Mannskari – og mannfjöldi og mannmergð

Ég fékk fyrirspurn um hvort orðið mannskari væri til, í merkingunni 'hópur fólks'. Orðið skari er vitanlega gamalt í málinu og vel þekkt í merkingunni 'hópur, flokkur, fjöldi', sem og ýmsar samsetningar – áhorfendaskari, barnaskari, fuglaskari, krakkaskari, stjörnuskari o.fl. Því mætti ætla að mannskari væri einnig til og jafnvel algengt, en það er þó ekki að finna í orðabókum, hvorki Íslenskri orðabókÍslenskri nútímamálsorðabók, og aðeins eitt dæmi um það er í Ritmálssafni Árnastofnunar – „Eg blanda mjer í mannskarana í stórstöðunum“ í öðrum árgangi ritsins Margvíslegt Gaman og alvara sem Magnús Stephensen gaf út 1818. Á tímarit.is má þó finna 72 dæmi um orðið, það elsta frá 1912, og 66 dæmi eru í Risamálheildinni.

Orðið mannskari er stofnsamsett en það er athyglisvert að nær allar aðrar samsetningar með -skari eru eignarfallssamsetningar. Það á við um öll orðin sem nefnd eru hér að framan og flest önnur sem ég hef fundið dæmi um. Helsta undantekningin er herskari sem áður merkti 'herflokkur' en merkir nú bara 'mikill fjöldi' – nokkurn veginn sama og orðið skari eitt og sér. Langflest þeirra örfáu dæma sem finnast um samsetninguna mannaskari eru úr bundnu máli þar sem bragformið kallar á tvíkvæðan fyrri lið. Það eru til ýmsar eignarfallssamsetningar með -mannaskari þar sem fyrri liðurinn er samsettur, svo sem embættismannaskari, blaðamannaskari o.fl., en eignarfallssamsetning er meginregla í orðum af þessu tagi.

Það er ekki bara í samsetningum með -skari sem mann- sker sig úr í því að mynda stofnsamsetningu. Sama máli gegnir um samsetningar með -fjöldi og -mergð sem hafa svipaða merkingu og -skari – fyrri liður þeirra er nær alltaf í eignarfalli fleirtölu en undantekningar eru orðin mannfjöldi og mannmergð. Vissulega er mannafjöldi til en þá vísar fjöldi oftast til ákveðinnar tölu eins og í „Mannafjöldi er misjafn nokkuð á þessum skipum, en meðaltal mun vera 14 á skip“ í Norðurlandi 1903, og „Í 7. töflu eru taldir bæir og mannafjöldi við línurnar“ í Tímariti Verkfræðingafélags Íslands 1923. Einnig eru fáein dæmi um mannamergð en þar af nokkur úr bundnu máli þar sem tvíkvæður liður þarf að vera, eins og í mannaskari.

En hvers vegna myndar rótin mann- ekki eignarfallssamsetningar með -fjöldi, -mergð og -skari eins og flestar eða allar aðrar rætur? Um það er hæpið að fullyrða nokkuð en mér finnst freistandi að tengja það við tvíræðni orðsins maður. Ef notaðar eru eignarfallssamsetningar eins og mannafjöldi, mannamergð og mannaskari gæti leikið vafi á því hvort vísun fyrri hlutans væri almenn, eða hvort vísað væri til karlmanna eingöngu. En rótin mann- tengist karlmönnum ekkert sérstaklega – eða miklu síður – í huga fólks eins og m.a. sést á því að fólk sem hefur leitast við að koma með önnur orð fyrir maður til nota í almennri merkingu hefur stungið upp á manneskja, man og menni – sem öll eru af þessari rót. Þetta er samt bara skot út í loftið.