Posted on

Orðskrípi

Eitt þeirra orða sem oftast bregður fyrir í íslenskri málfarsumræðu er orðskrípi. Um það eru hátt í fimmtán hundruð dæmi á tímarit.is og það var algengt alla tuttugustu öldina og fram undir þetta. Orð kemur fyrir þegar í fornu máli – í formála málfræðiritgerðanna í Ormsbók (Codex Wormianus) segir: „til þess að skáldin mætti þá mjúkara kveða eftir nýfundinni leturlist, en hafa eigi hvert orðsskrípi, það sem fornskáldin nýttu, en hálfu síður auka í enn verrum orðum en áður hafa fundin verið.“ Á nítjándu öld og lengi framan af þeirri tuttugustu virðist orðið oftast hafa verið haft um orð sem komin eru úr dönsku, mismikið aðlöguð íslensku. Það hefur hins vegar breyst og í seinni tíð virðist orðið helst notað um samsett orð mynduð úr íslensku hráefni.

Meðal þeirra fjöldamörgu orða sem hafa verið úthrópuð sem orðskrípi í blöðum og tímaritum á þessari öld eru eftirfarandi samsetningar: afglæpavæðing, alþjóðavæðing, atvinnutækifæri, áfengismenning, ákvarðanataka, barnaklám, birtumagn, framkvæmdastýra, frammistöðuvandi, gengisaðlögun, hágæða, hátæknisjúkrahús, hlustendavænn, kostunaraðili, kynskiptingur, könnunarviðræður, landsbyggð, launþegahreyfing, lágvöruverðsverslun, leiðtogi, listakona, matvælaöryggi, nýbúi, orsakavaldur, óásættanlegur, óhagnaðardrifinn, peningaþvætti, rannsóknarblaðamennska, reiðhjólamaður, ristavél, ritstífla, samkeppnisaðili, skjalastjórnun, snjóstormur, stýrivextir, sölumeðferð, teymi, tilfinningagreind, þúsöld.

Vissulega eru mörg þessi orð nokkuð löng og ekki sérlega lipur en þó hvorki lengri né stirðari en fjöldi annarra sem þykja góð og gild. Eins og sjá má eru hér engin orð úr dönsku enda danska löngu hætt að hafa áhrif á íslensku, en hér eru ekki heldur nein orð sem beri skýr merki um enskan uppruna þótt það helsta sem fólk hefur á móti orðum eins og snjóstormur og teymi sé að þau eigi sér enskar fyrirmyndir (snowstorm og team). Stundum hefur fólk það á móti orðunum að þau séu óþörf vegna þess að fyrir sé í málinu orð sömu merkingar (brauðrist ekki ristavél), og stundum finnst fólki þau „órökrétt“ (lágvöruverðsverslun, óhagnaðardrifinn). En mörg þessara orða eru nú komin í mikla notkun og orðin hversdagsleg og hafa verið tekin í sátt.

Oftast virðist ástæðan fyrir andstöðunni nefnilega einfaldlega vera sú að fólki finnst orðin ljót vegna þess að það er ekki vant þeim. Oft er vitnað í það sem Halldór Laxness skrifaði í Tímariti Máls og menningar 1941: „Það sem máli skiptir er þetta: í augum rithöfundar eru ekki til önnur orðskrípi en þau, sem fara illa í tilteknu sambandi – og það er yfirleitt ekki hægt að verða rithöfundur, fyrr en maður er vaxinn upp úr þeirri hugmynd, að til séu orðskrípi. Ekkert orð er skrípi, ef það stendur á réttum stað.“ Og Halldór heldur áfram: „Sé byrjað á að skipta málinu í orð og orðskrípi, leggja á orð einhvers konar siðferðilega dóma, lenda menn fljótt í ófærum.“ Þetta er kjarni málsins. Sé eitthvert orð í málinu óþarft skrípi er það orðskrípi.