Hætt

Í frétt á Vísi í gær undir fyrirsögninni „Hödd hætt hjá Sigríði Hrund forsetaframbjóðanda“ er spurt „hvort þetta hætt hennar hafi borið brátt að“. Þarna er orðið hætt notað sem nafnorð og ég hef séð ýmsar athugasemdir við það, bæði hér í hópnum og víðar. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem hætt er notað sem nafnorð – sami blaðamaður skrifaði á Facebook í fyrra: „Af hverju er Páll Vilhjálmsson ekki enn búinn að skrifa fréttaskýringu um þetta hætt Þóru.“ Elsta dæmi sem ég hef fundið um hætt sem nafnorð er þó á Bland.is 2007 þar sem segir: „Hún er að æfa sig fyrir hið fullkomna hætt.“ En hvað er um þessa orðmyndun að segja – er hætt ótækt orð eins og sumum finnst greinilega, eða er þetta góð og gild viðbót við orðaforðann?

Augljóslega er hætt myndað af sögninni hætta með því að sleppa nafnháttarendingunni -a. Slík orðmyndun er fjarri því að vera einsdæmi. Þannig er nafnorðið hrós leitt af sögninni hrósa, nafnorðið væl leitt af sögninni væla, nafnorðið brun leitt af sögninni bruna, o.s.frv. Þessi orðmyndun er frjó í málinu – í handboltalýsingu fyrir tveimur árum lýsti Einar Örn Jónsson aðförum leikmanns þannig að þær væru „stjak meira en ýt og alls ekki hrind“ – og fékk hrós fyrir myndrænt og auðugt orðaval. Orðin stjak, ýt og hrind eru augljóslega mynduð af sögnunum stjaka, ýta og hrindastjak kemur m.a. fyrir í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, dæmi er frá upphafi 20. aldar um ýt, en hrind virðist vera nýsmíði Einars Arnar.

Ég hef séð spurt að því hvort ekki væri þá eðlilegt að tala um *byrj, af sögninni byrja, í samræmi við hætt af hætta. En á þessu tvennu er grundvallarmunur. Í fyrsta lagi myndi slík orðmyndun brjóta hljóðskipunarreglur málsins – samhljóðaklasinn -rj stæði þá í enda orðs en engin íslensk orð enda á þann hátt. Í öðru lagi höfum við þegar nafnorðið byrjun, myndað með viðskeyti af sögninni byrja, og því engin þörf fyrir annað orð. Aftur á móti er ekki til neitt verknaðarnafnorð af sögninni hætta. Nú má auðvitað velta því fyrir sér hver þörfin sé fyrir slíkt orð. Í sumum tilvikum, eins og í fréttinni sem hér er til umræðu, hefði t.d. verið hægt að nota orðið starfslok, en það á ekki ávallt við – t.d. ekki ef málið snýst um að fólk sé að hætta að reykja eða drekka.

Vissulega er ekki nauðsynlegt að til hverrar sagnar sem felur í sér verknað eða athöfn svari verknaðarnafnorð – oft er hægt að haga máli sínu á annan hátt. Í áðurnefndri frétt hefði t.d. verið hægt að segja hvort það að hún lét af störfum hafi borið brátt að. Þetta getur stundum farið betur en oft fæst samt styttra og hnitmiðaðra mál með því að nota nafnorð – ekki síst ef þau eru lipur eins og hætt. Fyrir utan að vera myndað á eðlilegan hátt fellur það að hljóðskipunarreglum – þótt flest orð sem enda á -ætt séu reyndar kvenkynsorð er til í eldra máli hvorugkynsorðið vætt. Mér finnst sem sagt ekkert að því að taka upp hvorugkynsorðið hætt í merkingunni 'það að hætta' ef fólki sýnist svo, en auðvitað þarf að venjast því eins og öðrum nýjum orðum.