Posted on Færðu inn athugasemd

Að renna út á tíma

Orðalagið renna út á tíma bar hér á góma í morgun og var vísað í blogg Ómars Ragnarssonar sem segir að þetta sé „enska eða enskuskotin íslenska“. Gagnrýni á þetta orðasamband er ekki ný af nálinni – Gísli Jónsson sagði í Morgunblaðinu 2001: „,,Að renna út á tíma“ er afkáraleg stæling úr ensku um það að komast í tímaþröng, tímahrak.“ Elsta dæmi sem ég finn um renna út á tíma er í Alþýðublaðinu 1988: „Við vorum að renna út á tíma, urðum að svara fyrir 15. febrúar hvort forkaupsrétturinn yrði nýttur eða ekki.“ Í ræðu á Alþingi 1988 segir: „Virðulegur forseti, er ég að renna út á tíma?“ Í DV 1989 segir: „Þeir halda því fram að verslunin takmarki framboð á íslenskum bjór til þess að tryggja sölu á erlendum bjór sem er að renna út á tíma.“

Það er trúlega rétt að þetta orðalag sé ættað úr run out of time í ensku, en það er ekki næg ástæða til að fordæma það því að samband sagnarinnar renna, atviksorðsins út og nafnorðsins tími er gamalt í málinu. Í Skírni 1886 segir: „Sá tími rann út, meðan Tórýmenn voru við stjórnina.“ Í Aldamótum 1893 segir: „tími leiptursins og jarðskjálptanna var runninn út.“ Í Ísafold 1897 segir: „svo að hann standi snauður og afrekalaus, þegar tíminn rennur út.“ Í Skýrslum um landshagi á Íslandi 1858 segir: „er 5 ára tími sá, sem skipið var leigt um, útrunninn 1. apríl.“ Í Þjóðólfi 1860 segir: „voru mennirnir með peningana ókomnir að sunnan, og sá tími útrunnin sem þeirra var von.“ Í Þjóðólfi 1864 segir: „Hér stóð nú kálfrinn í kúnni, og vopnahléstíminn útrunninn.“

Í bloggi sínu vísar Ómar í orðalagið falla á tíma úr skákmáli og hugnast það betur en renna út á tíma sem hann segir „á góðri leið með að ryðja notkun íslenskra orða, svo sem „að falla á tíma““. Orðalagið falla á tíma virðist reyndar ekki vera mjög gamalt – elstu dæmi sem ég finn um það eru frá miðjum sjötta áratugnum og spurningin er hvort það er eitthvað síður sniðið að ensku. Þetta heitir á ensku flag fall sem vísar til þess að „flaggið“, litli rauði vísirinn á (gamaldags) skákklukku, fellur þegar tíminn er úti. Ástæðan fyrir því að sögnin falla er notuð í íslenska sambandinu er væntanlega sú að fall er notuð í því enska. En hvað sem upprunanum líður er ljóst að ekki er hægt að nota falla á tíma í öllum merkingum sem renna út á tíma hefur.

Eins og dæmin sýna er það ekki eingöngu notað um að komast í tímaþröng eins og Gísli Jónsson nefndi, heldur einnig um það þegar eitthvað er að verða úrelt – útrunnið. En það er líka notað þegar tími sem er gefinn til að ljúka einhverju rennur út án þess að nokkuð sé aðhafst, eins og dæmið „Aðgerðin rann út á tíma“ úr áðurnefndu bloggi Ómars sýnir. Dæmum um sambandið renna út á tíma hefur fjölgað ört síðan um miðjan tíunda áratuginn og alls eru rúm 700 dæmi um það í Risamálheildinni, þar af tæp 400 úr öðrum textum en af samfélagsmiðlum. Sambandið er því greinilega orðið fast bæði í formlegu og óformlegu málsniði og ég sé enga ástæðu til að amast við því enda löng hefð fyrir því að tengja renna og tíma saman eins og áður segir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.