Hryðjuverk – taka tvö
Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég um orðið hryðjuverk og benti á að merking þess hefði breyst á undanförnum áratugum – áður hefði það verið notað um ýmis ódæðisverk sem ekki yrðu kölluð hryðjuverk nú og sagði: „Orðið hryðjuverk hefur því í raun verið gert að eins konar íðorði og notað sem þýðing á (act of) terrorism í ensku. […] Það er í sjálfu sér gagnlegt að hafa sérstakt orð yfir ódæði af þessu tagi og ekki illa til fundið að nýta orðið hryðjuverk í þeim tilgangi, þótt það geti stundum verið svolítið ruglandi fyrir þau sem ólust upp við almennari merkingu orðsins.“ Um helgina kom einmitt upp mjög skýrt dæmi um það hvernig þessi merkingarbreyting orðsins getur valdið misskilningi og ruglað umræðuna.
Í viðtali í Vísi í fyrradag lýsti verslunareigandi aðkomunni að verslun sinni eftir brunann í Kringlunni svo: „Þetta var bara eins og hryðjuverk, þetta var bara skelfilegt.“ Þessi notkun orðsins hryðjuverk vakti blendin viðbrögð og DV hefur tínt saman nokkrar tilvitnanir af samfélagsmiðlum þar sem hún er fordæmd. Í einni er sagt „Algerlega óviðeigandi orðanotkun og þynnir algerlega það sem konan vil koma á framfæri. Oj.“ Í annarri tilvitnun segir „Bremsaðu þig drama-drottning held þú gerir þér litla grein fyrir hvað er að verða fyrir hryðjuverki!“ Í þriðju tilvitnuninni segir „Augljóst að Svava þekkir ekki merkingu orðsins „hryðjuverk“. Slíkt er venjulega framið af fólki í ákveðnum tilgangi. Hitt er tjón af völdum eldsvoða.“
Verslunareigandinn er um sextugt og hefur væntanlega alist upp við almennari merkingu orðsins hryðjuverk en nú tíðkast – rétt eins og ég, enda hnaut ég ekki um orð hennar þegar ég las viðtalið. Þess vegna er ekkert óeðlilegt við að hún bregði þessu orði fyrir sig í geðshræringu í óundirbúnu viðtali og fráleitt að ráðast að henni fyrir það. Þetta dæmi sýnir annars vegar hættuna sem getur fylgt því að taka orð úr almennu máli og gera það að íðorði, og hins vegar hættuna sem getur fylgt því að byggja aðeins á eigin máli og málkunnáttu en leiða ekki hugann að því að orð geta haft aðra merkingu í máli annarra. En aðallega minnir þetta okkur þó á að dæma fólk ekki fyrir málfar þess og orðanotkun heldur sýna umburðarlyndi.