Þemað, þeman eða þeminn?

Í innleggi hér fyrir helgi var spurt: „Hefur fólk tekið eftir því að fólk virðist farið að nota „þema“ í bæði karl- og kvenkyni?“ Ég hafði ekki tekið eftir því en fann slæðing af dæmum um hvort tveggja, flest á samfélagsmiðlum. Á Málefnin.com segir 2013: „En samt er þeman í fjölmiðlum alltaf sú sama.“ Á Hugi.is segir 2004: „Að mínu mati finnst mér þetta koma miklu betur út, og rautt passar betur við þemuna.“ Á Málefnin.com segir 2013: „Ég skil þetta þannig að klámið sé að breyta þemunni.“ Á Vísi 2009 segir: „Einhver skrýtinn spænskur þemi í króatíska laginu.“ Í DV 2009 segir: „Með henni voru dansarar með horn og svo virtist sem þeminn væri nautabanar.“ Á Hugi.is segir 2011: „Þetta er málað með þemanum svart, rautt, dökkblátt.“

Farið var að nota orðið í íslensku í þessari mynd á sjöunda áratugnum. Elsta dæmi sem ég finn á prenti er í Þjóðviljanum 1966, í heiti á þýddu ljóði: „Þema með tilbrigðum.“ Í Alþýðublaðinu 1968 segir: „Reynt verði að velja ætíð þau viðfangsefni (þemu) til meðferðar, sem þykja eiga brýnt erindi við fólkið sem sýnt er fyrir og eru tímabærar.“ Í Morgunblaðinu 1968 segir: „Eins og fyrr er þema þeirra ástin, syndin, dauðinn og goðsögnin.“ En myndin tema hafði verið notuð töluvert frá því snemma á öldinni. Elsta dæmi sem ég finn er í Morgunblaðinu 1921 þar sem segir: „Þau tvö temu, sem þátturinn flytur, eru að jafnaði gagnólík.“ Þessi mynd er enn stundum notuð – í Morgunblaðinu 2018 segir: „Þetta er ákaflega blönduð sýning, engin sérstök temu.“

Orðið þema/tema er skýrt 'megininntak verkefnis eða listaverks' í Íslenskri nútímamálsorðabók og er tökuorð úr dönsku þar sem það er skrifað tema og borið fram með t sem skýrir notkun myndarinnar tema fyrstu áratugina. Í ensku er orðið aftur á móti skrifað theme og borið fram með þ og tilkomu myndarinnar þema má væntanlega skýra með auknum enskum áhrifum. Orðið er hvorugkynsorð og eins í öllum föllum eintölu. En flokkur veikra hvorugkynsorða er mjög lítill og hefur nær eingöngu að geyma heiti líffæra og líkamshluta – auga, eyra, hjarta, nýra, milta, eista. Örfá orð annars eðlis slæðast með, eins og bjúga. Orðið þema fellur því ekki að flokknum merkingarlega sem gæti skýrt tilhneigingu til að breyta kyni þess og beygingu.

Langflest nafnorð sem enda á -a í nefnifalli eintölu – og þau eru gífurlega mörg – eru kvenkynsorð. Því er engin furða að þessi sægur togi þema til sín og orðið fái stundum kvenkynsbeygingu, sérstaklega þar sem það rekst illa í sínum hvorugkynsflokki merkingarlega eins og áður segir. Karlkynsmyndir orðsins má aftur á móti skýra út frá aukaföllunum – veik karlkynsorð, sem eru mjög mörg, enda á -a í aukaföllum eins og þema. Það er ekkert einsdæmi að ný nefnifallsmynd sé búin til út frá aukaföllum. Þekkt dæmi um slíkt er myndin talva sem er búin til út frá aukaföllunum tölvu, eftir mynstrinu kaka – köku. Þannig er þemi búið til út frá þema eftir mynstrinu hani – hana. En ég mæli samt með að við höldum okkur við hvorugkynið.