Verkurinn leiðir – eða verkinn leiðir?
Ég fékk fyrirspurn um hvort ætti að segja verkurinn leiðir (fram í handlegg) eða verkinn leiðir. Fyrsta hugsun mín var að eðlilegt væri að segja verkinn leiðir en þegar ég fór að athuga málið sýndist mér það ekki jafn sjálfsagt og í fyrstu. Það er eðlilegt að tengja þessi dæmi við setningu þar sem verkur er andlag, svo sem taugin leiðir verkinn fram í handlegg. Í málinu er að finna ýmis pör þar sem þolfallsandlag í slíkri setningu er gert að frumlagi og fær þá venjulegt dæmigert frumlagsfall, nefnifall: hún stækkaði íbúðina – íbúðin stækkaði, ríkisstjórnin lækkaði skattana – skattarnir lækkuðu, hann minnkaði drykkjuna – drykkjan minnkaði, þau opnuðu búðina – búðin opnaði, þjálfarinn hvíldi þær – þær hvíldu, o.fl.
Það eru reyndar til dæmi um þolfall í frumlagssæti í svipuðum setningum, eins og bátinn rak að landi og reykinn leggur upp. Í báðum tilvikum er þó rík tilhneiging til að nefnifall komi í stað þolfallsins. Þágufallsandlög halda hins vegar oftast fallinu – við segjum skipafélagið fjölgaði ferðunum –ferðunum fjölgaði, skatturinn fækkaði undanþágum – undanþágum fækkaði, o.s.frv. Stundum er það upp og ofan hvort þágufall helst eða nefnifall kemur í staðinn – kjörstjórnir loka kjörstöðum getur orðið bæði kjörstaðir loka og kjörstöðum lokar. Með sumum sögnum kemur alltaf nefnifall – hann velti bílnum verður bíllinn velti en ekki *bílnum velti – og reyndar var sagt ferðir fjölguðu og undanþágur fækkuðu á 19. öld.
Ég finn engar vísbendingar í orðabókum um fallnotkun með leiða í þessu sambandi, en samkvæmt dæmunum að framan mætti búast við nefnifalli, verkurinn leiðir fram í handlegg. Mikill meirihluti dæma á tímarit.is hefur líka nefnifall en dæmin eru reyndar mjög fá – 25 um nefnifall en aðeins sjö um þolfall. Elsta dæmi þolfallið er í Læknablaðinu 1978: „Verki leiðir út í eyru“. Elsta dæmi um nefnifallið er í Heilbrigðismálum 1985: „Verkurinn leiðir oftar út í vinstri handlegg en hægri.“ Þessi aldursmunur er svo lítill og dæmin svo fá að ekki er hægt að taka þolfallið fram yfir nefnifall á grundvelli hans. Í Risamálheildinni eru dæmin um 110 og öll nema sjö hafa nefnifall. Langflest dæmi um sambandið eru af samfélagsmiðlum.
Í Málfarsbankanum segir reyndar: „Sögnin leiða getur verið ópersónuleg. Með henni stendur frumlag í þolfalli: eitthvað (þf.) leiðir af einhverju (þgf.). Af þessu leiðir mikinn vanda. Ekki er hægt að rífa húsið án þess að af því leiði hættu.“ En þarna er um að ræða sambandið leiða af sem er dálítið annað, þótt vissulega gæti þessi notkun haft áhrif á máltilfinningu sumra. Einnig er hugsanlegt að skyld notkun sagnarinnar leggja valdi því að þolfall er stundum notað með leiða – sagt er verkinn leggur fram í handlegg. En mér sýnist bæði málhefð og samanburður við aðrar sagnir mæla eindregið með því að nota nefnifall í dæminu sem um var spurt og segja verkurinn leiðir fram í handlegg, þótt ég myndi hika við að kalla verkinn leiðir rangt.