorgrím Þráinsson rithöfund á Bylgjunni á fimmtudaginn var. Þorgrímur hefur verið gífurlega ötull við að fara í grunnskóla og ræða við nemendur og á skilið mikið hrós fyrir það. Hann talaði mikið um símanotkun og mikilvægi þess að banna farsíma í skólum. Ég ætla ekki að hafa skoðun á því – aðeins ræða um það sem hann sagði um samtal sitt við fjóra 15 ára stráka í Hafnarfirði. „Ég spurði strákana: „Strákar, hvað þýðir „orðaforði“? Ekki glætu. Hvað þýðir „hvoru tveggja“? Ekki hugmynd. Þjálfari sagði við mig í gær: „Ég bað um meiri gæði á æfingu. Leikmenn spurðu: „Hvað meinarðu gæði?“ [...] Afgangur? Hvað meinarðu afgangur? Ertu að tala um change-ið?“
Það er auðvelt fyrir okkur fullorðna fólkið að hneykslast á þessu enda sýnist mér enginn skortur á því. Dæmisögur af þessu tagi geta vissulega verið stuðandi en hafa lítið almennt gildi – ekki er hægt að alhæfa neitt um orðaforða unglinga út frá þeim. En spyrjum okkur samt: Af hverju ættu 15 ára unglingar að kunna orð eins og orðaforði, hvoru tveggja, gæði og afgangur? Eða réttara sagt: Hvernig hefðu þau átt að læra þessi orð? Koma þau fyrir í venjulegu málumhverfi þeirra eða í því sem þau lesa eða horfa á? Og við þetta má bæta: Þurfa þau eitthvað á þessum orðum að halda í því þjóðfélagi sem þau eru að alast upp í? Er ekki miklu skynsamlegra og gagnlegra fyrir þau að leggja áherslu á orð sem nýtast og þörf er á í samtímanum?
Áhyggjur af minnkandi orðaforða barna og unglinga eru ekki nýjar. Í Menntamálum 1942 fjallar Stefán Jónsson um „þær breytingar, sem ég tel mig hafa orðið varan við á málfari barna á liðnum 20 árum, og sem að mínum dómi boða alvarlega hættu. Þessi hætta […] er vaxandi útbreiðsla þágufallsvitleysunnar og minnkandi orðaforði barna og unglinga á skólaaldri.“ Í ályktun kennara á Mið-Vesturlandi 1954 segir: „Fundurinn lítur svo á, að minnkandi orðaforði barna sé alvarleg hætta fyrir íslenzkt mál og menningu.“ Í ályktun Kennarafélags Eyjafjarðar 1959 segir: „Mörg rök hníga að því, að íslenzk tunga eigi nú í vök að verjast, bæði vegna áhrifa frá erlendu máli, enskunni, og minnkandi orðaforða barna og stíllausri frásögn.“
Fjölda annarra sambærilegra dæma mætti tína til, bæði eldri og yngri, og samkvæmt þessu hefur orðaforði barna og unglinga stöðugt farið minnkandi undanfarna öld a.m.k. Ef rétt væri mætti búast við að ungt fólk gæti varla stunið upp einu orði nú á tímum. En auðvitað er það ekki svo. Málið er að það er ekki til neinn mælikvarði á stærð orðaforða fólks. Fyrir ýmis erlend mál eru vissulega til stöðluð orðaforðapróf en þau byggjast alltaf á gefnum forsendum um tiltekin orð sem börn og unglingar á tilteknum aldri eigi að kunna – að mati fullorðna fólksins sem semur prófin. En engin slík próf eru til fyrir íslensku, og fullyrðingar um minnkandi orðaforða íslenskra barna og unglinga byggjast eingöngu á tilfinningu – tilfinningu fullorðna fólksins.
Við Þorgrímur erum á svipuðum aldri þótt hann sé aðeins yngri – báðir aldir upp úti á landi í þjóðfélagi sem var svo gerólíkt því sem nú er að það er erfitt að gera sér breytinguna í hugarlund nema hafa upplifað hana. Breyttu þjóðfélagi fylgja breytingar í máli – það er óhjákvæmilegt. Mikill fjöldi nýrra orða bætist við en önnur falla í gleymsku á móti. Þannig hefur þetta alltaf verið þótt endurnýjunin sé væntanlega örari nú en oftast áður vegna hraðra þjóðfélagsbreytinga. Auðvitað er eftirsjá að orðum sem gleymast. En er eitthvað meiri skaði að þeim en sjónvarpslausum fimmtudögum, sendibréfum, sveitaböllum og Bítlunum, svo að nefnd séu fáein horfin fyrirbæri úr hversdagsmenningu unglingsára okkar sem erum á sjötugsaldri?
Ég legg áherslu á að ég er alls ekki að gera lítið úr áhyggjum Þorgríms og annarra af stöðu íslenskunnar. Það má vel vera að orðaforði barna og unglinga fari minnkandi þótt ekkert sé hægt að fullyrða um það og þrátt fyrir nokkuð galgopalegt tal hér að framan er ég sannarlega á því að samfella í málinu sé mikilvæg og óheppilegt ef orðaforðinn endurnýjast of ört. Það er gífurlega mikilvægt að foreldrar tali við börn og lesi fyrir þau og með þeim. Það er svo sameiginlegt verkefni foreldra og skóla að hvetja börn og unglinga til lestrar og skapandi skrifa. Stjórnvöld þurfa svo að stuðla að því með fjárveitingum að til sé gott úrval af hvers kyns fræðslu, list, skemmtun og afþreyingu á íslensku. Þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra.