Þetta syrgir mig
Sögnin syrgja er skýrð 'sakna (látins manns), vera hryggur (vegna e-s sem er látinn)' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Notkunardæmi orðabókarinnar, þau sitja heima og syrgja og hann syrgði föður sinn mikið sýna að sögnin getur verið áhrifslaus, án andlags, en hún tekur þó oftast þolfallsandlag sem vísar þá til þess sem er syrgður – föður sinn í dæminu hér á undan. En stundum er hlutverk þolfallsliðarins þó annað eins og kom fram í athugasemd hér í gær þar sem sagt var: „Ég heyrði eitt sinn sagt “það syrgir mig”, í merkingunni gerir sorgmæddan.“ Ég kannaðist ekki við þetta en fór að athuga málið og komst að því að þetta er ekki einsdæmi og hægt er að finna gömul dæmi um þessa merkingu sem virðist nú hafa verið endurvakin.
Í „Gauta kvæði“ sem varðveitt er í Kvæðabók séra Gissurar Sveinssonar frá miðri 18. öld spyr Gauti „hvað syrgir þig, sætan mín“ og svarið er „Mig syrgir það þú mátt ei sjá“ en í öðru handriti stendur í staðinn „það syrgir mig, segir hún þá“. Þarna er merkingin augljóslega 'gera sorgmædda'. En þessi merking var lengi vel mjög sjaldgæf – elsta dæmi sem ég hef fundið um hana á tímarit.is er í kvæði í Heimskringlu 1916 þar sem segir: „Það syrgir mig, Mýrdal, að sjá þér á bak.“ Önnur dæmi frá 20. öld hef ég ekki fundið í fljótu bragði en um síðustu aldamót fer þessi merking skyndilega aftur að sjást. Alls má finna nokkra tugi dæma um hana frá þessari öld í Risamálheildinni, ekki síst í minningargreinum en einnig á samfélagsmiðlum.
Í Morgunblaðinu 1999 segir: „Því það sem syrgir okkur núna var gleði okkar meðan þú lifðir.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Að vita það að þú munt aldrei aftur taka utan um mig og rugga mér eða hita grjónagrautinn þinn sem mér fannst alltaf svo góður, syrgir mig mjög.“ Í Morgunblaðinu 2003 segir: „Það syrgir mig djúpt að nú er lífssiglingu hennar lokið svona snemma.“ Á mbl.is 2003 segir: „Það syrgir okkur ef sumir starfsmenn okkar hafa ekki hegðað sér í samræmi við gildi kirkjunnar okkar.“ Í Vísi 2015 segir: „Og það syrgir mig að sjá hana verða að veruleika.“ Í Kjarnanum 2017 segir: „Það sem syrgir mig mest í málflutningi stuðningsmanna frumvarpsins er hversu ótengdan þeir skynja heiminn.“
Þessi notkun sagnarinnar syrgja er í sjálfu sér skiljanleg – hún lagar sig þarna að sögnum eins og gleðja og hryggja. Við segjum þetta gleður mig í merkingunni 'þetta gerir mig glaðan', þetta hryggir mig í merkingunni 'þetta gerir mig hryggan' – því þá ekki þetta syrgir mig í merkingunni 'þetta gerir mig sorgmæddan'? Vissulega leiðir þetta til þess að sögnin er notuð á mismunandi vegu – annars vegar vísar frumlagið til syrgjanda og andlagið til sorgarefnisins (ég syrgi hana) en hins vegar vísar frumlagið til sorgarefnisins en andlagið til syrgjandans (þetta syrgir mig) en þar er þó tæpast hætta á misskilningi. Í ljósi þess að síðarnefnda notkunin er gömul þótt efast megi um að hefðin fyrir henni sé óslitin er ástæðulaust að amast við henni.