Kynjamál, valdið yfir tungumálinu – og maður
Víða erlendis hafa átök um vald yfir tungumálinu sett svip á baráttu kvenna og hinsegin fólks á undanförnum árum. Þessara átaka hefur líka gætt á Íslandi – jafnvel minni háttar tilburðir í átt til kynhlutleysis í máli eins og að skipta orðinu fiskimaður út fyrir fiskari í lagagrein, eða tala um starfsfólksfund í staðinn fyrir starfsmannafund, eða nota öll velkomin í auglýsingum frekar en allir velkomnir, eða búa til sérstakt íðorð (leghafi) til að hægt sé að vísa til allra sem eru með leg, eða óska eftir hugmyndum að kynhlutlausu orði um foreldri foreldra, hafa mætt mikilli andstöðu sem augljóslega á sér oft fremur kynjapólitískar rætur en málfræðilegar. Einn þáttur þessara átaka snýst um merkingu og notkun orðsins maður og samsetninga af því.
Orðið maður er langalgengasta nafnorðið í íslensku bæði að fornu og nýju, og merking þess er mjög fjölbreytt. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru gefnar þrjár merkingar orðsins: (1) „karl eða kona, manneskja“ (dæmi: þróun mannsins); (2) „karlmaður“ (dæmi: hún sá mann ganga yfir götuna); og (3) „eiginmaður“ (dæmi: maðurinn hennar er læknir). Auk þess er maður sem óákveðið fornafn sérstakt flettiorð, í merkingunni „ótilgreind persóna, einhver; oft notað sem ópersónuleg tilvísun til þess sem talar“. Í Íslenskri orðabók er merkingu nafnorðsins maður lýst í átta liðum, auk þess sem fleirtalan menn og eignarfall eintölu manns eru sérstakar flettur. Einnig er maður gefið upp sem óákveðið fornafn eins og í Íslenskri nútímamálsorðabók.
Í fornu máli gat maður bæði haft almenna og kynhlutlausa merkingu, „Menneske uden hensyn til Kjøn“, og einnig vísað til karlmanna eingöngu, „Mand, Mandsperson, mods. kona“, eins og segir í orðabók Fritzners. Fyrri merkingin er einkum algeng í lagamáli þótt hún komi vissulega fyrir víðar. Þegar í fornu máli eru þó dæmi um að maður sé notað sem andstæða við kona og þeim dæmum fer fjölgandi á seinni öldum. Á 19. og 20. öld er greinilegt að hinn eðlilegi og sjálfgefni skilningur á orðinu maður í vísun til tiltekinnar mannveru er ʻkarlmaðurʼ. Þótt almenna merkingin haldist enn við ákveðnar aðstæður, svo sem í lagamáli, virðist hún vera á undanhaldi, bæði vegna samfélagsbreytinga og meðvitaðrar málstýringar.
Það tvíeðli orðsins maður að vera tegundarheiti en vera jafnframt mjög oft notað í vísun til karlmanna eingöngu hefur lengi verið þyrnir í augum margra sem berjast fyrir jafnrétti kynjanna, enda líta þau á það sem þátt í karllægni tungumálsins sem liti viðhorf okkar til kynjanna. Í baráttu Rauðsokkahreyfingarinnar upp úr 1970 var leitast við að draga úr henni með því að leggja aðaláherslu á almennu merkinguna, og eitt helsta kjörorðið var konur eru (líka) menn. Þessi barátta virðist þó ekki hafa haft mikil áhrif á málnotkun og máltilfinningu almennings og undir 1990 tóku Kvennalistakonur upp nýja stefnu – vildu fremur leggja áherslu á sérstöðu kynjanna og þar með merkinguna ʻkarlmaðurʼ, og tala um menn og konur.
Þótt umræða um karllægni tungumála og tilraunir til að draga úr henni hafi verið áberandi víða erlendis undanfarin ár er deilan um orðið maður að miklu leyti séríslensk og því einkar forvitnileg. Þetta stafar af því að flest skyld tungumál, sem við þekkjum best og vitnum helst til, hafa mismunandi orð fyrir þau ólíku hlutverk sem orðið maður gegnir í íslensku. Í ensku merkir man yfirleitt ʻkarlmaðurʼ, en í almennu merkingunni er notað human (being), og one sem óákveðið fornafn. Í dönsku merkir mand venjulega ʻkarlmaðurʼ en í almennu merkingunni er notað menneske, og man eða én sem óákveðið fornafn. Í þýsku er Mann ʻkarlmaðurʼ en Mensch er notað í almennri merkingu, og sem óákveðið fornafn er notað man eða ein.
Í færeysku merkir maður bara ʻkarlmaðurʼ en í almennri merkingu er notað menniskja og mann eða ein sem óákveðið fornafn. Þar eru samsetningar með -maður algengar eins og í íslensku og mörgum hafa þótt þær óheppilegar vegna merkingar orðsins maður. Færeyska lögþingið samþykkti því vorið 2023 breytingar á „stýrisskipan“ Færeyja sem höfðu verið til umræðu í nokkur ár og gera ráð fyrir að -kvinna komi í stað -maður í starfsheitum í stjórnsýslunni þegar konur gegna störfunum – landsstýriskvinna, løgkvinna, løgtingsforkvinna og fleira. Í umræðu um þetta hefur m.a. verið nefnt að íslenska sé öðruvísi en færeyska í þessu tilliti. Páll á Reynatúgvu, løgtingsformaður, segir „at á hesum øki eru íslendingar púra avgjørdir, tí har siga tey, at »maður« er eitt heiti, sama um talan er um eina kvinnu ella um ein mann“.