Posted on

Einu sinni málvilla, alltaf málvilla – eða hvað?

Í gagnrýni á málfar mennta- og barnamálaráðherra í viðtali á Bylgjunni í gær hefur verið vísað til þriggja atriða þar sem málnotkun hans samræmdist ekki venjulegum viðmiðum – hann sagði „mér hlakkar til“ og „ég vill“ og notaði fleirtöluna „einkanir“. Ég bar í bætifláka fyrir þetta, benti á að allt á þetta sér margra áratuga sögu í málinu og er mjög útbreitt, a.m.k. tvennt það fyrrnefnda, og sjálfur er ég alinn upp við einkanir þótt það hafi kannski aldrei verið mitt mál. Í umræðum á „Málspjalli“ sagði Ólína Þorvarðardóttir: „Æ, góði Eiríkur, þetta eru málvillur“ og bætti við: „þetta er ekki það sem skilgreint og kennt hefur verið í íslenskri málfræði sem rétt mál“. Það er vissulega rétt – en hvaða forsendur eru fyrir því að telja þetta rangt?

Hefðbundin skilgreining á „réttu“ máli og „röngu“ var fyrst sett fram árið 1986 í álitsgerð nefndar um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum sem menntamálaráðherra skipaði, og hljóðar svo: „Nauðsynlegt er að átta sig vel á því að rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju.“ Rætur þessarar skilgreiningar eru raunar í grein eftir Baldur Jónsson sem birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins 1973: „Ef venjur málsins eru virtar, er málið rétt. Ef þær eru brotnar, er málið rangt.“ Ari Páll Kristinsson orðaði þetta svo í grein á Vísindavefnum 2002: „Rétt íslenskt mál er málnotkun sem samræmist (einhverri) íslenskri málvenju en rangt íslenskt mál samrýmist engri íslenskri málvenju.“

Allar þessar skilgreiningar byggjast á hugtakinu málvenja en það er ekki skilgreint og svo sem hægt að deila um hvað það merki. Ég hef sett fram fimm viðmið um það hvaða skilyrði tiltekið málfarsatriði þurfi að uppfylla til að geta talist málvenja en þau eru vitanlega umdeilanleg. En í ljósi aldurs og tíðni áðurnefndra þriggja atriða sé ég ekki að nokkur vafi geti leikið á því að þau séu málvenja einhvers hluta málnotenda – vitanlega ekki allra, en ekkert er því til fyrirstöðu að tvær eða fleiri mismunand málvenjur séu í gangi samtímis eins og sést á skilgreiningu Ara Páls, „samræmist (einhverri) íslenskri málvenju.“ Þess vegna ættu þessi þrjú atriði ótvírætt að teljast „rétt mál“ en ekki „málvillur“ samkvæmt viðurkenndum skilgreiningum.

En samt er haldið áfram að kenna þau sem „málvillur“. Ástæðan er ótrúleg íhaldssemi í íslenskukennslu og viðhorfum til tungumálsins. Um flokkinn málvillur má segja eins og sagt er um konungsgarð í Egils sögu, að hann er „rúmur inngangs en þröngur brottfarar“. Ef fólk hefur alist upp við að tiltekið atriði sé talið „málvilla“ er eins og það eigi ákaflega erfitt með að taka það atriði í sátt sem „rétt mál“, þrátt fyrir að öll rök hnígi til þess. Auðvitað breytist málið – málvenjur falla í skuggann og nýjar koma upp. Sumar hverfa aftur en aðrar festast í sessi, og ættu þá að hljóta viðurkenningu sem „rétt mál“ samkvæmt áðurnefndum viðmiðum. En mörg virðast vera föst í því að það sem þau lærðu að væri „málvilla“ verði það um aldur og ævi.

Þó er auðvelt að benda á ýmis dæmi þar sem viðmiðin hafa breyst. Sagnirnar vona og vænta tóku stundum þolfallsfrumlag á nítjándu öld – „mig vonar“ skrifaði Jónas Hallgrímsson í Fjölni 1835 og „mig væntir“ skrifaði Konráð Gíslason í sama rit 1838. Sagnirnar fjölga og fækka tóku nefnifallsfrumlag á nítjándu öld – „fólkið […] fór að fækka“ og „heimabændur fjölga“ segir í Fjölni 1839. Engum hefur samt dottið í hug að kalla það „þágufallssýki“ þótt við segjum nú fólki fækkar og bændum fjölgar. Þágufall af Egill var venjulega Egli fram á tuttugustu öld – og talið „rétt“. Eignarfall eintölu með greini af faðir var föðursins á seinni hluta nítjándu aldar – og líka talið „rétt“. Svo mætti lengi telja upp atriði sem hafa breyst síðan á nítjándu öld.

Einstöku atriði hafa þó breyst á seinni árum. Þegar ég var í skóla þótti hin herfilegasta málvilla að segja þora því, en í Málfarsbankanum segir: „Sögnin þora stýrði upprunalega þolfalli en er nú líka farin að stýra þágufalli. Bæði kemur því til greina að segja ég þori það ekki og ég þori því ekki.“ Eftir sem áður sýnist mér þora því enn iðulega vera talið „málvilla“. Og þetta vekur auðvitað þá spurningu hvers vegna ekki „kemur til greina“ að mati Málfarsbankans að segja bæði ég hlakka til og mig/mér hlakkar til – þar er vitanlega óumdeilanlegt að sögnin hlakka er „nú líka farin að stýra þágufalli“ á frumlagi sínu. Þarna ríkir „skipulagslaus íhaldssemi“ svo að ég vísi í grein mína um íslenska málstefnu í Skímu 1985 (sem ekki mæltist alls staðar vel fyrir).

Þegar ég hélt því fram í „Málvöndunarþættinum“ að umrædd atriði ættu ekki að teljast „málvillur“ voru viðbrögðin m.a. „Ja hérna, allt mitt íslenskunám til einskis“ sem er vitanlega dapurlegur vitnisburður – annaðhvort um íslenskukennsluna sem höfundur hefur fengið eða um það sem hún skynjaði sem aðalatriði hennar. En vegna þeirrar áherslu sem hefur verið lögð á að kenna „rétt mál“ skil ég vel að fólk eigi erfitt með að kyngja því ef eitthvað sem því hefur verið kennt að sé „málvilla“ er allt í einu í góðu lagi. Einu sinni hélt ég því fram að á bak við tregðu okkar til að taka málbreytingar í sátt, jafnvel þegar þær eru löngu orðnar málvenja, lægi hugmyndin: Þetta er rangt af því að það hefur verið kennt svo lengi að það sé rangt.