Tökuorð eru ekki með lík í lestinni

Í gær skrifaði ég hér um lýsingarorði vanskapaður og önnur orð með forskeytinu van- og benti á að þau hafa oft neikvæðan og jafnvel niðrandi blæ og eru því óheppileg í vísun til fólks. Í athugasemd var nefnt að ýmis dæmi sýndu að það skipti ekki máli þótt nýtt orð sé tekið upp í stað orðs sem er notað á þennan hátt – nýja orðið fái fljótlega á sig sama neikvæða stimpilinn og það eldra. Skynsamlegra sé fyrir þá hópa sem þessi orð eru notuð um að gera eins og hommar gerðu á sínum tíma með orðið hommi sem áður var mjög neikvætt en er nú viðurkennt og hlutlaust orð. Fólkið þurfi sem sé að taka orðin sem um er að ræða upp á sína arma og nota þau um sjálft sig. Þetta eru rök sem oft heyrast í þessu máli en hér er ekki allt sem sýnist.

Það er alveg rétt að þetta tókst á endanum hjá hommunum, sem eiga heiður og hrós skilið fyrir þrautseigjuna í baráttu sinni fyrir þessu orði. En þegar því er haldið fram að aðrir hópar jaðarsettra geti fetað í fótspor þeirra gleymist eitt mjög mikilvægt – að þótt orðið hommi sé löngu orðið fullgilt íslenskt orð er það ekki íslenskrar ættar og á sér enga ættingja í málinu sem hægt sé að tengja það við. Þess vegna va hægt að breyta merkingu þess – það sat ekki uppi með nein lík í lestinni. Ég fullyrði að það hefði verið útilokað – og engum hefði dottið í hug – að taka orðið kynvillingur upp á sína arma á sama hátt og gera að hlutlausu orði, vegna þeirra hugrenningatengsla sem það hefur óhjákvæmilega við orðin villa, villtur, villingur o.fl.

Annað dæmi sem er að nokkru leyti hliðstætt er lýsingarorðið döff sem er notað um fólk „sem tilheyrir samfélagi heyrnarlausra og hefur táknmál sem fyrsta mál“ segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. Orðið er í raun tökuorð úr íslenska táknmálinu (en ekki úr ensku eins og oft er talið) og stundum er amast við því þar sem það sé ekki íslenska og falli ekki vel að málinu því að það beygist ekki. Það er oft litið á þetta orð sem samheiti við heyrnarlaus en það er ekki nákvæmt eins og segir á heimasíðu Félags heyrnarlausra: „Samsömun og sjálfsmynd eru mikilvægir þættir í þessu samhengi. Að vera döff er því menningarleg skilgreining á heyrnarleysi.“ Fólk getur verið heyrnarlaust án þess að vera döff og öfugt.

En ástæðan fyrir því að nota döff frekar en heyrnarlaus er væntanlega einnig hliðstæð ástæðunni fyrir því að nota hommi frekar en kynvillingur – orðið heyrnarlaus felur í sér einhverja vöntun eða galla. Í grein sem skólastjóri Vesturhlíðarskóla skrifaði þegar nafni skólans var breytt úr Heyrnleysingjaskólinn leggur hann áherslu á að nafnbreytingin sé „síður en svo gerð til þess að forðast orðið heyrnarlaus. Þó einhverjir kunni að líta á það heiti sem óæskilega aðgreiningu, stimplun eða brennimerkingu […].“ En “leysingja”-endingin þykir nú orðið bæði neikvæð og niðrandi og æ færri taka sér hana í munn“ segir hann einnig. Þarna kemur skýrt fram að orðin heyrnarlaus og heyrnleysingi hafa neikvæðar tengingar sem orðið döff er laust við.

Þótt inngilding orðanna hommi og döff í íslenskt mál og málsamfélag sé ekki að öllu leyti sambærileg eiga orðin það sameiginlegt að þau eru í málinu á eigin forsendum en þurfa ekki að burðast með stóran hóp skyldra og tengdra orða sem móti meðvitaðar og ómeðvitaðar hugmyndir okkar um þau. Þess vegna var hægt að breyta hommi úr neikvæðu skammaryrði í hlutlaust eða jákvætt orð, og þess vegna er döff hlutlausara og þar af leiðandi heppilegra orð en heyrnarlaus. Hið margrómaða gagnsæi íslenskunnar sem felst í því „að orðið sé lýsandi og hægt sé að lesa út úr orðinu merkingu þess eða a.m.k. vísbendingu um merkingu þess“ er oft kostur en eins og ég hef skrifað um er það líka oft til vandræða. Orðin hommi og döff eru frjáls.