Förufólk

Í gær var sett hér inn frétt af mbl.is með fyrirsögninni „Svíar að skipta um skoðun á förufólki“ – með þeim ummælum að förufólk væri „prýðilegt orð í þessu samhengi“. En um það má deila. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru tvær skýringar á orðinu förufólk – sú fyrri er 'fólk sem flakkar um sveitir í leit að mat og húsaskjóli' og sú seinni 'fólk sem yfirgefur heimkynni sín í leit að betri framtíð'. Orðið förumaður er skýrt 'sá eða sú sem flakkar um sveitir í leit að mat og húsaskjóli, flakkari'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er förumaður skýrt 'Tigger' ('betlari') og Íslenskri orðabók sem 'flakkari, beiningamaður' en förufólk er í hvorugri bókinni. Það er aftur á móti í Íslenskri samheitaorðabók með samheitinu 'vergangsfólk'.

Eins og ég hef oft nefnt er tungumálið valdatæki og fólk í áhrifastöðum, t.d. stjórnmálafólk og fjölmiðlafólk, nýtir það oft á meðvitaðan og markvissan hátt til að reyna að hafa áhrif á skoðanir okkar. Við það er að sjálfsögðu ekkert að athuga – en við þurfum að gera okkur grein fyrir því og skoða það sem frá þessu fólki kemur á gagnrýninn hátt, reyna að átta okkur á því hvernig orðavali og orðanotkun er beitt til að koma ákveðnum viðhorfum á framfæri. Í þessu tilvik má spyrja hvers vegna orðið förufólk sé valið. Í fréttinni er vitnað til nýrrar skýrslu sænska jafnaðarmannaflokksins og sagt: „Fáir hafa verið jafneindregnir talsmenn viðtöku förufólks frá framandi löndum og dásemda fjölmenningarsamfélagsins og sænskir jafnaðarmenn.“

Í sænsku skýrslunni sem vísað er til er talað um invandrare, invandring og migration. Á íslensku er venja að nota orðið innflytjandi um fólk sem flyst til landsins frá öðrum löndum – orðið innflutningur er auðvitað til líka en það er frekar notað um vörur en fólk þótt sambandið innflutningur fólks komi vissulega fyrir. Merkingin í migration er svo einfaldlega 'fólksflutningar'. Í frétt mbl.is er hins vegar valið að nota orðið förufólk í staðinn fyrir hið venjulega orð innflytjendur. Það skiptir máli fyrir andann í fréttinni, því að enginn vafi er á því að orðin förufólk og förumaður hafa á sér neikvæðan blæ í huga margra eins og orðabókarskýringarnar benda til, sem og dæmi í Ritmálssafni Árnastofnunar og á tímarit.is.

Nú er ég hlynntur því að endurnýta gömul orð sem hafa lokið hlutverki sínu í upphaflegri merkingu, og vissulega er förufólk lipurt orð og hefur stundum í seinni tíð verið notað um fólk sem fer milli landa eins og seinni skýring Íslenskrar nútímamálsorðabókar bendir til. En þótt förufólk í eldri merkingu sé blessunarlega horfið hér á landi er svo sannarlega ekki alls staðar. Þess vegna er full þörf fyrir orðið í sinni upphaflegu merkingu, og jafnvel þótt svo væri ekki er ljóst að a.m.k. verulegur hluti málnotenda þekkir hina neikvæðu merkingu orðsins. Það er óheppilegt að taka gömul orð sem hafa haft neikvæða eða niðrandi merkingu og ætla sér að nota þau í hlutlausri eða jákvæðri merkingu – hætt við að uppruninn þvoist ekki af þeim.

Þetta á sérstaklega við um orð sem notuð eru um jaðarsetta hópa og fólk sem á undir högg að sækja af einhverjum ástæðum. Ef fjölmiðlar nota orð sem hafa á sér neikvæðan eða niðrandi blæ um þessa hópa er það til þess fallið að ýta undir neikvætt almenningsálit gagnvart þeim. Ef orðið innflytjandi þykir af einhverjum ástæðum óheppilegt er vel hægt að bregðast við á annan hátt en með því að grípa til orðs sem hefur neikvæða merkingu í huga margra. Það mætti t.d. nota orðið farandfólk sem notað er sem þýðing á migrants í Hugtakasafni þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins eða farfólk sem einnig er dæmi um að hafi verið notað í sömu merkingu. En með því að tala um förufólk er tekin skýr pólitísk afstaða – sem sjálfsagt hugnast sumum.