Gerum íslenskukunnáttu eftirsóknarverða
Stundum heyri ég fólk hneykslast á innflytjendum sem hafa búið hér árum saman en ekki lært íslensku og halda því fram að við eigum að gera kröfur til innflytjenda um íslenskukunnáttu. Þessi hneykslun er í sjálfu sér skiljanleg – okkur finnst sjálfsagt að fólk sem hefur ákveðið að starfa og búa í þessu samfélagi læri tungumál þess, og það ætti að vera sjálfsagt. En þarna þarf að huga að mörgu. Oft vísa slíkar athugasemdir til málnotkunar fólks í opinberri umræðu, t.d. sjónvarpsviðtölum. Það er ekkert óeðlilegt að fólk sem hefur ekki náð fullu valdi á íslensku veigri sér við að tala málið við slíkar aðstæður þótt það tali málið kannski hversdags, vegna þess að það hefur heyrt að fólk er iðulega gagnrýnt og gert gys að því fyrir hvers kyns „villur“.
Þótt það kunni að virðast æskilegt að gera kröfur til innflytjenda um íslenskukunnáttu verður að hafa í huga að slíkar kröfur verða að byggjast á málefnalegum forsendum. Í úrskurði Kærunefndar jafnréttismála nr. 4/2019 er vísað í Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018 og sagt: „Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. orkar ekki tvímælis að mati kærunefndarinnar að kröfur um tungumálakunnáttu geta í ýmsum tilvikum talist lögmætar, enda þótt þær komi að einhverju marki niður á einstaklingum sem eru af erlendum þjóðernisuppruna og búa þar með hugsanlega ekki yfir íslenskukunnáttu.“ En jafnframt segir: „Kröfur […] um íslenskuþekkingu geta því verið til þess fallnar að fara í bága við“ bann við mismunun á vinnumarkaði.
Það er auðvelt að færa málefnaleg rök fyrir mikilvægi íslenskukunnáttu við ýmis störf – afgreiðslu- og þjónustustörf, umönnunarstörf, störf á leikskólum og frístundaheimilum, og jafnvel leigubílaakstur svo að vísað sé í nýlega umræðu. Aftur á móti gegnir öðru máli um t.d. störf í byggingariðnaði, við ræstingar o.fl. Í þeim er ýmist ekki þörf mikilla mállegra samskipta eða þau samskipti hljóta hvort eð er að verða mest á erlendum málum vegna þess að vinnufélagar fólks eru af erlendum uppruna. Því væri sennilega ekki hægt að gera kröfur um íslenskukunnáttu til fólks í þessum störfum og ef við ætlumst til þess að fólkið læri íslensku verður það að byggjast á því að það finni hjá sér einhverja þörf til þess og sjái gagnsemi í því.
Í staðinn fyrir að spyrja „Hvers vegna hefur fólkið ekki lært íslensku?“ ættum við að prófa að snúa þessu við og spyrja „Hvers vegna hefði fólkið átt að læra íslensku?“. Það dugir ekki að svara bara „Af því að íslenska er opinbert mál í landinu“. Fólk leggur yfirleitt ekki á sig að læra nýtt tungumál af þeirri ástæðu einni. Ekki dettur okkur í hug að áfellast íslensku frumbyggjana í Vesturheimi sem sum hver lærðu aldrei ensku sér til gagns. Þau þurftu þess ekki vegna þess að þau bjuggu sér til íslenskt samfélag í nýju heimkynnunum. Sú staðreynd að fólk býr og starfar á Íslandi árum saman án þess að læra íslensku sýnir að fólk hefur ekki séð brýna þörf fyrir að læra málið vegna þess að það er yfirleitt hægt að bjarga sér ágætlega á ensku.
Það er ekki innflytjendunum að kenna heldur okkur sjálfum. Það erum við sem höfum leyft enskunni að verða svo fyrirferðarmikil í íslensku málsamfélagi að hún dugir fólki til allra daglegra nota. En hún nægir samt ekki til fullrar þátttöku í samfélaginu – þátttaka innflytjenda í kosningum og í almennri lýðræðislegri umræðu er mjög lítil, sýnileiki þeirra í fjölmiðlum sömuleiðis, og margt fleira mætti nefna. Það þarf að auðvelda innflytjendum eins og mögulegt er að læra íslensku en það er ekki nóg – það þarf líka að hvetja þá til að læra málið. Það verður ekki gert með boðum og bönnum, heldur með því að gera íslenskukunnáttu áhugaverða og eftirsóknarverða – sýna fram á gildi og mikilvægi fullrar þátttöku í samfélaginu.