Sótsvartur almúginn
Hér var nefnt í gær að í þætti í Ríkisútvarpinu hefði verið talað um „sótsvartan almúgann“ þótt venja væri að tala um sauðsvartan almúgann – í þættinum var spurt: „Hvað þurfum við, sótsvartur almúginn að borga stóran hluta af mánaðarlaununum okkar fyrir eina nótt á fimm stjörnu hóteli á Íslandi?“ Það er auðvitað rétt að venjuleg gerð orðasambandsins er sauðsvartan almúgann – það er t.d. gefið í Íslenskri orðabók og skýrt 'ómenntað fólk, alþýða manna, almenningur'. Elsta dæmi um sambandið á tímarit.is er í Gesti Vestfirðingi 1850: „Gestur er heldur ekki upp á marga fiska, og ekki fyrir sauðsvarta almúgann töfluverkið í honum.“ Á tímarit.is eru tæp 1200 dæmi um sambandið, og í Risamálheildinni eru dæmin tæplega 650.
En það er ekki nýtt að tala um sótsvartan almúgann – elsta dæmið á tímarit.is er í Speglinum 1943: „en trúboðið gengi illa meðal sótsvarts almúgans.“ Spegillinn var reyndar skopblað, „samvizkubit þjóðarinnar“, þannig að þetta gæti verið skrifað í gríni. Næsta dæmi er úr Alþýðublaðinu 1961: „meðan sótsvartur almúginn dansi á götum úti.“ Í Alþýðublaðinu 1985 segir: „Mismunurinn er því 6.6 milljónir króna og munar um minna – að minnsta kosti fyrir sótsvartan almúgann!“ Þrjú dæmi í viðbót eru fram að aldamótum en um 2005 fer þeim að fjölga og eru hátt í 30 frá þessari öld. Í Risamálheildinni eru dæmin hátt í 150, þar af um 110 af samfélagsmiðlum. Það er því ljóst að þetta afbrigði orðasambandsins er í sókn.
Orðið sauðsvartur merkir 'sem hefur eðlilegan svartan sauðarlit'. Með breyttri þjóðfélagsgerð og lífsháttum er kannski ekkert óeðlilegt að tengsl við sauðkindur og sauðarlit dofni í huga fólks og leitað sé annað í líkingum. Vissulega má segja að sót sé ekki heldur áberandi í umhverfi okkar núorðið en hins vegar er sót- algengur áhersluforliður – notaður í orðum eins og sótillur, sótrauður, sótreiður, sótvondur, sótbölva, sótroðna o.fl. Orðið sótsvartur er ekki heldur tengt við sót í orðabókum, heldur skýrt 'dökkur, kolsvartur' í Íslenskri orðabók og 'mjög dökkur' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt þótt farið sé að tala um sótsvartan almúgann þótt mörgum finnist örugglega æskilegt að halda í eldri gerð sambandsins.